Ég lærði að sauma 5 ára gömul, bjó til ballkjól á Barbí úr vasaklút pabba. Hvort hann var hrifinn af uppátækinu veit ég ekki, en Barbí var svo sannarlega glæsileg í múnderingunni. Á því miður ekki mynd, í þá daga var ekki bruðlað með filmur á svo hversdagslegt efni.
Ég saumaði þetta korselett upp úr venjulegu öryggisvesti. Svona flíkur er ekki hægt að fjöldaframleiða, það þarf að máta það á röngunni og nota ógrynni af títuprjónum til að fá flíkina til að passa. Og ókosturinn er að það má hvorki þyngjast né léttast, þá passar það ekki lengur. Frétti að vændiskonur á Spáni voru neyddar til að ganga í öryggisvestum ef þær ætluðu að selja blíðu sína í vegarkantinum, eins gott að vera ekki í þessu vesti þar í hjólaferð, það gæti valdið misskilningi.
Ég var félagi í Útivist á mínum yngri árum. Þrammaði þá með þeim nokkrar perlur Íslands, Fimmvörðuhálsinn, fullt af dagsferðum og ógleymanleg páskaferð á Snæfellsjökul. Svo tók ómegðin og sófasetutímabilið við og ég hreyfði mig lítið á þeim tíma. Það var alls ekki leiðinlegt tímabil, að horfa á börn að leik er líka góð skemmtun. En því lauk og allt í einu sat ég ein inni í stofu og enginn vildi leika við mig. Kallinn í boltanum og krakkarnir úti að leika við vini sína. Svo ég fór á stúfana og fann Fjallahjólaklúbbinn. Búin að eiga margar góðar stundir hjólandi með félögum mínum út um hvippinn og hvappinn. En stundum hafa fallið niður ferðir hjá okkur, og þá hafa félagarnir í Hjólarækt Útivistar ættleitt mig. Svo ég ákvað að gerast aftur félagi í Útivist og nota síðsumarið í minni hjólandi tilveru til að njóta þess að ferðast um á reiðhjóli. Á meðan ég get og gigtin leyfir. Enginn veit sína æfi fyrr en öll er.
Það var hjólað, sungið, etið, drukkið og skemmt sér á 40 ára afmælishátið Útivistar við Strútsskála. Ég var hópi 6 sem hjóluðu á svæðið, en jeppadeildin mætti líka, sem og gönguhópar. Mikið gasalega var þetta gaman. Ég gleymdi að kíkja á veðurspá, bókaði mig í ferðina og borgaði matinn fyrirfram. Úps. Grenjandi rigning og rok. Shit. Jæja, ég hætti þá bara við. En sem betur fer skánaði veðurspáin smám saman og daginn sem við keyrðum áleiðis og hjóluðum 30 km leið að Strútsskála var komið fínasta veður. Þennan sama dag var drusluganga haldin viða um land. Guðbjartur var eini karlkyns hjólarinn í hópnum, hafði þó andlegan stuðning af Grétari sem sá um að trússa dótið okkar inn í Strút.
Til að fyrirbyggja misskilning, við vorum allar góðar við Guðbjart. Hann, í augnabliks aðgæsluleysi datt á nánast engri ferð og skrámaðist. Sem betur fer ekkert alvarlegt, en hann sá um druslugönguna fyrir okkar hönd.
Leiðin er falleg og við hjóluðum á vegi, sem breyttist um tíma í nokkuð þungfæran sand. Og eftir að við mættum hópi hestafólks, þá breyttist þungfæri sandurinn í ófært helvíti. En samt, að ganga og styðja sig við reiðhjól er auðveldara en ganga án reiðhjóls. Og miklu meira töff en venjuleg göngugrind, sem ég ehemm, skal viðurkenna að ég hef verið að íhuga að fjárfesta í til að nota við ákveðnar aðstæður, svo ég geti sest þegar hnén bera mig ekki lengur.
Á reiðhjóli skynjar maður hluti öðruvísi. Ef þú sérð eitthvað fallegt í náttúrunni, þá stoppar maður á 5 sekúndum og nær að festa augnablikið á filmu. Eða flögu réttara sagt. Á 90 km hraða er það aðeins flóknara og fólk nennir ekki að standa í því að stöðva, snúa við, keyra til baka, snúa aftur við og finna jafnvel ekki staðinn aftur. Stundum er þetta metraspurgsmál að stoppa á rétta staðnum.
Talandi um að stoppa á rétta staðnum... Á ferðalagi um holt og hæðir þarf fólk óhjákvæmilega að gera þarfir sínar úti í guðsgrænni náttúrunni. Í einu stoppinu gekk ég vel frá hópnum svo andblærinn myndi ekki bera ilminn aftur til þeirra. Verandi með mín ónýtu hné, þá á ég í smá erfiðleikum með að koma mér í góða stellingu. Ef ég er bara að pissa geri ég það hálfstandandi með rassinn út í loftið. Sérlega skemmtilegt sjónarhorn ef einhver kemur óvænt aftan að mér á þeim tímapunkti...
En ég þurfti að gera meira og þá vandast málið örlítið. Ég get ekki sest á hækjur mér eins og fólk gerir almennt úti í náttúrunni. Ég notaði stóran stein, hallaði mér upp að honum og lét mig síga niður þangað til ég var komin í sömu stellingu og þegar ég sit á skínandi hvítu postulíni. Þarna sit ég að því er virðist í lausu lofti þegar bíll kemur úr hinni áttinni og stoppar rétt hjá mér. Þar eð ég var í skærgulu öryggisvesti get ég ekki ímyndað mér annað en fólkið hafi séð mig, en það er ekki alveg víst að þau hafi áttað sig á hvað ég var að gera. Kannski verið að furða sig á þessari houdini stellingu og, ehemm, kannski tekið mynd... Eða kannski bara að skoða kort, en það voru gatnamót framundan. Um leið og ég stóð upp og girti mig, þá spændu þau í burtu. Kannski var fólkið í bílnum þá fyrst að fatta að ég var ekki sitjandi á steini.
Þessi mynd af mér var tekin fyrr um morguninn fyrir utan Strútsskála, kannski teikn um það sem koma myndi. Og talandi um teikn. Þegar hjólaferð helgarinnar var lokið, þá var þessi tala á mælinum.
Hjólafélagar mínir skildu ekkert í því að ég skyldi bera hjólið nokkra metra upp á grasbalann, sem ég gerði til að hafa skemmtilegri bakgrunn með þessari mögnuðu tölu. Sem ég hefði nú kannski átt að segja þeim að væri á mælinum. Ég bar hjólið til að skemma ekki töluna, en það hefði ég gert ef ég hefði leitt hjólið þangað.
Ég gerði þau mistök að taka bara eina mynd, súmmaði inn og sýndist myndin vera í fókus. Sem hún er ekki. Og Guðrún myndaðist alveg skelfilega. Nei, hin Guðrúnin. Nei, sú þriðja. Sem er yfirmáluð með grænu. Dísus, þegar það eru þrjár konur á einni mynd sem heita allar Guðrún og ein af þeim er þarna eða ekki, eða einhver allt önnur kona, þá geta skrif mín vissulega virkað ruglingsleg.
Ef þið rekist á mynd af mér einhvers staðar á netinu skítandi úti í móa, þá já, er leyfilegt aðglotta út í annað en vinsamlega ekki dreifa henni áfram. Hver hefur ekki verið í mínum sporum, ég bara spyr..
Ég var undanfari í Latabæjarhlaupinu árið 2012. Við Cristy klæddum okkur upp og hjóluðum á undan sprækum 6-8 ára krökkum. Réttara sagt, við náðum þeim áður en þau komu í mark. Við heyrðum ekki þegar hlaupinu var startað, sáum bara rauða bylgju af krökkum koma æðandi í áttina að okkur, taka framúr og skilja okkur eftir í rykinu. Við spændum af stað og náðum grislingunum. Sem betur fer, agalegt ef það hefði frést að við, garpar í Fjallahjólaklúbbnum hefðum ekki haft í við 6-8 ára krakka. Hér má stutt myndband frá Latabæjarhlaupinu. Ég var með myndavél aftan á bögglaberanum.
https://www.youtube.com/watch?v=asH5SKdBJ2M
Eftir þetta hafa ekki verið notaðir undanfarar í Latabæjarhlaupinu... hmmm. Eins og margir feður þökkuðu okkur fyrir að klæða okkur upp og gleðja börnin.
Ég gaf aftur kost á mér í ár, en lenti á varamannabekknum. Mætti niður í Hljómskálagarð snemma morguns til að taka púls á stemmingunni. Kannski taka 3km skemmtiskokk. Leysa eftirfarana af, fólk þarf jú að komast á klósett. En það endaði með því að ég var undanfari í 42 km maraþonhlaupinu. Eftir á, þá er ég ekki viss um að það sé erfiðasta hlaupið að hjóla fyrir. Við hjóluðum á ca 16-18 km jöfnum hraða, en í Latabæjarhlaupinu þá sprengdum við okkur á fyrstu 100 metrunum og komum móðar og másandi í mark í hálfgerðu áfalli. Þeir sem hlaupa 10 og 21km fara líka mun hraðar en þeir sem hlaupa 42km. En auðvitað þarf að vera í góðu hjólaformi og geta hangið á hnakk í ríflega 2 tíma án hvíldar.
En aftur. Það var tekið fram úr mér. Fokk. Afsakið orðbragðið. Ég var líka á Menningarnótt. Við Corinna vorum undanfarar og hún hægði á til að kanna hvort það væri langt á milli fyrstu hlauparanna. Ég kom að hringtorgi sem var fullt af föngulegum, hálfnöktum, vöðvastæltum hlaupandi karlmönnum, starfsfólki í vestum, borðar hingað og þangað og lögreglan á bifhjólum (sem voru sko líka fyrir augað...) og ég bara sá ekki í fljótu bragði hvernig ég ætti að fara í gegn um hringtorgið. Sem betur fer vissu hlaupararnir hvert ætti að fara og tóku fram úr mér og beygðu til vinstri. Ég náði þeim nú fljótt og reyndi að fylgjast betur með götumerkingunum og láta ekki þá karlmenn sem komu hlaupandi á móti afvegaleiða mig. Í Fossvogsdalnum skiptum við liði, Corinna lóðsaði fyrstu tvö, ég þann þriðja í mark. Síðustu 2 kílómetrarnir voru eiginlega mest stressandi, af því mikið af fólki var á götunum labbandi þvers og kruss.
Þetta gekk allt stórslysalaust fyrir sig, en það er skondið á litla Íslandi, að ég þekkti fullt af fólki. Hitti Ingileif bekkjarsystur mína sem var á leið í hálfmaraþon. Snorra Má bekkjarbróður og hjólagarp. Hjólaði fram á Guðrúnu í gönguklúbbnum sem spurði mig hvort ég væri með pumpu. Ég varð að góla að ég væri upptekin sem undanfari í Maraþoninu og hjóla fram hjá konu í neyð. Annars er ég greiðvikin og alltaf til í að aðstoða fólk. Þóra í mömmuklúbbnum var að viðra hundinn sinn í Fossvoginum. Ég heyrði fleira fólk kalla á mig úr mannmergðinni "Hrönn" og "Hjólahrönn" og jafnvel mitt fulla nafn "Hrönn Harðardóttir". Ég sem hélt að enginn vissi hver ég væri. Svo ég bara brosti í allar áttir og heilsaði með virktum. Þetta var bara gaman.
Ég fór út að hjóla í dag. Það er svo sem ekki í frásögur færandi, suma daga gerist ekki neitt, svo næsta dag er eins og maður sé staddur í stuttmynd eftir Fellini. Ég stormaði inn í bakgarð. Þar gekk ég fram á þjóðþekkta konu við iðju sem ég myndi aldrei láta nappa mig í. Hún sat í kjallaratröppum og var að reykja. Ég reykti þó í ein 10 ár, til 26 ára aldurs. Þá hafði ég ekki heilsu til að reykja lengur.
Þegar ég er að sniglast í kring um hús fólks er ég iðulega með Fréttabréf Fjallahjólaklúbbsins í hendinni ásamt skírteinum sem ég er að bera út. Sem betur fer var ég með skírteini fyrir aðila sem bjó þar líka, auðvitað get ég haldið á einhverju og þóst vera að leita að einhverjum. Ég fór að öðru húsi hálftíma síðar og veit að í götunni býr annar þjóðþekktur einstaklingur. Eg hef krassað heilu grillveislurnar, barnaafmæli, labbað inn í garð í flasið á hálfnöktu og alsnöktu fólki. Þetta er ekki leiðinlegt. Ég fær hreyfingu, ferskt loft, fæ smá mannlíf í æð, bros frá fólki. Sérstaklega ef ég er með hundinn minn með mér.
Það búa ábyggilega einhverjir þekktir einstaklingar á Hverfisgötu. Á hjólabrautinni fyrir framan mig var rauðum bíl lagt þversum á hjólabrautina. Það er svo sem ekki i frásögur færandi, daglegt brauð skilst mér. Nema ég í kvikyndisskap mínum vitandi að ég væri með góðar bremsur hjólaði á fullri ferð í áttina að bílnum og þóttist ekki ætla að stoppa. Snarhemlaði svo og sveigði út á götu. Stoppaði og beygði mig niður og rýndi inn í bílinn inn um opna rúðu, grafalvarleg á svip. Það kona í farþegasætinu og karlmaður undir stýri. Hann leit á mig grafalvarlegur á móti. "Þetta er lögreglan". Ég hef húmor og gat ekki annað en flissað. "Já, er það?" En auðvitað gæti þetta hafa verið lögreglan, under cover, man ekki íslenska orðið í augnablikinu.
Ég hjólaði áfram sem leið lá í Vesturbæinn að hrella mann og annan. Og tókst það svo sannarlega. Við Geirsgötu tróð ég mér meðfram bílaröðinni, upp á gangstétt og um leið og græna ljósið kom tók ég af stað beint áfram, en sendibíllinn sem var fremstur ætaði að beygja til hægri. Munaði bara örfáum millimetrum að ég klessti nýja fína hjólið mitt. Nei, þið fáið ekki mynd, ég er enn að bródera skósíða blúndunáttkjólinn minn. Öðru vísi verð ég ekki mynduð í návist reiðhjóla hér eftir.
Það má þakka snörum viðbrögðum bílstjórans að ég sit hér heil á húfi og pikkka þessar línur. Ég setti aðra hönd á hjarta og laut höfði, það er mitt tákn til bílstjóra ef ég geri einhver heimskupör. Hann hefur ábyggilega þusað um helvítis hjólakellingar sem troða sér alls staðar og þykjast mega vera hvar sem er. Ég var(er) jú með brjóst og var í hlébarðamynstruðu pilsi. Svo menn ættu að sjá að þar fer kona. Okkur ber að sjálfsögðu að fara eftir umferðarlögum, eins og öllum öðrum.
Áfram lá mín leið vestur í bæ, og þar framdi ég morð. Á saklausri hunangsflugu. Ég hjólaði á hana og það heyrðist klask þegar hún krassaði á handleggnum á mér. Mér þykir þetta ákaflega leiðinlegt en svona er þetta, maður brýtur stundum óvart á saklausum.
Það gerðist nú ekkert fleira markvert, ég hjólaði eins og druslan dreif (ég, hjólið kemst mikið hraðar) og rúllaði inn í bakgarðinn heima, sem oh, þarf að slá, ég hef bara engan tíma í það, maður þarf jú að hanga á netinu og svona. Hekluskottið stóð í sólstofunni og horfði ásakandi á mig. "Fórstu út að hjóla? Án mín? Erum við ekki vinkonur?"
Það verður nú að njóta bliðviðris líka, stunum þarf að gera hlé á því sem maður er að fást við, setjast út með svaladrykk og hugsa málið. Öll kurl koma til grafar að lokum.
Íslenski fjallahjólaklúbburinn,
Brekkustíg 2,
101 Reykjavík.
Netfang: ifhk@fjallahjolaklubburinn.is
Kt. 600691-1399
Banki: 515-26-600691
Vafrakökur og persónuvernd
Vefur unninn af Hugríki.is.