fer1907l.jpg

Ferðamaður við Þingvallakirkju við konungskomu 1907.

Ljósmynd: Vigfús Sigurgeirsson.

© Þjóðminjasafn.

 

sv1908.jpg

Sveinn Guðmundsson, járnsmiður, með hjól sitt c.a. 1908.

Ljósmynd: Carl Ólafsson. © Þjóðminjasafn.

     

k1910-20.jpg

Mynd af Karli Ch. Nielsen 1910-20.  Hann tók mikið af ljósmyndum.

© Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

 

da20-30.jpg

Á ljósmyndastofu Jóns J. Dahlmann í Reykjavík um 1920-30.

Ljósmynd: Jón J. Dahlmann.

© Þjóðminjasafn.

 

2hj1927.jpg

Marta, Fanna, Gunnhildur, Guðmundur og Oliver með tvö reiðhjól, 1927.

Ljósmynd: Skafti Guðjónsson.

© Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

 

h1920-30.jpg

Hópur manna hefur stillt sér upp með reiðhjól sín fyrir framan Iðnó 1920-30.

Ljósmynd: Magnús Ólafsson.

© Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

 

z1920-30.jpg

Margeir Pétursson sendisveinn á sendlahjóli, sennilega frá Zimsen, 1920-30.

© Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

 

gun1927.jpg

Gunnhildur. Húsveggur og hjól í bakgrunni. 1927.

Ljósmynd: Skafti Guðmundsson.

© Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

 

hre1927.jpg 

Hrefna Herbertsdóttir fyrir utan Ísafoldarprentsmiðju 1927.

Ljósmynd: Skafti Guðjónsson.

© Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

 

joh1930.jpg

Farartæki heildverslunar Ó. Johnson & Kaaber um 1930 í Hafnarstræti.

Ljósmynd: Ólafur Magnússon.

© Þjóðminjasafn.

 

edi1930.jpg 

Reiðhjól fyrir utan Edinborgarverslun í Hafnarstræti um 1930.

Ljósmynd: Magnús Ólafsson.

© Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

 

a1935-40.jpg

Austurstræti og Bankastræti á árunum 1935-40.

Ljósmyndari ókunnur.

© Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Lokaorð

Saga reiðhjólsins hefur verið rakin eftir því sem heimildir hafa leyft en höfundur veit að hér er margt óskráð. Heimildir sem eru horfnar eða einfaldlega fundust ekki við gerð þessarrar ritgerðar eiga sér ósagða sögu sem vonandi birtist einhvern tíman, þó ekki væri nema til þess að auka við þá flóru sem íslensk menning hefur að geyma.

 

© Óskar Dýrmundur Ólafsson. Kennitala: 20.07.66-5399

Háskóli Íslands

Heimspekideild

Sagnfræði

B.A. ritgerð 10 einingar

Umsjónarmaður ritgerðar:

Gísli Ágúst Gunnlaugsson

Heimildaskrá

Alþingistíðindi

Áfangar, 1.tbl.1990, bls 49

Beeley, Serena: A history of bicycles, from hobby horse to mountain bike, London 1992.

Björn Björnsson: Árbók Reykjavíkurbæjar 1940, Reykjavík 1941

Björn Björnsson: Árbók Reykjavíkurbæjar 1950-51, Reykjavík 1953.

Dagblaðið

Farfuglinn

Fálkinn, kynningarbæklingur 1990.

Fjallkonan

Focus: "Dagleið á reiðhjólum um Skotland", Farfuglinn, 1. tbl. 2. árg. Rvk, 7 marz 1958.

Gils Guðmundsson: Slysavarnafélag Íslands tuttugu og fimm ára, 1928 29 janúar-1953, Reykjavík 1953.

Gísli Guðmundsson, Þorvarður Árnason: Samvinnurit IV, Handbók fyrir búðarfólk, Reykjavík 1948.

Guðjón Friðriksson: "Hjólmannafélag Reykjavíkur", Lesbók Morgunblaðsins, 1.tbl. 9. Janúar 1993 68 árg.

Guðjón Friðriksson: Saga Reykjavíkur, bærinn vaknar 1870-1940, fyrri hluti, Reykjavík 1991.

Gunnar Kristjánsson: Ræktun lýðs og lands, Ungmennafélag Íslands 75 ára 1907-1982, Reykjavík 1983.

Halldóra Sigurjónsdóttir: "Á reiðhjóli umhverfis landið", Áfangar 4. tbl 1989

Haraldur Þórðarson: "Á reiðhjólum um Kaldadal og Borgarfjörð", Farfuglinn, 2. tbl. 2. árg. 25 júní 1958.

Harper, Clifford: Graphic guide, anarchy, London 1987.

Iðnsýningin 1952, sýningaskrá, Reykjavík 6. september 1952.

Ingólfur

Ísafold

Ísland, atvinnuhættir og menning 1990, Reykjavík 1990.

Íslenska alfræði orðabókin P-Ö, Reykjavík 1990.

Íþróttablaðið

Ingimar Jónsson: Íþróttir a-j, Reykjavík 1976.

Jón Helgason: Hundrað ár í Borgarnesi, Reykjavík 1967.

Jón Helgason: Þeir sem settu svip á bæinn, endurminningar frá Reykjavík uppvaxtarára minna, með 160 andlitsmyndum og 11 hópmyndum, Reykjavík 1954.

Jón Oddgeir Jónsson: Í umferðinni, umferðalög og reglur með skýringamyndum, Reykjavík 1966.

Jón Oddgeir Jónsson: Litlir jólasveinar læra umferðarreglur, Reykjavík 1940.

Jón Vestdal: Vöruhandbók með tilvitnunum í lög um tollskrá o.f.l. þriðja bindi, Reykjavík 1948.

Jón Þ. Þór: Saga Ísafjarðar og Eyrarhrepps hins forna II. bindi 1867-1920, Ísafirði 1986.

"Jöklafararnir hjólandi", 3 T tímarit um tæki og tómstundir, Nóvember 1992.

Knútur Arngrímsson: Hjólið snýst, ferðaminningar frá Þýzkalandi, Reykjavík 1937

Krabbe, Thorvald: Island og dets tekniske udvikling gennem tiderne, Kaupmannahöfn 1946.

Kristmundur Bjarnason: Saga Sauðakróks I-III, Sauðárkrók 1969, 1971 og 1973.

Leiftur

Lýður Björnsson: Afmælisrit V.R. saga Verzlunarmannafélags Reykjavíkur 1891-1991 I. bindi, Reykjavík 1992.

Lúðvík Kristjánsson: Úr bæ í borg, nokkrar endurminningar Knud Zimsens fyrrverandi borgarstjóra um þróun Reykjavíkur, Reykjavík 1952.

Lúðvík Kristjánsson: Við fjörð og vík, brot úr endurminningum Knud Zimsens fyrrverandi borgarstjóra, Reykjavík 1948.

Lögrétta

Magnús Blöndal: "Yfir sanda og hraun-Á fjallahjólum", Farvís, áfangar, 1. tbl. 1992.

Morgunblaðið 1917-1924

Murrel, Deb: "Icebiking, bergs bananas and ram´s testicles!", Mountain biking UK, 7 september 1989.

Nye, Peter: Hearts of Lion, the story of american bicycle racing, New York 1988.

Ómar Ragnarsson: Heitirðu Ómar, minningar frá bernsku og æskudögum, Reykjavík 1991.

Óskar Clausen: Með góðu fólki, Reykjavík 1959

Pétur Þorleifsson: "Á reiðhjólum norður Kjöl og Auðkúluheiði sumarið 1956", Farfuglinn1. tbl. 26. árg. Rvk. 1982.

Pétur Þorleifsson: "Á reiðhjólum suður Vatnahjalla og Hofsjökul", Áfangar 1. tbl. 1990.

Pjetur G. Guðmundsson: Handbók Reykjavíkur 1927, Reykjavík 1927

Ritchie, Andrew: King of the road, an illustrated history of cycling, London 1975.

Roberts, Derek: Cycling history, myths and queries, Cp services 1991.

Rubinstein, David: "Cycling in the 1890s", Victorian studies 21 1977.

Sigurður G. Magnússon: Lífshættir í Reykjavík 1930-40, sagnfræðirannsóknir 7. bindi, ritstj; Bergsteinn Jónsson, Reykjavík 1985.

Sigurjón Pétursson: "Íslenskt íþróttalíf", Eimreiðin 1912

Smith, Robert A: A social history of the bicycle, it´s early life and times in America, New York 1972.

Stjórnartíðindi

Strebeigh, Fred: "Wheels of freedom", Bicycling april 1991.

Sumarliði R. Ísleifsson: Eldur í afli, málmiðnaður á Íslandi á 19. öld og fyrri hluta 20. aldar, safn til iðnsögu Íslendinga I. bindi, ritstj. Jón Böðvarsson, Reykjavík 1987.

Tímarit iðnaðarmanna 1927-1937

Tíminn

Umferðareglur fyrir hjólreiðamenn, útg. af SVFÍ í Reykjavík 1946

Umferð 2 tbl júní 1959

Verslunarskýrslur 1911-1990

Vestri 1903-1910

Vilhjálmur Þ. Gíslason: "Upphaf sérverslunar í Reykjavík", Safn til sögu Reykjavíkur, Reykjavík í 1100 ár, ritstj. Helgi Þorláksson, Reykjavík 1974.

Vísir 1917-1925

V.R. blaðið, apríl 1988

Willard, Frances E: How I learned to ride the bicycle, reflections of an influential 19th century woman, Sunnyvale (California) 1991

Þjóðólfur

Þjóðviljinn

Þorsteinn Erlingsson: "Seyðisfjörður um aldamótin 1900 (með 5 myndum)", Eimreiðin 1903

Þórarin Eldjárn: Kvæði, Disneyrímur, Erindi, Ofsögum sagt, Kyrr kjör, Reykjavík 1988.

Þróttur

"Þættir frá Olympíuleikunum", Skinfaxi, febrúar 1913

Æskan

Zhihao, Wang: "Bicycles en large cities in China", Transport reviews, 1989 vol. 9 no. 2, bls 171-182.

Óprentaðar heimildir:

Bréf Dick Phillips til höfundar 1993

Bréf S.F.R. til A.S.Í, 31/5 1933. Skjalasafn A.S.Í. NR:A-1

Lög Sendisveinafjelags Reykjavíkur samþ. 19. maí 1933, Skjalasafn ASÍ NR:A-1

Emilíu Bíering, viðtal þjóðháttadeildar 9319, Þjóðminjasafn.

Viðtal við Axel Janssen 29 mars 1993, (Var með verkstæðið Baldur)

Viðtal við Guðbjörtu Ólafsdóttir 1993 (dóttir Ólafs Magnússonar)

Viðtal við Guðmund Ellert Erlendsson 1993 (reiðhjólasmiður)

Viðtal við Guðmund Karlsson 1992

Viðtal við Ólaf Rúnar Dýrmundsson

Viðtal við Pál Bragason 1933(Afkomandi í Fálkafjölskyldunni)

Viðtal við Ásgeir Heiðar 1993 (formaður HFR 1980-81)

Viðtal við Pétur Þorleifsson 1992

Viðtal við Helga Skúla Kjartansson 1993

Viðtal við Magnús Bergsson 31 janúar1993

Ferðadagbók Magnúsar Bergssonar (hjá eiganda)

© Óskar Dýrmundur Ólafsson

Hjólað á vit ævintýra

Hjólið gengdi hlutverki afþreyingar á fjórða áratugnum rétt eins og hjá unga námsmanninum sem hjólaði um Aðalstrætið árið 1890. Ferðalög á reiðhjólum urðu sífellt stærri hluti hjólreiða hér á Íslandi. Ferðalög inn á landið og erlendis urðu algeng. Árið 1916 fór ungur piltur að nafni Vilhjálmur Þór síðar bankastjóri frá Akureyri til Borgarnes á fimm dögum, eða um ellefu árum á undan fyrsta bílnum. Félög og einstaklingar tóku sig til og skoðuðu umhverfið á misjafnlega hljóðlátan hátt.Til eru fjölmargar heimildir um ferðalög kvenna á hjólum hérlendis.

Um 1920 fréttist af konu sem hjólaði alla leið frá Reykjavík vestur um Barðaströnd á reiðhjóli. Um þessa ferð fara ekki nánari sögur en þessi ferð telst til meiriháttar hjólaferða á vegum þess tíma.

Rigmar Lindman, Elsa Einarsson og Vera Lindman skruppu yfir Kaldadal á reiðhjólum um mitt sumarið 1926 og svo fóru Einar Þorsteinsson og Eiríkur Guðnason úr Fálkanum skömmu seinna sömu leið. Því næst fór 5 manna hópur í vikulangt ferðalag á reiðhjóli austur í sveitir. Þetta voru þau Óskar Jónsson (sem síðar stofnaði Óðinn ásamt Ívari Jónssyni) Sigurður, Guðbjört Ólafsdóttir, Oddrún og þýskur maður. Eitt af markmiðum ferðalagsins var að sýna nýjum starfsmanni Fálkans Anschitz frá Þýskalandi, hluta af hinu fróma Íslandi. Farið var frá Reykjavík um Hellisheiði að Ölfusi og Geysi, með hestum að Gullfossi og svo var hjólað í bæinn aftur með viðkomu á Laugavatni og Þingvöllum.

Dæmi um félag sem notaði reiðhjólið talsvert var hinn fyrirferðamikli Flokkur þjóðernissinna en þeir fóru gjarnan í hjólreiðatúra á fjórða áratugnum. Bræðurnir Gísli og Haraldur Guðmundssynir sem tilheyrðu þessum róttækari armi nasista hér á Íslandi nýttu sér af miklum ákafa allar lausar stundir til félagsstarfa, íþrótta, útiveru og tóku þeir því þátt í hjólreiðaferðum Flokks þjóðernissinna. Annar ákafur þjóðernissinni sem var við nám í Þýskalandi á uppgangsárum nasista skoðaði sig um á reiðhjóli í Þýskalandi 1937 með eld í æðum og ánægja hans með fararmátann leynir sér ekki:

Sá sem er fótgangandi, er ekki frjáls. Hann er ánauðugur þræll þess tíma, sem hann þarf til þess að komast á ákvörðunarstað. Maður, sem ferðast á hesti, er auðmjúkur þjónn hestsins síns, nema dýraníðingur sé. Maður sem ekur bifreið eða mótorhjóli, er háður þörfum og duttlungum vélarinnar... En hjólandi maður er engum háður. Hann vegur sig áfram með afli sinna eigin vöðva, mögnuðu af vogstangarafli sveifarinnar, sem hann treður með fótunum...Hann nemur staðar þegar honum sýnist. Hann fer hratt, þegar honum sýnist. Hann fær nána viðkynningu af því landi, sem hann ferðast um. Hann svalar fróðleiksþrá sinni og iðkar hressandi, líkamlega íþrótt um leið.

Hjólandi maður tekur tæknina í þjónustu sína, án þess að verða sjálfur þræll hennar.

Knútur tapaði svo reiðhjóli sínu, sem var Torpedo gerðar, í miðbænum fyrir utan Iðnskólahúsið rétt fyrir stríð en það virðist ekki hafa slegið á ánægju hans með lífið og tilveruna eins og þessi orð hans segja. "En við þann, sem hirti hjólið mitt, vil ég aðeins segja þetta: Njótu þess betur en þú aflaðir. Megi það bera þig áfram í áttina til hárra markmiða og bjartari og betri tíma."

Ath Stjórnartíðindi 1924 B, bls 160 um bann við innflutning á reiðhjólum

Upp til fjalla

Ferðalög á hjólum voru ekki ný af nálinni eins og Litla ferðafélagið og Þjóðernissinnar höfðu sýnt fyrir Seinni heimsstyrjöld. Aukin fjallamennska var orðin áberandi hér innanlands og voru reiðhjól notuð óspart til þess að skoða náttúruna.

Greinar um ferðalög Íslendinga á hjóli fóru svo að birtast í fréttabréfi Farfuglsins á sjötta áratugnum. Haraldur Þórðarson, Emil Jónsson og Þórður Jónsson fóru eina ferðina sumarið 1951. Fóru þeir sem leið lá um Kaldadal og Borgarfjörð. Með mjólk í flöskum og kex í pokum sínum brunuðu þeir um grýtta og rykugar vegaslóðir í þessarri fjögurra daga ferð. Eftir örlítið slark á þessum harkalegu vegum þá uppgötvuðu þeir betri leið.

Fyrsti góði spretturinn, sem við gátum tekið var niður að Sandkluftavatni. Vatnið var þornað upp að miklu leyti eins og oft vill verða í þurrkatíð. Emil datt þá í hug að notfæra sér það og hjóla eftir þurrum vatnsbotninum. Við fórum að dæmi hans og var hjólað í einum spreng að Tröllhálsi. Af Tröllhálsi var dýrðlegt útsýni í skini hnignandi sólar. Meðan síðustu sólargeislarnir léku um okkur þetta fagra kvöld tókum við upp nestið og fengum okkur bita.

Þessi aðferð virðist svo hafa náð einhverri útbreiðslu samkvæmt ferðalýsingum annarra hjólreiðamanna.

Pétur Þorleifsson var annar hjólreiðamaður sem gerði víðreist. Hann skoðaði á reiðhjóli sínu Kjöl, Auðkúluheiði og svo sem leið lá suður Vatnahjalla og Hofsjökul. Í ferð sinni sem var norður Kjöl og á Auðkúluheiði sumarið 1956 lenti Pétur ásamt félögum sínum Rúnari Einarssyni og Einari Þorkelssyni í ýmis ævintýri. Með skotfærum reyndu þeir að veiða tófu, skakkaföll eins og sprungin dekk voru alltíð og vegaleysur voru meðal helstu átaka. Rúnar hafði t.d. brotið pedala öðru megin en lét sig ekki muna um að hjóla áfram "þó á einum petala væri." Þegar þeir voru komnir að Seyðisá norðan við Hveravelli þá voru önglarnir teknir fram og veiði hafin samkvæmt leyfi fjárvarðar á staðnum. Fjárvörðurinn hóf veiðar "á hinum bakkanum, en varð lengi vel ekki var. Sennilega hefur honum ekki litist á, hve við fengum mikið" segir Pétur "því skyndilega hrópaði hann yfir til okkar að hætt, sem við að sjálfsögðu gerðu. Við hlóðum nú hjólin silungi og öðru dóti. Kvöddum kunningja okkar fjárvörðinn og hjóluðum af stað norður Auðkúluheiði.

Þessar ferðir voru oft allsvakalegar, jafnvel á mælikvarða vel út búinna fjallahjólaferðalanga nútímans. Í ferðum sínum þá þurftu menn oft að bjarga sér eins og hægt var. Í ferð sinni ásamt Þóri Haraldssyni og Gunnari Jónssyni dúklagningarmönnum suður Vatnahjalla og Hofsjökul lentu þeir í blautum ruðningum sem ómögulegt var að hjóla í. Því brugðu þeir á það ráð að festa hjólin við sig með ól um mittið sem fór svo aftur í sætið. Þannig gengu þeir með hjólin við hlið sér með allan farangurinn á, bæði að aftan og framan. Eða eins og Pétur Þorleifsson segir: "Í stuttu máli má segja að við notuðum hjólin eins og vagn og létti þessi aðferð stórum ferðina."

En ferðir íslenskra hjólreiðamanna voru ekki einungis bundnir við Ísland eins og Þýskalandsför Knúts Arngrímssonar 1937 ber ljóst dæmi um. Sumarið 1956 var hópur íslenskra ungmenna á ferðalagi í Skotlandi og eru þau stödd í alþjóðlegu umhverfi á gistiheimili. "Allstaðar er hreyfing að komast á. Þarna koma Ítalarnir, sem fóru að þvo sér kl. 5. Nú er kl 7:30. Skrambi hljóta þeir að vera orðnir hreinir." Í hópnum voru bæði kynin og varð greinarhöfundi oft á tíðum tilefni til skrautlegra lýsinga í ferðagrein sem birtist í félagsblaði Farfugla:

Kynin voru að reyna sig, og það veikara, sem svo er oftast nefnt, lagði höfuðið fram í körfuna á stýrinu, en við það byrgðist allt útsýni... Rann hjól hins veikara kyns beint utan í brúna... Þetta varð til þess að rauður jakki rifnaði og marblettir og stirðleiki hlupu á og í fögur læri stúlku þeirrar, er hjólinu átti að stýra. Fararstjórinn varð því að taka áðurnefnd læri til nudds. Upphófust þá ungmeyjarskrækir miklir, eins og þeir geta mestir og hæstir verið. Því miður truflaði þetta sálarró gamals skozks heiðursmanns. Gömul kona kom út í garð og bað unga fólkið að veina ekki svona ákaft því sá gamli gæti ekki sofið í friði.

Erlendir ferðamenn

Þegar litið er til þess fjölda ferðagreina sem erlendir hjólreiðamenn hafa skrifað um ferðalög sín hérlendis þá auðséð að það er náttúran sem heillar þó veðrið sé vinsælt umræðuefni. Þótt að ferðagreinarnar séu góðar heimildir þá er það fyrst og fremst hvernig landið lítur út í augum gestanna. Algengt er að villur slæðist með eins og dæmi er frá nokkuð nýlegri grein þar sem heimsókn í Hveragerði ,"the flower town", er lýst. "Gróðurhúsin eru hituð með jarðhita sem kemur uppúr jörðinni í bænum og eru þau notuð til þess að rækta stærstu útflutningsvöru Íslendinga, þ.e. á eftir fiski og ull- Bananar!"

Ekki er vitað hvenær erlendir hjólreiðamenn fóru að koma til Íslands gagngert til að hjóla en vitað er til að Breti nokkur hafi farið Sprengisandsleiðina á reiðhjóli árið 1933 og var hann mánuði á undan fyrsta bílnum sem fór þessa leið. Horace Dall, en svo hét hann hafði komið frá Luton í Englandi árið áður að kanna aðstæður. Þegar hann kom til baka hafði hann einsett sér að fara yfir Sprengisand, sem og hann gerði. Þegar hann birtist að Mýri nokkrum dögum seinna þá var ungur drengur vitni að því. Var hann furðu lostinn yfir hinum óvænta gesti sem var snyrtilegur til fara á skínandi svörtum skóm og þar að auki á hjóli. Það næsta sem fréttist af breskum ferðalöngum á reiðhjóli er af E.E. Gardner sem ferðaðist um suður Ísland árið 1937. Það sem hann lofaði sérstaklega var gestrisni bænda, enda hét grein sem hann ritaði um ferð sína; "Where hospitality is traditional". Upp úr þessu fóru félagar úr hjólreiðafélaginu Roughstuff fellowship að fara um hálendið en eitt markmið félagsins var að finna erfiðar leiðir sem farin væru í fyrsta skipti á reiðhjóli eins og Horace Dall hafði gert.

Fjallahjólaæðið

Í upphafi innflutnings fjallahjóla komu upphaflega til Arnarins Kalkoff hjól með stöndugum smíðagöflum 1987. Muddy Fox kom haustið 1988, einn gámur með 150 hjólum.

Einn fyrsti Íslendingurinn sem fékk sér fjallahjól var rafvirkinn Magnús Bergsson. Á því ákvað hann að fara ýmsar leiðir sem höfðu fram að því talist til gönguleiða og jafnvel til ófæra eins og Hvannadalshnjúk sem var upphaflega á dagskránni sumarið 1989. Vegna veðurs hætti hann við ásamt félaga sínum Gísla Haraldssyni og þess í stað fóru þeir hringveginn eða 2500 kílómetra á 30 dögum. Næsta ár fór svo Magnús Vestfirðina, yfir Kjöl, Arnarvatnsheiði og svo um Snæfellsnesið. Sama sumar fór hann svo við annan mann þvert yfir landið. Var farið Gæsavatnaleið, Landmannalaugar, Fjallabak nyrðri og átti þetta að vera liður í undirbúningi fyrir alþjóðlegri fjallahjólakeppni sem fyrirtækið Icelandic Highland travel ætlaði að standa fyrir. Keppnin sem átti að vera heilmikil þrekraun datt svo út. Það sem skipti máli var samt að þegar hér er komið við sögu þá eru öræfaferðir orðnar fastur liður, líka hjá hjólreiðafólki.

Eins og við var að búast voru það fyrst og fremst útlendingar sem þeir félagar mættu á reiðhjólum. Í viðtali við ferðatímaritið Áfanga segir Magnús um þá:

Ég hef orðið var við að útlendingum mörgum hverjum finnst þetta vera hrein hjólreiðaparadís. Þeir eru ekki vanir þessari fjölbreytni í veðri og svona erfiðu landi... Ég get ekki neitað því að mér finnst skynsamlegra að hvetja hjólreiðamenn til að koma hingað frekar en að fá allan þennan erlenda bílaflota til landsins með allri sinni mengun og hávaða.

Þrátt fyrir að hjólandi Íslendingum stórfjölgaði á hálendinu þá virðist slíkt ekki vera nema örlítill hluti af mikilli umferð hjólandi útlendinga eins og frásögn Magnúsar Blöndal fékk að kynnast í ferð sinni á reiðhjóli uppí Kverkfjöll og ætlaði að æja hjá skálavörðunum þar. "Það hvarflaði ekki að þeim að það væru Íslendingar sem kæmu aðvífandi á reiðhjólum. Við sem héldum að þetta væri alvanalegt!"

Brátt tóku stærri hópar að fara um á fjallahjóli. Sífellt algengara varð að fólk hjólaði hringveginn á reiðhjóli sínu, t.d hjólað var þvert yfir landið af stæðilegum hópi unglinga frá félagsmiðstöðinni Árseli og farið var í fyrsta skipti yfir Vatnajökul á reiðhjólum sumarið 1992 sem hlýtur að teljast nýstárlegasta uppákoman í íslenskri hjólamenningu. Hópurinn sem hjólaði yfir Vatnajökul þurfti oft að taka á í samskiptum sínum við jökulinn, en engin aukahjálp fylgdi þeim í formi fylgdarbíls. Þannig þurftu þeir að draga allar nauðsynlegar vistir með sér á sérstökum sleðum sem kallast "púlkur". Að hjóla í "íslenskri eyðimörk" var mikil lífsreynsla fyrir þá félagana og lýsir Sigursteinn Baldursson, einn leiðangursmanna, einni minningunni svo:

Það er mjög óvenjuleg tilfinning að hjóla svona í næturhúmi á miðjum jökli, sem virðist aldrei ætla að taka enda, fjarlægðaskynið brenglast og ég man sérstaklega eftir því að við höfðum Kverkfjöllin fyrir augunum í fjóra daga og stundum leið manni eins og hjólandi á rúllubandi, fannst fjöllin ekkert nálgast.

 © Óskar Dýrmundur Ólafsson

0405-ferdir-500.png

Þessi kafli birtist í Hjólhestinum desember 1995 með þessari teikningu eftir Jón Örn Bergsson

Afrek hjólreiðamanna

Hjólhesturinn var farinn að vekja talsverða athygli hérlendis í lok síðustu aldar, nokkuð sem kemur ekki á óvart þegar litið er til meginlands Evrópu og Bandaríkjanna. Þar var einhverskonar hjólafár í gangi sem fyllti tóma sveitarvegi. Fjöldaframleiðsla reiðhjóla hafði hafist á sjöunda áratug nítjándu aldar í Frakklandi. Það var því við hæfi að sá fyrsti sem hjólaði á hinn forna þingstað Íslendinga skyldi vera Frakki. "Hjólreið til Þingvalla" var fyrirsögnin í dagblaðinu Ísafold þann 25 júlí 1896.

Frakkneskur sjóliðsforingi einn á strandvarnarskipinu "La Manche", Maxime Delahet, tók sér fyrir hendur nýlega að ferðast á hjólhesti, tvíhjólung, héðan og austur að Þingvöllum, og tókst sú ferð svo greiðlega, að orð er á gerandi.

Hann hjólaði á 8 klukkustundum þangað og svo til baka daginn eftir á 6 klukkustundum, en kvartaði aðspurður undan slæmum og engum vegum á leiðinni. Ef almennilegur vegur lægi þangað þá væri "lafhægt" að fara þetta undir 5 klukkutímum.

Þetta þótti talsvert afrek sem varð enn stærra við það að sjóliðsforinginn hjólaði á hinn forna helgireit sjálfstæðisbaráttunnar.

Hjólað á Þjóðhátíð

Fljótlega var farið að keppa í hjólreiðum á þjóðhátíðum í Reykjavík. 1898 var fyrst keppt í hjólreiðum á Þjóðhátíð á Landakotstúni að tilstuðlan Hjólmannafélagsins. Þrátt fyrir að félagsins nyti ekki við áttu hjólreiðarnar eftir að halda tryggð sinni við þjóðhátíðarnar. Fljótlega fór vegur þessarra keppna að dafna og á þjóðhátíðinni 1903 þá voru veitt 10 króna peningaverðlaun fyrir fyrsta sætið. Jón Samúelsson trésmiður hlaut þau en í öðru sæti var Gísli Jónsson skólapiltur. Til samanburðar á verðígildi verðlaunanna má geta þess að hægt var að fá eitt stykki hjólhest fyrir 28 krónu árið 1906. Árið eftir urðu úrslit á Þjóðhátíðinni þessi:

Fljótastur var Bonemann bókbindari í Reikjavík (27 sek) en næstur Jónatan Þorsteinsson söðlasmiður (27 3/4 sek.) Hafliði Hjartarson var 28 sek. en hann hægði á ser af misskilningi fir en hann næði skeiðsenda.

Hafliði Hjartarson snikkari virðist svo sigra keppnina á tveim næstu þjóðhátíðum en hann tók að sér að vera í forsvari fyrir komandi keppnir og séð um framkvæmdahliðina eins og t.d. skráningu í mót. Á Ísafirði hafði verið keppt árið áður í hjólreiðum á þjóðminningardeginum. Átti að keppa í stuttri og langri vegalengd en vegna deilna um keppnisreglur var styttri vegalengdin ógilt og þegar upp var staðið í lengri vegalengdinni kepptu einungis 3 af 6 skráðum keppendum, sennilega vegna þessarra deilna. Úrslit urðu þau að í efstu tvö sætin röðuðu sér Þorbjörn Tómasson skósmiður og Friðberg Stefánsson járnsmiður en ekki fer frekari sögum af nafni þriðja keppendans. Þrátt fyrir skakkaföllin árið áður mætt 9 Keppendur til leiks á þjóðminningardaginn 1906.

Hjólakeppnin á Ísafirði, Þjóðminningardaginn 1906:

1. Kristján Björnsson
2. Jónas Tómasson
3. Björn Guðmundsson og Jón Ól. Jónsson deildu þriðja sætinu.

Upp úr þessu virðist vegur reiðhjólakeppna fara minnkandi þar sem hvergi er getið um þær. Reyndar má finna frétt um að keppt hafi verið í hjólreiðum á Akureyri sumarið 17 júní 1911. Þann dag hófust mikil leikmót bæði á Akureyri og í Reykjavík. "Um sigurvegara á Akureyraleikmótinu er oss ekki kunnugt, en þar fóru fram kapphlaup (100 stikur), stökk (langstökk, hástökk) hjólreiðar, glímur og sund". Í Skinfaxa og Lögrjettu má svo finna auglýsingu þar sem hjólreiðar eru auglýstar sem keppnisgrein á sumaríþróttamóti en þegar svo að mótið er haldið virðast þær hafa dottið út, án þess að ástæða þess sé tilgreind. Upp úr þessu virðist hjólakeppni leggjast af um skeið.

E.t.v. endurspeglar Jónas frá Hriflu skoðanir sumra á íþróttinni í íþróttapistli sínum í Skinfaxa árið 1913, en þar lýsir hann þeim greinum sem honum fannst svakalegastar á Olympíuleikunum. Þar lýsir hann því hve illa út lítandi Maraþonhlauparar voru eftir þrekraunina en öllu verri leit annar hópur íþróttamanna samt út að mati Jónasar:

Það voru þeir, sem fóru kringum lóginn á hjóli. En sú vegalengd er hér um bil 320 rastir. Það var ekki fögur sjón að sjá hjólamennina koma að markinu eftir 12 klukkutíma erfiði, úttaugaða af þreytu, kengbogna með augun út út höfðinu af áreynslunni. Þetta voru auðvitað alt þaulæfðir hjólreiðamenn en þau einkenni, sem sú íþrótt setur á manninn, þykir mér eiginlega ekki fögur. Í slíkri íþrótt ætti alls ekki að keppa á Olympíuleikjum, síst aðra eins vegalengd og þessa.

En þrátt fyrir að köldu andaði frá Ungmannafélagspostulanum honum Jónasi þá var keppt aftur í hjólreiðum í kjölfarið á stofnun Hjólreiðafélags Reykjavíkur sumarið 1924.

Sumarið 1924

Eins og franski sjóliðinn sem hjólaði á Þingvöll í lok 19. aldar þá héldu menn áfram að leita á helgireit þjóðernisbaráttunnar á Þingvöllum. Nú var keppt á vegi sem náði alla leið og farið var fram og til baka í einu lagi. Að frumkvæði Hjólreiðafélagsins þá voru haldnar tvær keppnir þar sem glæsileg verðlaun voru í boði, átti að keppa 10 og 17 ágúst. Voru samskonar verðlaun veitt í báðum keppnum. Í fyrstu verðlaun voru kappreiðahjól frá "Fálkanum" og Sigurþóri Jónssyni úrsmiði, önnur verðlaun voru 100 krónur í peningum en í þriðju verðlaun voru bikarar. Farið var "frá Árbæ að Þingvöllum og til baka aftur að Tungu, húsi Dýraverndunarfélagsins." Sá sem fyrstur var að fara þessa liðlegu 90 km leið var Zophonias Snorrason, en hann fór leiðina á 3 klukkustundum og 30 minútum. Sá sem næst kom honum var Þorsteinn Ásbjörnsson. Alls komu sex í mark og segir í frétt Vísis að "allir keppendur voru vel hressir eftir þessa raun, eins og ekkert hefði í skorist."

Keppni Hjólreiðafélags Reykjavíkur 10 ágúst 1924:

1. Zophonias Snorrason 3:30:36 Klst
2. Þorsteinn Ásbjörnsson 4:00:8
3. Axel Grímsson 4:06:8
4. Magnús V. Guðmundsson 4:19:55
5. Jón Kjartansson 4:25:58
6. Náði ekki marki.

Seinni keppninni var svo frestað um viku vegna kappreiða hjá Fáki, eða til 24 ágúst. Metþáttaka virðist hafa verið, en keppt var á hefðbundnum reiðhjólum á meðan í fyrri keppninni hafði verið keppt á sérstökum keppnishjólum. 11 manns hófu keppni en einungis þrír komust í mark. Þorsteinn Ásbjörnsson kom fyrstur á 4 klst. 21 mín. 40 sek. en næst honum kom Axel í öðru og Jón Kjartans í þriðja. Voru ástæður þessarra áfalla gefnar í Vísir daginn eftir. "Veður var óhagstætt, regn allan tímann og ekki nægilega hlýtt í veðri. Vegurinn á Mosfellsheiði er mjög slæmur víða, ósléttur og grýttur."

Keppni Hjólreiðafélags Reykjavíkur 24 ágúst 1924:

1. Þorsteinn Ásbjörnsson 4:21:40 klst
2. Axel Grímsson 4:35:24
3. Jón Kjartansson 4:55:25

Athygli vakti hve fáir mættu á sama tíma í Álafosshlaupið. "Hvílík hneisa!.. Aðeins tveir menn (úr KR) taka þátt í lengsta og veglegasta hlaupi landsins" kveinar Grettir upp í íþróttaskrifum sínum í Vísir sama dag. Þrátt fyrir allt fær hjólakeppnin mun minni umfjöllum í dagblaðinu þrátt fyrir margfalt fleiri þáttakendur í hjólreiðunum.

Í bili virðist hjólakeppni lognast útaf fyrir utan 20 rasta keppni í Reykjavík 1927. Var verið að keppa um afreksmerki á Afreksmerkjamótinu. Af þeim 17 sem kepptu komu þeir Sigurður Halldórsson, Sigtryggur Árnason og Sigurþór Þórðarson fyrstir í mark, í þessarri röð.

Hjólakeppni endurvakin

Ekki eru heimildir fyrir því að keppnir hafi verið haldnar fram undir sjötta áratuginn, þó að sögusagnir segi okkur að eitthvað hafi verið keppt. Fyrsta keppnin sem við höfum óyggjandi vitneskju um eftir sumarið góða 1924 að hafi verið haldið, var landsmót í hjólreiðum 12 ágúst 1951.

Íþróttablaðið fagnar því að það eigi að fara að keppa í hjólreiðum hérlendis og útskýrir að "það, sem hamlað hefur slíkum mótum hérlendis allra mest, eru torfærir vegir." Mótið, sem Íþróttabandalag Akranes sá um, virðist hafa heppnast vel þar sem fólk var fengið að vakta hættulega staði og keppendum fylgdi bíll með lækni í. Hjólað var rangsælis Akrafjall, um 33 km langa leið, frá Akranesi til Akranes aftur.

Keppni ÍBA 12 ágúst 1951:

1. Kristján Árnason KR 1:14:11,8 klst.
2. Emil Jónsson ÍR 1:15:56,6 klst.
3. Sófus Bertelsen Hafnarf. 1:20:46,0 klst
4. Gylfi Grímsson UMSK 1:25:44,8
5. Játmundur Árnason UMF Þrestir 1:26:46,4
6. Lárus Fjeldsted UMF Kolbeinsstaðir 1:34:40,2.

Upphaflega fóru sjö menn af stað en "Garðar Jóhannesson frá Akranesi varð fyrir því óhappi, að hjól hans bilaði"

Það næsta sem fréttist svo af hjólakeppni var auglýsing í Íþróttablaðinu árið eftir um að halda ætti "Hjólreiðamót Íslands" 13 júlí 1952. Ekki var þó keppt og var um kennt vondu veðri og svo þáttökuleysi og víkur nú sögunni nokkuð lengra framávið.

10-14 gíra tímabilið

Árið 1970 hélt íþróttafélagið Ármann hjólreiðakeppni sem lítið er vitað um, fyrir utan myndir sem birtust í Íþróttablaðinu. Upp úr 1980 varð gjörbylting í hjólreiðum á Íslandi. Þar eiga keppnishjólreiðar eflaust stóran þátt að máli. Fyrstu keppnirnar sem voru haldnar í upphafi þessarrar nýju bylgju voru á Akranesi og Keflavík. Í Keflavík var haldin 10 manna keppni skömmu fyrir Akraneskeppnina en ekki er hægt að greina nánar frá henni hér vegna heimldaskorts. Á Akranesi stóð bæjarblaðið og Íþróttabandalagið sameiginlega fyrir keppni sem 40 manns tóku þátt í, þar með talinn Ásgeir Heiðar verðandi formaður Hjólreiðafélags Reykjavíkur. Keppt var annars vegar í gíralausum flokkum og svo í flokki þar sem gírahjól voru einungis leyfð. Ásgeir Heiðar sigraði gíraflokkinn á táknrænan hátt, svona rétt til að minna á Reykvíska hjólreiðamenn sem áttu eftir að láta að sér kveða síðar meir.

Hjólakeppni ÍBA og bæjarblaðsins 5 ágúst 1980:

7-11 ára-Gíralaus flokkur:
1. Haraldur Ingólfsson 4:37,9 mín
2. Maríno Önundarson 4:49,2 mín
3. Sigurður Már Harðarson 4:49,8 mín

12 ára og eldri-Gíralaus flokkur:

1. Gauti Halldórsson 8:53,9 mín
2. Jóhannes Elíasson 8:53,3
3. Jón Bjarni Baldvinsson 9:04,3

Aldur ótakmarkaður-Gíraflokkur:

1. Ásgeir Heiðar 21:00,6 mín
2. Óli Þór Jónsson 24:23,3
3. Sævar Gylfason 25:19,6

Hjólreiðafélag Reykjavíkur sem var endurreist í ágúst 1980 stóð svo fyrir öflugri keppnisdagskrá fyrstu ár þess áratugarins. Það kemur fram í viðtali við Ásgeir Heiðar formann félagsins að honum þykir aðstaða til æfinga og keppni á reiðhjólum erfið hérlendis, ekki vegna veðurs, heldur vegna þess að hér vanti hjólabrautir og að við lýði séu úreltar lögreglusamþykktir. Í lögreglusamþykkt fyrir Reykjavík hafi t.d. verið skýrt á um kveðið að "ökuhraði á hjóli má ekki vera meiri en 25 kílómetrar á klukkustund." Sagði Ásgeir Heiðar höfundi að sækja hefði þurft um undanþágu frá þessu ákvæði í hverju einasta lögregluumdæmi en langerfiðast hafi verið þó að eiga við Reykjavíkurlögregluna. Hraði þeirra sem keppa á reiðhjólum hafði aukist til muna með tilkomu léttari hjóla, aukins þrýstings í mjórri dekkjum og leiða sumri líkum að því að geta íþróttamanna sé sífellt að aukast í ljósi aukinnar þekkingar í þjálffræði.

Fyrsta götuhjólakeppnin sem var haldin í Reykjavík í kjölfar þessarrar miklu enduvakningar á hjólreiðum var keppni sem haldin var út í Örfirisey þann 23 Ágúst 1980. Ómar Ragnarsson var fenginn til að ræsa keppendur sem kepptu í þrem flokkum. Í 12-14 ára flokknum sigraði Sigurður Valtýsson, í 15-16 ára flokki varð Elvar Erlingsson fyrstur og í aldursflokknum uppúr 16 ára, gaf Einar Jóhannsson tóninn með því að sigra á hinni 10 kílómetra löngu braut á tímanum 17:26,8 mín.

Skömmu fyrir Hellukeppnina hafði verið keppt í hjólreiðum á Romshvalanesi hjá Keflavík. Knattspyrnufélag Keflavíkur stóð að keppninni sem var frekar fjölmenn en 40 keppendur í þremur aldursflokkum mættu að upphafspunkti keppninnar. Keppnin var í styttri kantinum og þeim mun meira spennandi. "Það var einkennandi fyrir keppnina, að hart var barizt um sigurinn...Það er til marks um hina miklu keppni í karlaflokki, að innan við tíu sekúndur liðu frá því að fyrsti maður kom í mark og þar til að níundi maður fór yfir marklínuna."ath???

Úrslit efstu manna í Romshvalaneskeppni ÍBK:

1. Helgi Geirharðsson Peugot 41:12,8
2. Einar Jóhannsson Colner 41:14,9
3. Arnór Magnússon 41:15,6

Þetta sumar var þó aðalkeppnin haldin á hinni sívinsælu Þingvallaleið. Auglýsingar fóru að berast frá skemmtistaðnum Hollywood um skráningu þáttakenda og glæsileg verðlaun voru í boði.

Úrslit í Þingvallakeppninni sumarið 1981:

1. Einar Jóhannsson 3:50:34
2. Pálmi Kristmundsson 3:53:43
3. Kjartan M. Kjartansson 3:64:16

Hellukeppnin sem svo hét einkenndist af því að allir keppendur tilheyrðu orðið einhverju keppnisliði. Íþróttafréttaritari Morgunblaðsins velti upp þeirri spurningu hvort að þessi sérþjálfuðu lið fældu aðra reynsluminni keppendur frá, "þær raddir hafa heyrst að þetta fæi aðra frá, og er það miður ef svo er, en fyrri keppnir benda tæpast til að þessi fullyrðing sé á rökum reist."

Torfærukeppni á hjólum

Fjallahjólin sem hafa slegið í gegn síðari árin hér á landi hafa verið notuð einnig töluvert í keppni. Frá því að þau hafa verið flutt inn til landsins hefur farið fram keppnishald á sumrin. Fyrst voru það einstaklingar sem áttu frumkvæðið en síðan tók hinn Íslenski Fjallahjólaklúbbur alfarið við þeim framkvæmdum.

Fyrsta fjallahjólakeppnin sem haldin var hérlendis fór fram í reiðhöllinni ásamt hjólabrettasýningu um vorið 1989. Voru það bændasamtökin sem stóðu bak við þessa uppákomu en hún var liður í skemmtun sem gestum landbúnaðarsýningar var boðin uppá. 

© Óskar Dýrmundur Ólafsson

Hjólaverslunin

Verslun var í mikilli sókn undir lok síðustu aldamóta og reiðhjólasalar fóru ekki varhluta af því. Byrjað var að auglýsa reiðhjól til sölu sumarið 1894. Hans Andersen skraddari og kaupmaður sem var með verslun sína við Aðalstræti 16 bauð til sölu dönsk reiðhjól frá Sylvester Hvids Cyklefabrik í Kaupmannahöfn. Hann auglýsti sömuleiðis að hver sem væri gæti lært á þetta nýja tæki á þremur tímum. Ísinn var brotinn og héðan í frá var hægt að eignast reiðhjól í gegnum íslenskar verslanir. Þetta er í raun samfara þeirri þróun að farið er að nota reiðufé í verslun, en áður höfðu vöruskipti tíðkast að mesu leyti. Sem dæmi var hin nýstofnaða verslun Edinborg árið 1895 sem eingöngu verslaði með peningum og borgaði með peningum. Brátt hljóp kapp í viðskiptin eins og auglýsingar blaða á næstu árum sýndi.

Auglýsingar fóru að birtust á síðum Ísafolds sumarið 1896 um að "nýir og brúkaðir Cyclar (hjólhestar)" væru nýkomnir. Sigfús Eymundsson ljósmyndari og bókbindari, Fischer verslunin, Magnús Benjamínsson og Knud Zimsen voru meðal þeirra fyrstu sem fluttu inn hjólhesta og þá oft samkvæmt pöntun einstaklinga. Reiðhjólin komu frá Englandi, Danmörku og frá Þýskalandi. Hjólasalar auglýstu yfirleitt hve góð þeirra hjól væru og tilgreindu oft frá hvaða löndum hjólin kæmu. Sigfús Eymundsson auglýsti t.d. sérstaklega að hann hefði aflað sér einkaleyfis fyrir "vönduð bresk hjól." Þegar keppnirnar höfðu fest sig í sessi hérlendis þá mátti sjá auglýsingar eins og: "Heimsins frægustu hjólreiðamenn Paul Bourillon, Willy Arend, Franz Verheyen mæla allir með "Superior" hjólhestunum."

Knud Zimsen sem kom aftur til Íslands eftir verkfræðinám sitt vorið 1902 flutti með sér nokkur reiðhjól sem hann ætlaði að selja að áeggjan móðurbróður síns Christopher. Móðurbróðir hans átti verksmiðju í Danmörku sem framleiddi sjónauka, rafmagnsvélar og reiðhjól og var hann sannfærður um að Íslendingar myndi taka reiðhjólunum jafn opnum örmum og Danir hefðu gert. Þessi reiðhjól áttu að hafa verið af nýjustu gerð á Norðurlöndunum og leist Zimsen vel á að kynna betur fyrir Íslendingum kosti þess. Um þessa kaupmennsku segir hann:

Nokkrir Reykvíkingar áttu orðið hjól um þessar mundir, en öll höfðu þau verið pöntuð erlendis frá. Ég reyndi að haga mér kaupmannslega, sat um að fá einhvern til að kaupa reiðhjól, sem gerði það af brýnni þörf, en ekki spjátrungshætti. Mér þótti því hafa tekizt vel til, þegar héraðslæknirinn, Guðmundur Björnsson, hætti að þreyta göngu sína inn í skuggahverfi, vestur í Sel og upp í Þingholt, en þeysti þess í stað á reiðskjóta frá mér.

Viðgerðir og hjólaleigur

Í byrjun er sennilegt að hér hafi skort viðgerðakunnáttu þegar hjólhestarnir biluðu eins og kemur fram í Ísafold árið 1896 þar sem að tilraun til Þingvallarferðar mistókst hjá franska sjóliðanum vegna þess að "reiðskjótinn bilaði sunnarlega á heiðinni, kom gat á hjólhringinn, lopthringinn, en ekki er hægt að fá gert við það hjer." Sá sem fyrstur tekur að sér reiðhjólaviðgerðir mun hafa verið Gisli Finnsson járnsmiður sem jafnframt var meðlimur í Hjólmannafélagi Reykjavíkur. Gísli hafði kynnt sér reiðhjólaviðgerðir sérstaklega í Danmörku samkvæmt beiðni Hjólmannafélagsins og heimsótti hann m.a. reiðhjólaverksmiðju í Kaupmannahöfn á ferðalagi sínu sem að öðru leyti fór í að kynna sér ýmsar aðrar tækninýjungar. Því næst bættist Ólafur Magnússon í hópinn, en hann hóf starfsemi sína árið 1904 en Ólafur keypti svo síðar hjólreiðaverslunina Fálkann eins og áður hefur verið vikið að. Ólafur var smiður að atvinnu og eftir mikinn uppgang þá dró talsvert úr verkefnum og því fór hann að taka að sér reiðhjólaviðgerðir í kjallara sínum. Smátt og smátt jókst þetta það mikið að 1906 voru reiðhjólaviðgerðir orðnar aðalatvinna Ólafs. Brátt tók hann að flytja sjálfur inn varahluti og hjól, jafnframt því að gera gömul hjól algerlega upp aftur með lökkun og tilheyrandi. Einnig hélt hann úti reiðhjólaleigu til skamms tíma og verið sennilega með fyrstu reiðhjólaleigu sem vitað er um hérlendis. Næst honum kemur svo Sigurþór úrsmiður sem vitað er til að hafi leigt út reiðhjól en hann auglýsti nýja hjólhesta til leigu árið 1924. Einnig leigði Valdi rakari út reiðhjól á þriðja og fjórða áratugnum, en hún var til húsa ofarlega á Laugaveginum rétt hjá Vitastígnum. Fleiri leigðu út hjól en lítið er vitað um þær.

Fálkinn og Örninn

Sérverslanir með reiðhjól fóru að láta á sér bera í æ meira mæli. Í lok þriðja áratugarins seldu margar verslanirnar reiðhjól hér þó að takmarkaður fjöldi þeirra sérhæfði sig í reiðhjólasölunni. Harald S. Gudberg sem var faglærður reiðhjólasmiður stofnaði tvær þeirra; Fálkann 1916 og Örninn 1925. Harald sem byrjaði með Fálkann að Laugavegi 20 gerir því skóna að verslun hans hafi haft sérstöðu í auglýsingu sem birtist í lok maí 1916: "Komið til sérfræðingsins og þér verðið ánægðir" og er hann eflaust að vísa til þess að hann var sérmenntaður sem reiðhjólasmiður og öll áherslan lögð á reiðhjól. Er þetta því fyrsta sérverslunin með reiðhjól sem haslaði sér völl hérlendis. Þegar komið var fram á þriðja áratuginn fór hann utan til Danmerkur árið 1924 og hafði þá selt Ólafi Magnússyni Fálkann. Á sama tíma sagði forstöðumaður Fálkans, M. Buch, upp störfum og hóf sjálfur verkstæðisrekstur að Laugavegi 20. Ólafur sem var þá orðinn öllum hnútum kunnugur í reiðhjólaheiminum hélt áfram að efla verkstæðið og verslunina. Fljótlega fór hann að ráða erlenda menn í vinnu hjá sér. 1927 var Anschitz fenginn frá Þýskalandi á verkstæðið. Næst honum kom svo Jakobsen, frægur hjólreiðakappi frá Danmörku sem hættur var keppni. Smátt og smátt jukust svo umsvif Fálkans sem ekki verða rakin nánar hér.

Það er svo að frétta af honum Harald að hann kom svo á fót hjólreiðaverksmiðju í Kalundborg á Sjálandi og þegar hann kom aftur til Íslands þá stofnaði hann aðra hjólaverslun að Laugavegi 8. Örlítið neðar var svo Óðinn á Bankastrætinu, steinsnar fyrir neðan "hús Málarans", en þar er nú til húsa Sólon Islandus (kaffihús). Hjólreiðaverkstæði og verslun Óðins var svo stofnað í lok þriðja áratugarins, meðal annars af lærlingum Ólafs í Fálkanum sem voru Óskar Jónsson og Ívar Jónsson. Seinna flutti Óskar sig yfir í Skólastræti með reksturinn.

Vesturgata 5

1929 voru langstærstu verkstæðin hjá Fálkanum og Erninum þegar ungur maður frá Danmörku sem var á ferðinni kom til að heimsækja vin sinn Guðmund Bjarnlaugsson í Reykjavík. Var þetta Axel Janssen sem hafði unnið með Guðmundi þegar þeir voru að læra hjólhestasmíðar í Kalundborg í Danmörku. Í fyrstu átti þetta einungis að vera heimsókn en eftir að Harald S. Gudberg í Erninum, sem þekkt Axel frá Danmerkurdvöl sinni á árunum 1924-25, hafði sagt honum að það vantaði alveg hjólaverkstæði í vesturbæinn, sló hann til og stofnaði verkstæði á Vesturgötu 5 og var þar í samfellt 48 ár eða til ársins 1977. Fram að seinni heimsstyrjöldinni hafði svo þessi ungi danski maður nóg að gera. Hann gerði samninga um viðhald og samsetningu fyrir stór fyrirtæki eins og SÍS, Mjólkusamlagið og svo Silla og Valda. Voru hér fyrst og fremst um sendisveinahjól að ræða og svo samsetningu á nýjum hjólum fyrir SÍS sem voru hin frægu Möwe hjól. Axel Janssen notaði yfirleitt veturna á fjórða áratugnum oft til að gera upp notuð hjól, lakka þau upp og svo seldust þau á einum mánuði að vori. Þegar hjólin voru lökkuð voru þau yfirleitt látin þorna í brennsluofni sem venja var að væri til staðar inná verkstæðunum. Guðbjört dóttir Ólafs í Fálkanum segist muna eftir brennsluofni á 2. hæði í húsasundinu að Laugavegi 24 frá því hún var telpa en slíkir ofnar voru algengir á reiðhjólaverkstæðunum. Eftir seinni heimsstyrjöldina sameinuðu svo Axel og hjólreiðasmiðurinn Vilberg Jónsson krafta sína á Vesturgötu 5. Vilberg hafði verið með verkstæði uppi á Laugavegi sem hét Baldur og þegar hann flutti rekstur sinn niður á Vesturgötu þá tók hann nafnið með sér. Þannig hét verkstæði félaganna eftir þetta, Baldur. Rétt er að geta þess að reiðhjól voru seld ávallt á verkstæðinu, bæði ný og notuð.

Eins og sjá má var hér mikil gróska á verkstæðunum með hóp af færum mönnum innan borðs. Flestir höfðu sveinsbréf upp á vasann frá Danmörku sem kváðu á um að þeir væru hjólhestasmiðir. Reiðhjólasmíði og reiðhjólaviðgerðir virðast þó ekki hafa hlotið lögformlega viðurkenningu hérlendis þó að slíkt hafi verið alkunna t.d. í Danmörk frá því á seinni hluta 19. aldar. Þeir helstu sem hafa verið sérstaklega menntaðir til verkstæðisvinnu reiðhjóla voru: Stofnandi Fálkans og Arnarins, Harald S. Gudberg sem var lærður reiðhjólasmiður og svo hafði Vilberg á verkstæðinu Baldri lært reiðhjólasmíði hjá dönsku hjólaverksmiðjunni á Norreoby á Fyn. Axel Janssen og Guðmundur Bjarnlaugsson höfðu lært í Kalundborg eins og greint var fyrr frá. Hér bættist svo danskur maður að nafni Jakobsen sem minnst hefur verið á, og vann hjá hjá Ólafi í Fálkanum á fjórða áratugnum. Við bætist í hópinn svo Tryggvi Einarsson sem lauk námskeiðum í reiðhjólasmíði og viðgerðum í Bandaríkjunum 1990. Ekki er vitað um aðra með slíka menntun hérlendis.

Í Tímariti iðnaðarmanna er sjaldan minnst á reiðhjólaviðgerðir sem hluta af iðnaði landsmanna. Það eina sem má finna er skýrsla um iðnað á Akureyri þar sem kemur fram að á árunum 1927-28 hafi verið eitt reiðhjólaverkstæði með tveim starfsmönnum. Í skýrslu frá "Vjelaeftirlitinu" á árinu 1930 kemur fram að í Reykjavík hafi verið 5 reiðhjóla og bifreiðaverkstæði. Einnig kemur fram í tímariti iðnaðarmanna að reiðhjólaverksmiðjan Fálkinn hafi verið orðinn meðlimur í Félagi íslenskra iðnrekenda árið 1946 sem kemur heim og saman við þá hjólasmíði sem fram fór á fimmta áratugnum í Fálkanum eins og vikið verður að í næsta kafla.

Íslensk reiðhjól

Í sögu iðnaðar hérlendis, skipar reiðhjólið sinn sess. Fálkinn hafði framleitt svokölluð "Fálka-reiðhjól" frá því að verslunin hóf starfsemi sína 1916. Í raun hafði verslunin heitið frá upphafi; Reiðhjólaverksmiðjan Fálkinn. Fram að 1940 var þó einungis um að ræða samsetningarvinnu og viðhald notaðra hjóla eins og hefur komið fram. Fálkinn og Örninn voru með hjól merktum sér þó þau væru framleidd í Englandi og Danmörk. Í auglýsingu sem birtist í Íþróttablaðinu Þrótti 1919 kemur fram sem dæmi að "Fálka-reiðhjólin", gerð 1920 eru bygð úr hinu heimsfræga "Bramptons" efni" og er hér verið að vísa til þeirra hjóla sem Harald S. Gudberg lét smíða að mestu í verksmiðju í Norreoby á Fyn, Danmörk. Reiðhjólunum fylgdu vönduð vörumerki sem var sett á samkvæmt pöntun íslenskra hjólasala, og átti það að tryggja að kaupandinn væri að kaupa "Fálka-hjól".

Gætið þess að vörumerki vort sé á hverju reiðhjóli, sem þér kaupið. Vörumerkið er silfurskjöldur með fálka í bláum feldi, og er rauður og hvítur kross neðanundir. Er vörumerkið framan á reiðhjólinu undir stýrinu. Á neðri grind reiðhjólsins stendur nafnið "Fálkinn", blátt að lit og rauð og hvít rönd í kring. Á aftra skermbrettinu er nafnið "Fálkinn" í bláum feldi og hvít silfurrönd í kring.

Þegar seinni heimsstyrjöld bar að garði, hóf Fálkinn framleiðslu á reiðhjólum. Er þetta eina framleiðslan sem vitað er um hérlendis. Þegar talað er um reiðhjólasmíði þá er átt við að grindurnar voru soðnar saman úr ósamsettum rörum, einnig voru stýrin beygð og krómuð í verksmiðju Fálkans. Samkvæmt framleiðslutölum frá Fálkanum þá voru framleidd hérlendis 18000 reiðhjól á árunum 1942-1954. Svona voru hjólin auglýst í sýningaskrá iðnsýningarinnar 1952:

Allir sem þurfa að spara. Athugið, að þér græðið stórfé á ári hverju með því að hjóla til vinnu yðar-hjóla á "FÁLKA-HJÓLI". Reiðhjól eru nú sem áður lang-ódýrustu farartækin, sem völ er á. Auk þess eru hjólreiðar gagnleg og holl æfing fyrir heilsu manna. "Fálka-reiðhjól" framleidd úr bezta fáanlegu efni, standa erlendum reiðhjólum fylilega á sporði, bæði hvað útlit og gæði snertir. 10 ára reynsla í framleiðslu reiðhjóla.

Á iðnsýningunni voru til sýnis smíðaðar reiðhjólagrindur og samsett reiðhjól sem voru sýnishorn íslenskrar reiðhjólasmíði á Íslandi í upphaf sjötta áratugarins. Guðmundur Karlsson sem þá var viðloðandi reiðhjólaframleiðsluna lýsir smíðinni þannig að; "reiðhjólin voru smíðuð með múffum þar sem rörin voru látin renna inní og svo var þetta hitað upp eða kveikt saman eins og kallað er".

Þrátt fyrir nýsköpun í iðnaði þá virðist íslenska framleiðslan hafa þurft að hopa aftur fyrir erlendum hjólum sem flutt voru inn í miklum mæli upp úr seinni heimsstyrjöldinn. Samband Íslenskra samvinnufélaga flutti inn reiðhjólategund rétt fyrir miðja þessa öld sem að ljóðaskáldið Þórarinn Eldjárn gerði frægt í Möwe kvæði sínu.

Möwe kvæðið (tileinkað fórnarlömbum möwe ofsóknanna á Íslandi)

Ó reiðhjól best, þú rennur utan stans
Jafn rennilegt að aftan sem að framan
Þú varst stolt hins þýska verkamanns
sem þreyttum höndum skrúfaði þig saman

Ættjörð þín var ótal meinum hrjáð
af þeim sökum hlaust úr landi að fara.
Sjá hér þín örlög: utan garðs og smáð
í auðvaldslandi köldu á norðurhjara.

Í landi þessu létta mjúka hjól,
þú lentir brátt í mínum ungu höndum.
Ég fylltist gleði er fékk ég þig um jól
fegurð þín var svört með hvítum röndum.

Við ókum saman yfir hvað sem var,
enginn tálmi sá við þínu drifi.
Þýður gangur þinn af öllum bar
því skal ég aldrei gleyma meðan lifi.

Þá var ekki vont að vera til,
um veröldina liðum við í draumi.
En óvinurinn beið á bakvið þil
og brýndi klærnar ótt og títt í laumi.

Svo spratt hann fram og spottaði þig, hjól,
sparkaði í þig, jós þig nöfnum ljótum:
"möwe drusla" "drasl og skrapatól"
"dekkin riða" "sætið meiðir scrotum".

Og áróðurinn undirlagði mig,
auðvaldslygin spillti hjarta mínu:
Eins og fantur flekkaði ég þig
og fyrirgerði öllu trausti þínu.

Ég málaði þig blátt og breytti um hnakk
og bætti síðan enn um fólskuverkið:
Ég dró úr pússi mínu lútsterkt lakk
og lakkaði yfir stolt þitt: Vörumerkið.

Þú týndir öllu, eðli þínu firrt,
úr þér streymdi lífnautnin og safinn.
Þú misstir heilsu, gerðist stíft og stirt
þín stóra sál var bæði dauð og grafin.

Þannig fer ef vilji manns er veill,
vönkuð lundin allt hið rétta svíkur.
Það er best að vera hreinn og heill,
því hug og verki traustu bjargi lýkur

Þið skelfið mig ei lengur hætishót
heimsku þý sem alla gleði stýfið.
Ég hef iðrast, ég skal gera bót
ég skal renna á möwe gegnum lífið.

Kvæði: © Þórarinn Eldjárn

© Óskar Dýrmundur Ólafsson

Íslenski fjallahjólaklúbburinn,
Brekkustíg 2,
101 Reykjavík. 

 

Netfang: ifhk@fjallahjolaklubburinn.is
Kt. 600691-1399
Banki: 515-26-600691