Það var 1986 þegar Gary Fisher var að þróa smíði á títaníum reiðhjóli að hann komst að því að til að styrkja framenda hjólsins þyrfti að stækka stýrispípuna og gera hana sverari. Þannig mátti fá meiri styrk án þess að þyngja grindina. En þá þurfti líka að stækka stýrisleguna sem var aðallega 1 tomma auk þess sem 1 1/8" var þá þegar nýbúin ryðja sér rúms. Fisher ákvað þó að stækka leguna í 11/4" upp á sitt einsdæmi því hún gaf mun meiri styrk og vonaðist hann til að hún næði yfirhöndinni á markaðnum. Mikið var fjallað um þetta í tímaritum því framleiðendur voru alls ekki sammála um það hvort þörf væri á enn einni gerð stýrislegu á markaðinn. Margir betri framleiðendur reiðhjóla, þá sérstaklega þeir sem framleiddu álreiðhjól og tveggja manna hjól tóku 11/4" legunni fegins hendi þar sem stærðamunur milli 1 tommu og 11/8" var ekki nægilega mikill. Þannig gátu þeir fengið meiri styrk á einn viðkvæmasta hluta reiðhjólsins auk þess sem stýrislegan varð mun sterkari. En það dugði ekki til þó einhverjir litlir gæðaframleiðendur vildu nota 11/4" þá héldu fjöldaframleiðendur sig við 11/8". Það má því segja að 11/4" stýrislegan hafi endanlega horfið af markaðnum fyrir 4 árum. Áttu reiðhjólasalar þar mikla sök á því þeir voru ákveðnir að sitja ekki uppi með allt að 10 gerðir af stýrislegum því A-head stýrislegur voru komnar á markaðinn.

Framleiðendur eins og Klein og Cannondale fóru sínar eigin leiðir og með framleiðslu á Airhead og Headshock sem eru 11/4" og 11/2" að stærð með sterkum iðnaðarlegum. Þeir sáu líka um að framleiða sína eigin stýrisstoðir.

Nú eru hinsvegar framleiðendur að vakna til vitundar um að 11/8" stýrislegan er of lítil. Stafar það aðallega af því að með tilkomu dempara með allt að 180 mm slaglengd hafa menn þurft að stækka stýrispípuna og þar með leguna svo að sláin og undirpípan hafi nægan styrk við framgaffalinn. Framleiðendur hafa því verið að semja sín á milli um að setja á markaðinn 11/2" legu. Megum við því búast við að sjá þennan nýja staðal á öllum meiriháttar brunhjólum nú þegar á þessu ári.

Fyrir mig, undirritaðan, er þetta mikið fagnaðarefni þar sem ég hef notað allar gerðir stýrislega á ýmsum hjólum undanfarin ár. Það hefur ekki verið nein spurning um, að því stærri sem legan er þeim mun betra. Það var í raun 1 tomman sem hefði átt að hverfa af markaðnum fyrir 14 árum.

Magnús Bergsson
© Hjólhesturinn 1.tlb. 11.árg. 2002