Árni í Edinborg Það hefur lengi verið draumurinn að prófa liggjandi hjól. Ég vissi af manni í Edinborg, , sem rekur fyrirtæki sem býður upp á prufutíma og stuttar ferðir á liggjandi hjólum af ýmsum gerðum. Þegar leiðin lá til Edinborgar um daginn greip ég gæsina og hafði samband við hann. Það var lítið mál að fá tíma þótt ég væri bara einn á ferð, fyrirvarinn stuttur og ég nokkuð tímabundinn vegna strangrar dagskrár í ferðinni. Sama dag og ég kom út mæltum við okkur mót kl. 4 á verkstæðinu sem geymir hjólin fyrir hann.

David var vinalegur náungi og ég fann að ég var í góðum höndum. Hjólin sem ég prófaði heita Raptobike og Nazca Fuego og eru bæði hollensk. Raptobike er með drif á framhjólinu en Fuego er með drif á afturhjólinu. David vildi að ég byrjaði á Fuego því það væri auðveldara hjól.Við fórum með þessi hjól út á tún við Edinborgarháskóla, „The meadows“. Þar yfir liggur breið hjólabraut meðfram göngustíg og er víst fjölfarnasta leið fyrir hjólreiðamenn í borginni. Þar kom á daginn að ég átti að læra að hjóla upp á nýtt. Ég hefði ímyndað mér að það væri dálítið óþægilegt að gera það fyrir framan fullt af fólki, gangandi og hjólandi, en ég gleymdi alveg að vera spéhræddur, jafnvel þótt huggulegar ungar stúlkur úr háskólanum gengu hjá. Þetta var einfaldlega mjög skemmtilegt og David mjög hvetjandi og fær kennari.

 David Gardiner

David útskýrði hvernig hjólið virkaði og hvernig best væri að halda jafnvægi. Helstu leiðbeiningar Davids voru að horfa langt fram á veginn og ímynda sér ósýnilegan spotta sem verið væri að draga inn með pedölunum og lika að halda jafnvægi og stýra með bakinu. Ekki hreyfa stýrið mikið. Ég var satt að segja nokkuð grænn. Þó ég hafi hjólað frá barnsaldri og stundað samgöngu hjólreiðar á höfuðborgarsvæðinu í 23 ár var ég ekki búinn undir það hversu ólíkt þetta er venjulegu reiðhjóli.

Lagt var af stað í litlum halla niður og hélt Davið við hjólið í fyrstu ferðum. Eftir tvær tilraunir fór þetta að ganga og var hjólað fram og aftur á þessum stíg nokkrar ferðir. Ég var satt að segja nokkuð hissa á hvað þetta gekk vel miðað við tilfinninguna þegar ég fór fyrst á hjólið. Eftir þetta hjóluðum við eftir stígum yfir nokkrar umferðargötur og götur með hellusteinum þar sem allt hristist og skalf. Síðan vorum við komnir á hjólastíg sem liggur neðan við fjall í miðri Edinborg sem heitir Arthur’s Seat. Þar kom upp smávandi því stýrið á Fuego losnaði og þótt það eigi ekki að skipta máli (því það er stamminn sem er hreyfður til þegar maður beygir) setti þetta mig úr jafnvægi svo ég gat ekki hjólað á því. Þá skipti ég yfir á Raptobike og þar voru engin slík vandræði.

Árni á hjólinu

Þegar ég náði að slaka á fannst mér mjög þægilegt að vera á svona liggjandi hjóli. Hendurnar hvíla létt á stýrinu og hjólið flýgur áfram á jafnsléttu og niður brekkur. Að fara upp brekkur tekur meira í en David segir að það breytist með þjálfun því vöðvarnir í fótunum aðlagast. Það er vandasamara að fara hægt á liggjandi hjóli og stýra framhjá hindrunum en það batnar auðvitað með þjálfun.

Eftir þennan rúma klukkutíma á hjólunum fannst mér ganga nokkuð vel en það þarf greinilega að æfa sig lengur til að ná góðri færni, hraða og öryggi.
Það er ekki spurning um hvort heldur hvenær ég splæsi í liggjandi hjól.

p.s.
Er til betra hugtak á íslensku yfir liggjandi hjól.

Birtist fyrst í Hjólhestinum, fréttabréfi ÍFHK mars 2010.