Samgönguhjólreiðar og rafmagnshjól hafa verið líflegir sprotar síðustu misseri, ekki eingöngu á Íslandi heldur einnig í nágrannalöndunum. Þróunin er ör og borgaryfirvöld víða um heim líta til þess að breikka notkun hjóla út fyrir hefðbundin hjól. Oslóborg niðurgreiddi til dæmis rafmagnshjól af stærri gerðinni í fyrra í sérstöku átaki til að fjölga slíkum hjólum.

Síðasta sumar fæddist mér sonur og um það leyti hafði dóttir mín, tveggja ára, vaxið upp úr þeim stól sem ég hef haft á götuhjólinu mínu. Valkosturinn var nú að kaupa vagn eða nýtt hjól.

Eftir töluverða rannsóknarvinnu varð úr að ég keypti Urban Arrow Family, sem hannað er og framleitt í Hollandi. Hjólið hefur reynst mjög vel í daglegu brasi þennan vetur sem ég hef átt það. Það er með snörpum rafstuðningi, sem ég tel nauðsynlegan í öllum bæjum og borgum Íslands, og nægir til að koma hjólinu fullhlöðnu upp bröttustu brekkur. Rafstuðningurinn gerir það að verkum að í mótvindi eða þegar maður er að flýta sér er hægt að komast mjög hratt og örugglega á milli staða án þess að svitna um of. Vilji maður æfinguna, er hægt að slökkva á rafmagninu og púla þeim mun meira. Rafhleðslan dugar í viku miðað við mína notkun.

Þó framdekkið sé af óhefðbundinni stærð var hægt að fá nagladekk á það hér á Íslandi og lágur þyngdarpunktur gerir það að verkum að það er mun stöðugra heldur en þegar ég var með tveggja ára stelpuna á götuhjólinu, ofan á afturdekkinu.

 

Í Vatnsmýrinni. Takið eftir hjóli stelpunnar, sem komst fyrir ofan í kassanum, eins konar svar samgönguhjólreiðanna við húsbílunum sem rúmað geta lítinn bíl inní sér.

Í Vatnsmýrinni. Takið eftir hjóli stelpunnar, sem komst fyrir ofan í kassanum, eins konar svar samgönguhjólreiðanna við húsbílunum sem rúmað geta lítinn bíl inní sér.

Einn galli

Einn galli er á hjólinu, en hann er að glussinn sem stýrir annars prýðilegri gírskiptingunni frýs undir -2°C. Norskir eigendur svipaðra hjóla segja að það nægi að olíubera vírinn, en það hefur ekki virkað hjá mér svo á það sé treystandi. Samkvæmt samtali við framleiðandann virðist ekki vera nein opinber lausn á þessu máli. Þetta kemur ekki að sök ef hægt er að geyma hjólið innanhúss eða ef maður man eftir að skilja gírana eftir í einhverri millistillingu; hægt er að stilla rafstuðninginn á móti.

Kassinn er nógu stór fyrir þrjú börn og allan heimsins varning til heimilisins, en einnig var hægt að nota hjólið til að flytja til dæmis gönguskíði þegar skíðafært var á Klambratúni í vetur. Hægt er að fá fjöldann allan af aukahlutum á hjólið, meðal annars regnhlífar og festingar fyrir barnastóla af nokkrum gerðum. Keðjan er öll í lokuðu kerfi, svo engin hætta er á að buxur óhreinkist eða að keðjan detti af.

Á leið heim úr búðinni.

Á leið heim úr búðinni. 

Snjór og vindur ekkert mál

Síðan ég fékk hjólið hef ég getað án vandkvæða hjólað alla daga. Hjólið lætur glettilega vel í vindi og þeysist í gegnum snjó. Regnskýli sem hægt er að kaupa aukalega ætti enn frekar að auka þægindin yfir vetrartímann.

Ég hlakka til fæðingarorlofsins í sumar þegar ég get tekið börnin tvö í löng ævintýri út um borg og bý.

Enginn umboðsaðili er hér á landi, svo það var keypt í gegnum umboðsaðila í Bretlandi. Hjólið er ekki það ódýrasta en gerir mér kleift að komast allra minna ferða árið um kring og leysir langflesta snúninga sem ella væru á bílnum. Þrátt fyrir gallann með gírafrostið mæli ég heilshugar með hjólinu og vona að einhver hjólabúðin byrji að selja hjólið hérlendis.

Hjólið var fullkomið til að flytja gönguskíðin út á Klambratún.

Hjólið var fullkomið til að flytja gönguskíðin út á Klambratún.

 

Mynd efst: Gylfi og Borgarörin. Ljósmyndari Kristín Ólafsdóttir. Aðrar myndir Gylfi Ólafsson.

Gylfi Ólafsson

Birtist í Hjólhestinum mars 2018.

Ítarlegri útgáfu má lesa á gyl.fi.