Það er að ýmsu að huga þegar spáð er í kaup á nýju reiðhjóli en stundum gleymist aðalatriðið, að stellið sé af réttri stærð fyrir þig og að þú sitir í réttri stellingu á því.

bogidbak.JPG

Eitt það mikilvægasta við val á nýju hjóli er að velja rétta stærð af stelli fyrir þinn líkama. Þér þætti ekkert varið í 150.000kr hjól með höggdeyfum og öllu ef það passaði ekki líkama þínum. Það er nefnilega ekkert gott að sitja kengboginn yfir of litlu hjóli eða teygður á of stóru hjóli. Það getur valdið ýmiskonar eymslum í baki, hnjám og höndum og er ástæða þess að mörg hjól safna ryki inni í bílskúr.

hnakkm.JPG

Ég er einn af þeim sem ætla að endurnýja og settist því niður og fór að glugga í bækur og blöð til að sjá hvernig ég ætti að velja stellstærðina. Það kom í ljós að þetta er ekkert einfalt mál og yfirleitt ekki neinar heilagar reglur enda er fólk mismunandi í laginu. Sumir eru lappalangir og búkstuttir, öfugt eða eitthvað þar á milli.
Til eru mjög nákvæmar reglur hvernig á að reikna út allar stærðir á "racer" götuhjólum enda eru þau nokkuð stöðluð í laginu en fjallahjólin eru mun breytilegri í laginu enda oft hönnuð fyrir sérhæfða notkun.

hnakkste.JPG

Sum eru sérlega lipur í stýringu með stöngina fjarri viðkvæmum líkamshlutum og höggdeyfum sem gleypa í sig ójöfnur meðan ætt er niður snarbrattar fjallshlíðar í bruni. Önnur halda betur jafnvægi, hönnuð með þægindi í langferðum í huga. Þumalputtareglan segir að stellið eigi að vera þannig að ef staðið er yfir því séu 5 til 10cm upp í klof, jafnvel meir.

hnakkhae.JPG

Hnakkurinn er stilltur þannig að með hælinn á öðrum pedalanum samsíða sætisstöng sé löppin bein. Ef sætispípan nær ekki nema bara nokkra sentimetra upp úr stellinu er stellið of stórt og ef "max" merkingin á sætispípunni kemur upp úr er stellið of lítið. Með hendur á stýri og bakið beint ætti búkurinn að halla um 45 gráður (má vera meira eða minna eftir smekk) og þú að vera með þægilega sveigju í höndum. Ef þú ert krepptur yfir hjólinu er það of lítið og ef hendur eru teygðar langt fram er það of stórt. Reyndar er hægt að hækka eða skipta um stýrisstammana. Þeir koma mismunandi langir og reistir til að stilla þetta. Jafnvel er hægt að fá stýrisstamma með höggdeyfum sem taka í sig stærstu höggin á verði frá um 3000kr. Algengast er að hafa stýrið 5-10cm neðar en hnakkinn.

hnakkst.JPG

Mikilvægast er að stilla hnakkinn rétt. Bæði hæðina og líka hversu aftarlega hann er. Ef þú situr á hjólinu með sveifarnar láréttar á lóðrétt lína að liggja framan af fremra hné niður í gegnum öxul pedalans. Með hnakkinn í réttri stöðu fæst best nýting á orku vöðvanna og álagið kemur rétt á hnéin sem aftur gerir hjólreiðarnar bæði auðveldari og skemmtilegri heldur en ef orkunni er sóað í rangt átak eða upp kæmu eymsl í hné eða sitjanda.

 

stilla-s.gif

A

B

C

D

75-78

4-6

47-49

5-6

79-82

5-7

50-54

6-7

83-86

6-8

53-57

7-8

87-90

7-9

56-60

8-9

Munið að allar lengdir eru í cm og tölurnar eru aðeins til viðmiðunar og ekki bindandi

Hér fylgir með tafla yfir lengdir á hjóli fyrir meðalmanninn miðað við kloflengd en konur eru oftast búkstyttri og lappalengri svo fólk verður að horfa á þessar tölur með tilliti til þess hvernig það er í laginu.

Konur þurfa oft að byrja á því að henda hnakkinum sem fylgir nýju hjóli og fá sér almennilegan kvenhnakk sem hentar, því karlar og konur eru sannarlega ekki eins sköpuð á þessum hluta líkamanns. Sölumenn hérlendis virðast ekki gera sér grein fyrir þessum mun en klúbburinn hefur haldið sérstaka kvennafundi þar sem svona mál eru rædd í friði fyrir flissandi strákum. Einnig þarf að athuga ýmis smáatriði eins og að bremsur og skiptingar séu innan seilingar fyrir handsmáa.

Það skiptir ótrúlega miklu að það fari vel um mann á hjólinu, sérstaklega ef á að fara að ferðast og hjóla nokkra klukkutíma á dag.

Stillum stellið rétt og hjólum á vit ævintýranna.

Páll Guðjónsson

© Hjólhesturinn 1.tlb. 5.árg.