Íslenski fjallahjólaklúbburinn (ÍFHK) var stofnaður í þjóðgarðinum í Skaftafelli 5. júlí 1989 og hefur því starfað í aldarfjórðung á þessu ári. Stofnendur og félagsmenn ÍFHK voru um margt frumkvöðlar í ferðamennsku á reiðhjólum við íslenskar aðstæður. Fjallahjólin voru ný á þessum tíma og auðvelduðu bæði ferðir um fjöll og firnindi en líka ferðir í borgum því á þessum tíma voru flágar sjaldséðir á gangstéttum. Það var því kannski eðlilegt að kenna hinn nýstofnaða klúbb við það farartæki enda varð fjallahjólið fljótlega allsráðandi á markaðinum hérlendis. Af og til hefur komið til tals að breyta nafninu en ávallt verið ákveðið að halda í þetta gamalgróna og þekkta nafn. Sögu klúbbsins má lesa á vef klúbbsins og raunar  líka sögu hjólreiða á Íslandi frá upphafi.

En það eru ekki bara fjöllin sem kalla. Klúbburinn samanstendur af breiðum hópi fólks sem hefur hjólreiðamenningu að áhugamáli, vill auka veg reiðhjólsins sem samgöngutækis og vinnur að bættri aðstöðu hjólreiðafólks til samgangna. Markmiðið er að fá sem flesta til að fara ferða sinna á hjóli og komast í náið samband við móður náttúru, takast á við hana, skilja hana og virða.

Heimasíða klúbbsins opnaði um páskana 1997 og hefur elfst með hverju árinu og má þar lesa alls kyns fróðleik, ferðasögur og tæknigreinar. Erlendir ferðamenn víðsvegar að sem hyggjast ferðast um Ísland undir eigin afli sækja sér fróðleik þangað. Í árdaga klúbbsins fengum við fyrirspurnir erlendis frá ýmist bréflega eða í gegnum faxtæki klúbbsins og sparaði heimasíðan okkur ómældan tíma við bréfaskriftir og faxsendingar. Leiðbeiningar á ensku

Hjólhesturinn, fréttabréf ÍFHK, telur nú 23 árganga og hefur ávallt verið mikilvægur miðill til að kynna starfsemina, baráttumálin og fræða.

Fyrstu árin var eina aðstaða ÍFHK lítill fataskápur í Þróttheimum þar sem við hittumst mánaðarlega. Mikil bylting varð í starfsemi klúbbsins þegar við fengum inni í leiguhúsnæði að Austurbugt 2 þar sem við gátum hist vikulega, komið upp smá viðgerðaraðstöðu og lagt grunn að bóka- og blaðasafni. Það húsnæði þurfti svo að víkja fyrir Hörpunni og upphófst þá löng og ströng leit að nýju húsnæði. Núverandi klúbbhús að Brekkustíg 2 fengum við afhent rétt svo fokhelt 25. mars 1999. Það þurfti töluvert átak til að koma húsinu í stand og lögðu margir til hjálparhönd.

Fram að aldamótunum síðustu var Fjallahjólaklúbburinn ötull málsvari hjólandi fólks gagnvart stjórnvöldum með umsögnum, ráðstefnuhaldi og ýmisskonar fræðslustarfi. Með tilkomu Landssamtaka hjólreiðamanna sem ÍFHK er aðili að færðist mikið af þeirri starfsemi undir þann hatt og eru fulltrúar ÍFHK mjög virkir í starfsemi LHM.

Frá 1994 höfum við verið með byrjendavænar hjólaferðir um borgina á sumrin og undanfarna vetur hefur LHM starfrækt svipað verkefni. 2010 störtuðum við svo byrjendavænu samstarfsverkefni ÍFHK og LHM sem kallast hjólreiðar.is og er ætlað að vinna að megintilgangi beggja samtakanna; að auka hjólreiðar. Auk vefsins höfum við gefið út og dreift hátt í 30 þúsund bæklingum með fræðslu og hvatningarefni. Starfsemin hefur því sjaldan verið öflugri en nú.

Birtist fyrst í Hjólhestinum 1 tlb. 23. árg. 2014 sem leiðari ritstjóra.