Ef þú labbar rólega milli staða ættir þú ekki að koma á áfangastað í svitakófi líkt og þú hefðir hlaupið alla leiðina. Það sama á við þegar farið er á milli staða á reiðhjóli, það þarf enginn að koma kófsveittur á áfangastað.

Þeir sem ekki eru vanir að nota reiðhjólið sem venjulegt farartæki mikla það mikið fyrir sér og halda að eitthvað sé athugavert við að hjóla öðruvísi klæddur en keppnisfólk. Vissulega þarf sérbúnað þegar æft er og keppt, eða ferðast enda er þá setið á hjólinu tímunum saman. En venjulegur fatnaður nýtist fyllilega hvort sem gengið er eða hjólað á milli staða. Þetta eru æ fleiri að uppgvötva, eins merkilega og það kann að hljóma.

Þegar öllu er á botninn hvolft er nefnilega ekkert merkilegt við það að hjóla. Það er ósköp hversdagslegt athæfi sem þó sparar okkur mikinn pening, hressir okkur og kætir og kemur okkur hraðast yfir á styttri leiðum.

Tweed Ride Reykjavík heitir skrúðreið hjólandi sem fer fram árlega í sumarbyrjun og er skipulögð af félögunum í Reiðhjólaverzluninni Berlin. Þar er þessum einfalda sannleik fagnað með glæsilegri skrúðreið prúðbúins fólks sem hjólar í léttum gír um miðbæinn og tekur góða pásu með lautarferðarstemningu. Að lokum eru svo veittar viðurkenningar en ekki fyrir að hjóla hraðast heldur fyrir glæsileika fólks og farartækja.

Eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan, sem tekin er á Snorrabraut, og hinum sem allar voru teknar í Tweed Ride Reykjavik 2013 erum við langt komin í því að ná hjólamenningunni upp á sambærilegt stig og gerist í hjólavænum borgum Evrópu. Næsta Tweed Ride er áætlað laugardaginn 7. júní 2014.

Skráið ykkur endilega á póstlistann okkar á forsíðu heimasíðu klúbbsins til að fá tilkynningar um hvað er á döfinni því oft eru viðburðir skipulagðir með stuttum fyrirvara.

Ljósmyndari okkar fékk að slást í för með þessu fríða föruneyti og ljósmynda skrúðreiðina. Afraksturinn má sjá á Hjólreiðar.is ásamt nánari upplýsingum.

Birtist fyrst í Hjólhestinum 1 tlb. 23. árg. 2014