Kíktu með í ferð með okkur

Ég ætlaði varla að þora að mæta í mína fyrstu þriðjudagskvöldferð.  Ég hélt að allir í Fjallahjólaklúbbnum hlytu að vera í þrusuformi, á eðalhjólum og spandexklæddir frá toppi til táar.  Verandi miðaldra, gigtveik, allt of þung kona, á ódýru byggingavöruverslunarhjóli hafði ég áhyggjur af því að ég ætti ekkert erindi í þennan félagsskap.  Ég byrjaði að hjóla af því ég var ekki göngufær lengur sökum ofþyngdar.  Framundan var utanlandsferð með gönguklúbbnum mínum og ég var ekki í neinu formi til að taka þátt.  Ég setti  mér það markmið um vorið  að koma mér í betra form með því að synda daglega og hjóla til vinnu svo ég þyrfti ekki að hanga ein á barnum á meðan göngufélagar mínir spændu sprækir upp um fjöll og firnindi.  Þetta heppnaðist ljómandi vel, ég var allt önnur manneskja um haustið og plumaði mig vel í gönguferðinni,  svo ég ákvað að taka dæmið lengra og hjóla um veturinn og komast í enn betra form.  Ég rakst á Fjallahjólaklúbbinn á netinu og heillaðist af starfseminni, sérstaklega því að allt starf er þar unnið í sjálfboðavinnu.

Eftir tvö ár var ég búin að missa fullt af kílóum og heilsan orðin allt önnur og betri. Sunnudagskvöldum hafði ég eytt  í að flokka lyf fyrir vikuna; sykursýki, of hátt kólesterol, of hár blóðþrýstingur, gigtar og taugaverkir,  en nú hef ég  náð að losa mig við nánast öll lyf og er í langtum betra formi í dag, 49 ára gömul, heldur en þegar ég var 39 ára.  Sunnudagskvöldunum get ég nú eytt við hjólreiðar eða aðra skemmtilegri iðju en flokka og raða töflum ofan í pillubox.

2007 - 2013
Fyrri mynd var tekin 2007 - Seinni mynd var tekin 2013

Víkjum aftur að þriðjudagskvöldferðunum.  Ég var búin að skoða myndir á heimasíðu klúbbsins og sjá að fólkið sem var að hjóla var af öllum stærðum og gerðum og klæðnaðurinn með ýmsu móti.  Sumir  í gallabuxum, aðrir í pilsi, og svo vissulega einhverjir sem mæta í spandex.  Það gerði ég.  Var sú sem var í þrengsta spandexinu það kvöldið.  Hjóluðum í gegnum Fossvogsdalinn, vestur í bæ í vöfflukaffi í Klúbbhúsinu.  Sérlega ánægjuleg kvöldstund í góðum félagsskap.  Ég þekkti engan, en fólk með sameiginleg áhugamál er fljótt að kynnast og í  dag er ég einn af fararstjórum þriðjudagskvöldferðanna.  Þó  ég hafi búið á höfuðborgarsvæðinu í tæp 30 ár, þá voru margar perlur sem ég hafði aldrei skoðað.  Hefur þú komið í Kópavogsdalinn?  Hjólað í gegnum hraunið á milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar?  Farið í fótabað á Seltjarnarnesi?  Veist þú hvar Norðlingaholt er eða hvernig eigi að komast aftur út úr því?  Hver hefur ekki komið í Elliðaárdalinn eða hjólað upp Öskuhlíð að Perlunni?  Hvernig kemst ég upp í Heiðmörk á hjóli?  Hvar er Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn?  Jú, þar hittumst við við aðalinnganginn  kl.19:30 á hverjum þriðjudegi frá byrjun maí  og hjólum saman, ýmist eftir stígum, hjólabrautum eða samnýtum rólegar hverfisgötur með öðrum farartækjum, lærum að þekkja stígakerfið, kynnumst þeim fjölmörgu hjólabrautum  sem hafa verið lagðir á undanförnum árum og gert hjólreiðafólki auðveldara að fara um höfuðborgarsvæðið með  öruggum hætti.

Skipulagið er með þeim hætti að veður, vindátt, færni og óskir þátttakenda ráða því hvert er hjólað hverju sinni.  Þriðja fimmtudag í mánuði er lengri ferð, þá má búast við að allt kvöldið fari í túrinn; í Hafnarfjörð, upp í Heiðmörk, út í Viðey, kannski kíkt í kaffi á Bessastöðum eða óvænt óvissuferð.  Stundum er farið á kaffihús, við höfum farið í sjósund, endað í ísbúð eða á hamborgarabúllu.  Bara allt eftir  því hvernig stemmingin er hverju sinni.  Þessar ferðir henta öllum, byrjendum, görpum og börnum niður í 10 ára í fylgd foreldra eða forráðamanna.  Þá hafa yngri börn komið með á tengihjólum eða þar til gerðum barnastólum.  Er ekki tími til kominn að dusta rykið af reiðhjólinu sem er búið að standa allt of lengi úti í bílskúr og koma með okkur eitthvert kvöldið?