Velo-city ráðstefnurnar eru haldnar af Hjólreiðasamtökum Evrópu, ECF, sem Landssamtök hjólreiðamanna eru aðili að. Þetta eru stærstu hjólaráðstefnur sem haldnar eru í heiminum  árlega til skiptis í Evrópu eða í annarri heimsálfu. Þegar hún er utan Evrópu er hún kölluð Velo-city global. Þær borgir sem vilja standa framarlega í hjólreiðum og vera hip og kúl keppast um að fá ráðstefnuna til sín.

Að jafnaði hafa fáir íslendingar sótt þessar ráðstefnur í gegnum tíðina, oftast einn eða engin. Árið 2013 var ráðstefnan haldin í Vínarborg og brá svo við að ekki færri en fjórir íslendingar sóttu hana og er það sennilega til merkis um vaxandi gengi hjólreiða í landinu. Þeir sem fóru voru undirritaður, formaður Landssamtaka hjólreiðamanna, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir frá EFLU verkfræðistofu, Gísli Marteinn Baldursson borgarfulltrúi í Reykjavík og Rúnar Pálmason blaðamaður á Morgunblaðinu. Gísli flutti erindi á ráðstefnunni fyrir fullum sal af fólki um vöxt hjólreiða á Íslandi.

Rúnar skrifaði margar greinar um ráðstefnuna og Vín af ýmsum toga. Mjög áhugavert var að lesa viðtal hans við Lenore Skenazy “verstu mömmu Bandaríkjanna” sem varaði við ofverndun barna en hún flutti erindi á ráðstefnunni. Sjá: Versta mamma Bandaríkjanna varar við ofverndun barna

Ráðstefnan var haldinn í gömlu ráðhúsi Vínarborgar og var sem fyrr segir mjög stór, dagskráin margþætt og útilokað að sitja alla fyrirlestra og málstofur enda dagskráin um fjórföld á hverjum tíma og náði frá morgni fram á kvöld í fjóra daga. Ég reyndi að sigta úr og lagði mesta áherslu á að sjá og heyra um hjólreiðakennslu og gerð innviða fyrir reiðhjól en ýmislegt fleira slæddist með. Mikið af glærum úr erindum má skoða á netinu undir “Presentations”. Sjá http://velo-city2013.com/?page_id=6241

Þá hjólaði ég víða um borgina og skoðaði og myndaði mikið af þeim hjólastígum sem hafa verið lagðir af krafti í borginni undanfarin ár. Hjólastígarnir voru misjafnir að gæðum. Greiðustu leiðirnar liggja eftir  skurðum og árfarvegum en einnig voru sum hverfi byggð með breiðum og góðum stígum. Annarstaðar og þá víða í miðborginni var plássið lítið og hjólastígarnir ekki eins öruggir fyrir vikið. Hjólreiðarnar um borgina eru þó almennt mjög þægilegar og henta öllum sem hjóla nema helst óþægilegar leiðir á götum miðborgarinnar. Athyglisvert var að á mörgum götum voru hjólreiðar leyfðar gegn einstefnu.

Félagslífið á svona ráðstefnu er kapítuli útaf fyrir sig. Í öllum kaffi og matartímum hitti maður hjólavini frá öllum heimsálfum og spjallaði ég við þá um hjólreiðar og aðstæður til hjólreiða í þeim löndum sem þeir komu frá og sagði frá íslenskum aðstæðum. Þýskumælandi fólk var fjölmennt á ráðstefnunni í þetta sinn en fólk kom allstaðar að. Ástralir voru nokkuð fjölmennir enda verður ráðstefnan 2014 haldinn í Adelaide í Ástralíu 27.-30. maí. Sjá: http://www.velo-city2014.com/

Hápunktur ráðstefnunnar var kannski hópferð um götur borgarinnar og yfir Dóná þar sem mörg þúsund manns hjóluðu saman í blíðskaparveðri og endaði í garði þar sem voru tónleikar í kvöldsól og 20 stiga hita.

Ráðstefnunni lauk hjá mér á föstudagseftirmiðdegi með hjólaferð um borgina þar sem kynntir voru hjólastígar og lausnir í vesturhluta borgarinnar. Þar var meðal annars hjólastígur í þurrum árfarvegi en hann lokast þegar flóð eru í ánni en nýtist vel sem bein og greið leið mestan hluta ársins. Einnig var skoðuð læst hjólageymsla við brautarstöð sem Dönum í hópnum leist vel á og svo var farið með hjólið í neðanjarðarlest til baka. Auðvelt var að taka reiðhjól í járnbrautarlestir og neðanjarðarlestir.

Svipmyndir frá ráðstefnunni: