Hjólað til framtíðar var yfirskrift þriðju ráðstefnunnar um málefni hjólandi vegfarenda á síðustu tveim árum. Áherslan var á það sem efst ber á baugi í heimi hjólavísindanna og reynslu þeirra sem hafa eflt hjólreiðar í sínu nærumhverfi.

Tækifæri í hjólaferðamennsku á Ísland, hét málþing haldið var í febrúar 2012. Það var liður í verkefninu Hjólaleiðir á Íslandi og fjallaði um tækifærin sem fólgin eru í hjólaferðamennsku á Íslandi, hver staðan er og hvað við þurfum að gera til að geta nýtt þessi tækifæri.

Undirbúningsvinna er þegar hafin fyrir næstu hjólaráðstefnu á Samgönguviku næsta september, þar verður fjallað um rétt barna til hjólreiða.

Það má hlusta á alla fyrirlestrana og skoða glærurnar á vef Landssamtaka hjólreiðamanna lhm.is svo við fjöllum ekki ýtarlega um þær í þessu blaði en endum á því að vitna í loka erindi ráðstefnunnar um rannsóknir þar sem Dr. Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík sagði eftirfarandi m.a.:

Umræðurnar sem hér eru að eiga sér stað eru gríðarlega mikilvægur drifkraftur í því að koma hlutum áfram. Tregðulögmál Newtons á ekki síður við í mannlegu samfélagi heldur um efnisheiminn. Að svo fremi sem enginn kraftur verki á hegðun fólks þá heldur hún áfram óbreyttri stefnu. Því að hluti af því sem við erum að fjalla um í dag er hvernig þessi umræða getur fengið fólk til að breyta sinni hegðun og skoða nýja valkosti.
En sem fulltrúi akademíska samfélagsins langar mig kannski líka til að taka undir þessi sjónarmið sem hafa komið hér fram varðandi þörf á rannsóknum. Því það að breyta samgöngumáta og eiga við alla þá þætti sem þar koma að, mannlega þáttinn, umhverfisþáttinn, tækniþáttinn, skipulagsþáttinn, allt þetta og það þarf líka að líta til þess að ná utan um heildarmyndina. Og til þess eru vísindalegar rannsóknir einstaklega vel til fallnar.

Þannig að það að skoða spurningar eins og með ímyndina, hvað er það sem fær fólk til að ákveða eitt eða annað. Hvernig tengist það við þá hvata sem hægt er að setja fram til þess að ákvarðanir séu teknar með samfélagsleg markmið og samræmist við þau? Þannig að það eru ýmsar spurningar sem eru áleitnar og ég vona að  þessar rannsóknir sem þegar hafa komið fram og þær spurningar sem vakna í framhaldi af því hvetji til þess að við beitum í enn ríkari mæli vísindalegum vinnubrögðum til að komast að niðurstöðum um um alla þá þætti sem tengjast hjólreiðum. Því umræðan eru jú mjög þörf og hún er hluti af því að koma hugsunum af stað.
Það er gott að byggja á vísindalegri þekkingu. Og það sem er einn af kostunum við vísindalega þekkingu er að niðurstaðan brýtur oft gegn því sem er viðhöfð venja og þá er gott að standa traustum fótum þegar maður heldur því fram.

Hér eru svipmyndir frá ráðstefnunni Hjólað til framtíðar 2012: