Skólahjólakeppni nemenda og starfsmanna í framhaldsskólum á Íslandi er fastur liður í Evrópsku samgönguvikunni 16. – 22. september:
Það er komið að því; framhaldsskólar á Íslandi eru farnir að keppa sín á milli í Hjólað í skólann! Fyrsta keppnin fór fram í Evrópsku samgönguvikunni 2012, smá í sniðum þar sem áhersla var lögð á að nemendur kæmu á hjóli í skólann  einn dag vikunnar og hver skóli sendi inn hjólamynd. Verðlaun í boði Landlæknis voru 50.000 kr. til hjólaframkvæmda við skólann og féllu þau í hlut Framhaldsskólans á Húsavík.

Bæði þótti dómnefndinni myndin skemmtileg en ekki síður gladdi það nefndina að nemendur höfðu sjálfir frumkvæði að því að loka hreinlega bílastæði skólans heilan dag!

Framundan er stefnt að því að  keppnin verði árviss í Evrópsku samgönguvikunni, sem fer fram 16. - 22. september ár hvert og á að ná yfir þá 5 virku daga sem rúmast innan vikunnar.

Hjólað í skólann er samstarfsverkefni Hjólafærni á Íslandi, ÍSÍ almenningsíþróttasviðs, Heilsueflandi framhaldsskóla hjá Landlækni, Evrópsku samgönguvikunnar/Reykjavíkurborgar, Umferðastofu og Sambands íslenskra framhaldsskólanema.

Fleira viljum við gjarna gera í tengslum við framtakið. SÍF langar að gefa út tímarit um hjólreiðar og eins væri gaman ef samgöngukönnun sem MK hefur lagt fyrir sína nemendur sl. ár, gæti orðið hluti af ferðavenjukönnunum í fleiri skólum.

Einn framhaldsskóli á Íslandi virðist bera höfuð og herðar yfir aðra framhaldsskóla þegar snýr að reiðhjólanotkun nemenda. Þetta er Fjölbrautaskólinn í Ármúla. Þar hefur í nokkur ár verið boðið upp á áfangann Hjólað í skólann, sem gefur einingar og virkar með svipuðum hætti og samgöngusamningar fyrirtækja. Þátttaka í áfanganum vex með hverju ári og er sannarlega til eftirbreytni fyrir aðra skóla.  Annað ánægjulegt og  ábyrgt framtak skólans sem gaman er að segja frá er að þeir sem nota bílastæðin á landinu sem skólinn hefur til umráða, greiða fyrir afnot af þeim. Þetta er dýrt landrými á besta stað í bænum og hlýtur þetta að teljast ábyrg stjórnun fyrirtækis að kalla eftir eðlilegri lóðarleigu á landi sem stofnunin er ábyrg fyrir.

Fyrir ofan er verðlaunamynd keppninnar frá Húsavík og hér eru fleiri svipmyndir.