Það var um sumarið 2011 sem ég byrjaði að hjóla. Hafði náttúrulega hjólað sem barn og unglingur en ekkert síðan á háskólaárunum. En sem ég var að taka til í bílskúrnum varð á vegi mínum hjólgarmur sem ég hafði bjargað í hús fyrir dóttur mína og hafði staðið úti og ryðgað í heilan vetur. Ég pumpaði lofti í dekkin og fór að hjóla um næstu götur í Garðabænum. Þetta var ótrúlega gaman en ég fann fljótt að mig vantaði betra hjól. Nú varð ekki aftur snúið. Ég keypti mér þokkalegt hybrid hjól og fór að hjóla sífellt lengri vegalengdir og það lá beint við að hjóla í vinnuna. Ég hafði hugleitt að taka þátt í átakinu „hjólað í vinnuna“ en ekki lagt í það; að hjóla alla leið úr Garðabæ var ekki á hvers manns færi - hélt ég. En nú fór ég að hjóla þessa 7 kílómetra á hverjum degi og þetta reyndist ekki vera neitt mál – fyrir karl sem er að nálgast sextugt, hvað þá fyrir þá sem yngri eru!

Síðan í júlí 2011 hef ég hjólað í vinnuna nánast á hverjum degi, einnig yfir veturinn. Alls nærri 4 þúsund kílómetra. Í fyrravetur varð smá hlé í desember og janúar þegar skaflarnir voru sem hæstir, en annars er fátt sem stoppar kallinn. Veðrið á Íslandi er ekki jafn slæmt og margur hyggur og flesta daga er bara fínt að hjóla þótt veðrið sé kannski þannig að ekki sé gaman að standa og bíða eftir strætó. Það þekkja þeir sem hjóla að hreyfingin skapar varma og vellíðan í kroppinn þegar endorfínið flæðir um heilann. En það er mikilvægt að klæða sig rétt eftir veðri og hafa hjólið í lagi og rétt útbúið og auðvitað á nagladekkjum yfir veturinn.

Talandi um endorfín, þá er gaman að segja frá því að ég skrái allar mínar ferðir í Endomondo og það gera einnig nokkrir vinnufélagar mínir. Það er skemmtilegur félagsskapur sem þannig myndast og alltaf gaman að bera saman bækur sínar og hvetja hverjir aðra. Á Eflu er stór og vaxandi hópur fólks sem hjólar reglulega í vinnuna. Við njótum góðs af fínni aðstöðu á vinnustaðnum, þar sem sturtur, búningsklefar og hjólageymsla er eins og best verður á kosið og gætu önnur fyrirtæki tekið Eflu sér til fyrirmyndar í því, eins og ýmsu öðru.

Áður en ég fór að hjóla gat ég ekki gert mér í hugarlund hvernig hægt væri að komast hjólandi þessa leið milli Hæðahverfis í Garðabæ og Höfðabakka. Enda er það þannig að á þessari 7 km leið sem liggur um þrjú sveitarfélög eru engin umferðarmannvirki ætluð hjólreiðum. Leiðin liggur um gangstéttir, göngustíga (oft ólýsta) ætlaða til útivistar, umferðargötur- og jafnvel yfir tún: Svo háttar til á einum stað að göngustígur fer yfir götu á hellulagðri gangbraut og endar þar, bókstaflega úti á túni. Á hluta leiðarinnar (um Stekkjarbakka) er engin leið að hjóla án þess að vera úti á umferðargötu þar sem ekið er á 60 km hraða, oft af fjarska lítilli tillitssemi við hjólreiðamanninn. Margir bílstjórar eiga eitt og annað ólært í umgengni við hjólandi vegfarendur, en það lærist eftir því sem hjólreiðamönnum fjölgar í umferðinni og öðlast þar sinn rétt. Og sjálfur veit ég að sá sem hefur hjólað í umferðinni verður betri bílstjóri fyrir vikið. Því fleiri sem fara út að hjóla því betra – það mælir allt með því: Betri umferðarmenning að ógleymdri hollustunni, hreyfingunni, orkusparnaðinum, umhverfinu, hagkvæmninni...

Samgönguhjólreiðar eru fremur nýtt hugtak og ekki við því að búast að samgöngumannvirkin verði til á einni nóttu, en víða væri hægt að bæta aðstæður til samgönguhjólreiða verulega með litlum tilkostnaði. Það er gleðiefni að verið er að ráðast í lagningu hjólastíga og setja fé í framkvæmdir, en ég held að menn ættu kannski að huga að forgangsröðuninni og hvar raunverulega er brýnast að bæta úr.

Árni Árnason.