Hjólastígar eiga sér ekki langa sögu á Íslandi. Í raun má sega að sú saga sé ekki hafin því ekki eru þeir komnir í umferðarlög enn.

Fyrsti eiginlegi hjólastígurinn er líklega stuttur aðskildur hjólastígur á Laugavegi sem er ágætur svo langt sem hann nær, en er ekki einu sinni á milli tveggja gatnamóta. Löngu seinna komu hjólastígar í Lönguhlíð sunnan Hringbrautar. Þeir þóttu hin mesta furðusmíð þar sem tekið var tillit til flestra annarra en hjólandi sem vildu einsleita beina og greiða leið líkt og fyrir var á akgreininni sem fór undir þetta. Enda var ekki lagt upp í þessar framkvæmdir til að að mæta þörfum hjólandi, heldur til að hægja á bifreiðum.

En tímarnir breytast og mennirnir með. Vonandi var tekið mark á gagnrýninni og ákveðið að gera betur þegar Reykjavíkurborg lét útbúa Hjólreiðaáætlun og Hönnunarleiðbeiningar fyrir hjólamannvirki sem bæði hafa markað tímamót. Nú er við völd fólk sem bæði segist vilja efla hjólreiðar og er tilbúið að leggja pening í framkvæmdir.

Langt er komið með að leggja aðskilinn hjólastíg meðfram útivistarstígnum frá Ægissíðu, gegnum Fossvog og upp að Elliðaám. Einnig standa yfir framkvæmdir við sér hjólastíg frá Hlemmi, eftir Suðurlandsbraut og yfir nýjar brýr sem væntanlegar eru í haust yfir Elliðaár á Geirsnefi.

Ýmislegt spennandi hefur sést á teikniborðinu, s.s. hjólastígur sitt hvoru megin Hofsvallagötu og Snorrabrautar, við Sundlaugaveg og víðar. Nýjust eru áform um hjólastíg sitt hvoru megin Hverfisgötu samhliða endurnýjun þar. Það verður að segjast að athugasemdum LHM við teikningarnar fer fækkandi með hverri teikningunni enda er nú unnið eftir hönnunarleiðbeiningunum góðu og hefur LHM beint því til annarra sveitafélaga á höfuðborgarsvæðinu að taka þær upp.

Hverfisgata með hjólastígum sitt hvoru megin

Í þeim er skilgreint hvenær þörf er á aðskildum hjólastíg, hjólarein, merkingum með hjólavísum eða ekki eins og í 30 km hverfunum, það fer eftir umferðarþunga og hraða á akbraut auk umferðar gangandi á stígum.

Suðurgata norðan Hringbrautar þótti of þröng fyrir umferð í báðar áttir og var gerð að einstefnugötu. Þó var ástæðulaust að banna hjólaumferð til norðurs og því útbúin sér hjólarein og akreinin til suðurs merkt með hjólavísum til að minna bílstjóra á að þeir deila akreininni með hjólandi umferð. Svipað fyrirkomulag upp Frakkastíg er nú á teikniborðinu.

ruv-frett-130218.jpg

Jafnvel ríkisvaldið/Vegagerðin sem fannst ekki í sínum verkahring að þjóna hjólandi umferð til skamms tíma er komin á fullt í framkvæmdir.

Samkvæmt frétt RÚV 18/2/2013 ætlar Vegagerðin að setja 750 milljónir á þremur árum í gerð hjólreiðastíga á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Hún greiðir helminginn á móti sveitarfélögunum.

Áætlunin hófst í fyrra en þá var byrjað á nokkrum hjólreiðastígum sem eru bleikir á kortinu fyrir ofan. Til dæmis var lagður stígur við Vesturlandsveg, bæði meðfram Grafarholtshverfinu og svo frá Bauhaus að Mosfellsbæ. Ríflega tuttugu aðrir stígar eru á áætlun vegagerðarinnar.

Stígarnir sem byrjað var á í fyrra, og er mörgum hverjum lokið, eru við Vesturlandsveg, Suðurlandsbraut, Suðurströnd og Hafnarfjarðarveg til móts við Sunnuhlíð. Á þessu ári verður haldið áfram með stíga við Vesturlandsveg og auk þess lagðir stígar við  Hafnarfjarðarveg nálægt Kópavogsgjánni, Reykjanesbraut milli Linda og Mjóddar, frá Kaplakrika að Vífilsstaðavegi og við Bæjarhraun og Hvammabraut í Hafnarfirði (blátt á korti). Árið 2014 er svo gert ráð fyrir stíg frá Fjarðarkaupum í Hafnarfirði að Engidal, meðfram Suðurbraut í sama bæ og svo meðfram Hafnarfjarðarvegi, frá Arnarnesvegi að Breiðási (hvítt á korti). Vegagerðin mun leggja fjármuni í fleiri stíga eftir að sveitarfélög hafa tekið endanlega ákvörðun, samkvæmt þessari frétt RÚV.

Stigar_styrktir_af_Vegagerdinni

Hér er annað kort sem sýnir betur stíga sem Vegagerðin hefur eða mun styrkja. Í flestum tilfellum er um stíga fyrir bæði gangandi og hjólandi en ekki eiginlega hjólastíga. Neðst er svo kort frá Landslag ehf. sem sýnir að ýmsar metnaðarfullar hugmyndir að útivistarstígum eru í þróun.

Landslag

En þó hér sé horft á björtu hliðarnar eru ekki allir að ganga í takt til að efla hjólreiðar á Íslandi eins og sést þegar rennt er yfir stefnu- og baráttumál LHM. (lhm.is/stefnumal)

Má þar nefna að við mörg helstu gatnamót hefur verið komið fyrir grindum og könntum sem gera leiðin afar ógreiðfæra fyrir fólk sem hjólar með t.d. barnakerrur að ekki sé minnst á snjóruðningstæki.

Viða eru umferðarstýrð umferðarljós sem ekki gefa hjólandi grænt ljós vegna skynjara sem ekki skynja annað en bíla þó gatnakerfið  eigi augljóslega að þjóna öllum farartækjum.

Fyrir Alþingi liggur enn frumvarp til nýrra umferðarlaga sem LHM hefur ár eftir ár gert alvarlegar athugasemdir við án þess að fá nein svör eða rökstuðning við helstu athugasemdirnar s.s. að ákveðin atriði verði raunverulega endurskoðuð við þessa endurskoðun umferðarlaganna. Þekking á málefnum hjólandi hefur vaxið mjög á undanförnum árum og full ástæða er til að ný umferðarlög endurspegli þá þekkingu en byggi ekki á gömlum úreltum gögnum.

Lítið framboð er á almennilegum hjólastæðum þó þau kosti lítið brot af því sem bílastæði kosta. Víða er einungis boðið upp á grindur þær sem í daglegu tali eru kallaðar gjarðabanar, sem hvorki styðja vel við hjólið né er hægt að læsa hjólinu með tryggum hætti. Reykjavíkurborg á þó góðan staðal um hjólastæði með málmbogum sem uppfylla þau tvö skilyrði góðra hjólastæða að styðja vel við hjólið og að hægt sé að læsa því með tryggum hætti við. Fyrir neðan má sjá falleg hjólastæði við Hótel Marina. En t.d. við Laugardalshöll er ekki að finna eitt einasta hjólastæði. Augljóslega myndi það þó minnka álagið á gatnakerfinu og bílastæðunum ef fólk í nágrenninu væri boðið velkomið á hjólum á viðburði þar.