Sumir draumar geta ræst ef heppni og vilji eru fyrir hendi. Einn af draumum mínum var að kynnast landshluta þeim sem ber nafnið Vesturland. Reyndar langar mig að kynnast landinu öllu, en Vesturland var efst á óskalistanum af eftirfarandi ástæðu: Ég er Sunnlendingur að ætt og uppruna og hef til margra ára stundað atvinnu á sunnlenska hálendinu. Nú er ég nýbúi á Vestfjörðum og hef komið mér þar vel fyrir. Líf mitt hefur að mestu farið fram á Suðurlandi og á Vestfjörðum, það eru mín heimasvæði en þar á milli liggur Vesturland.

Ósjaldan hef ég farið þar í gegn og reynt eftir megni að þræða bakdyraleiðir og fá­farnari slóðir. Þannig hef ég reynt að útvíkka sjón­deildar­hringinn og hef með því móti komið mér hjá því að aka  þjóðveg nr. 1, þar sem maður er  hættulegur drag­bítur í um­ferðinni með því einu að aka á löglegum hraða. Mikið væri nú gaman að kynnast þessu millibils-landsvæði betur, hugsaði ég. Þá gerðust þeir ánægjulegu atburðir að ég hætti að vinna á fjöllum á sumrin, fékk hjóla­bakteríu og veitti henni útrás með því að skrifa Hjólabækur. Nú var hægt að hella sér í að þvælast um landið og skoða það – öðruvísi en með augnagotum útum bílrúður.

Hjólaþörfinni svalaði ég á Vest­fjörðum til að byrja með, og skrifaði mína fyrstu Hjólabók um þann stór­gerða kjálka. Honum hyggst ég kynnast mun betur. Það gæfu­ríka samband er rétt að hefjast. En fyrst skyldi leggja restina af landinu undir dekk og Hjólabók númer tvö fjallaði um Vesturland. Ó, en sá munur að hafa tíma til að horfa í kringum sig. Að maður nú ekki tali um að heyra hljóð og finna margskonar lykt. Þetta var eiginlega ekki sami lands­hlutinn og sá sem ég þaut í gegnum á bílnum. Öll þau ósköp sem þar er hægt að finna ef tími er til og réttur ferðamáti notaður. Hér kemur bein tilvitnun uppúr Hjólabókinni um Vesturland, því til sönnunar: „Það er nánast hægt að finna allt það á Vesturlandi sem einkennir íslenska náttúru og er eftirsóknarvert að upplifa: jökla, hraun og gíga, eyðisanda, heiðar, dali, gljúfur, allt frá seytlandi lækjum til stórfljóta, strendur af öllum mögulegum gerðum, sæbratta hamra, aflíðandi ása, rismikil fjöll, rennisléttar víðáttur, frjósöm landbúnaðarhéruð, þorp, bæi og býli, stöðuvötn, skóga, mýrar, móa, urðir, stórt og smátt, eiginlega flestallt sem augað girnist á þessu landi. Landshlutinn er auk þess ríkur af sögu og menningu, sem hægt er að kynnast og njóta á ýmsa vegu.“

Ég er aðeins einn maður og hjóla aðeins á einu hjóli í einu og þetta var aðeins eitt sumar (og fáeinar ferðir á öðrum árstímum). Það gefur því að skilja að þetta var ekki tæmandi athugun á  landshlutanum. Reyndar gerðist það sama á Vesturlandi og  á Vestfjörðum: Með því að skoða svo marga staði komst ég að því hversu marga staði aðra ég á eftir að skoða  því er freistandi að  trúa á fram­halds­líf. Þetta líf dugar enganveginn þeim sem langar að grandskoða landið sitt litla. Ferðalagið er rétt að hefjast. Það er eins gott að vera ekki að hugsa of mikið út fyrir landsteinana.

Ljósmynd: Nína Ivanova. Höfundur í Klofningsskarði milli Fellsstrandar og Skarðsstrandar. Vestfjarðakjálkinn í fjarskanum.