Hjólhesturinn 7. árg. 2. tbl. júní 1998
Forsíðuna prýddi fyrsta forsíðustúlka Hjólhestsins hún Guðrún Ólafsdóttir á fullbúnu ferðahjóli. Önnur merk kona prýddi forsíðu Vikunnar á sama tíma eða Vigdís Finnbogadóttir og laumuðum við þeirri mynd í blaðið líka.
Í blaðinu var fjallað um hugmyndir Norðmanna um að takmarka umferð í miðborg Osló þegar loftmengun færi yfir hættustig, t.d. með tilliti til hvort bílnúmerið endi á oddatölu eða sléttri. Nú fimmtán árum seinna hefur þessi sama hugmynd ratað inn frumvarp til nýrra umferðarlaga.
Einnig var fjallað um breska rannsókn sem leiddi í ljós að ökufantar væru lélegir elskhugar og að meðal bretinn eyddi einu og hálfu ári af lífi sínu fastur í umferðinni.
Við birtum líka fleygar setningar úr tjónaskýrslum, hér eru nokkrar klassískar:

  • „Ég var búinn að keyra í 40 ár, þegar ég sofnaði við stýrið og lenti í slysinu“

  • „Sá fótgangandi stóð og vissi ekkert í hvora áttina hann átti að fara svo ég keyrði yfir hann“

  • „Það kom bara ósýnilegur bíll, rakst á mig og hvarf”

  • „Ég sá að gamli maðurinn mundi aldrei hafa það yfir götuna og keyrði því á hann”

  • „Maðurinn var allsstaðar á veginum, ég varð að taka heilmargar beygjur áður en ég rakst á hann”

Magnús Bergsson fjallaði ýtarlega um undirbúning fyrir ferðalög á reiðhjólum og stendur sú grein enn fyrir sínu.

Alda Jóns skipulagði og kynnti tískusýningu með hjólreiðafatnaði á Hjólafjör ´98

Arnþór Helgason og Elín Árnadóttir ferðuðust um Skotland á tveggja manna hjóli og ráku sig á að sérstakar hjólaleiðir hentuðu ekki allsstaðar til hjólreiða:

„Samtökin Sustrans, sem áður var getið, hafa lagt net göngu- og hjólreiðastíga um allar Bretlandseyjar og stöðugt bætast fleiri stígar við. Víða eru stígarnir á aflögðum brautarsporum og er því halli sáralítill og auðvelt að hjóla eftir þeim. Sums staðar er sá galli á gjöf Njarðar að hlið loka stígunum. Eru þau svo þröng að með engu móti verður komist um þau með tveggja manna hjól. Ekki er hægt að opna þau og er sagt að þetta sé gert til þess að hindra umferð bifhjóla. Hins vegar er ekkert hugsað um fólk í hjólastólum eða með barnavagna. Sums staðar urðum við því að lyfta fullhlöðnu hjólinu yfir hliðgrindurnar sem voru allt að hálfum öðrum metra á hæð. Olli þetta okkur nokkrum pirringi og tafði ferðina nokkuð.“

Einnig var fjallað um hjólaleiðir innanlands sem um Evrópu og hefur þeim fjölgað mjög síðan og liggja nú um alla Evrópu og jafnvel er komin af stað í dag undirbúningsvinna að því að Eurovelo leiðirnar nái til Íslands.

Gísli “rakari” Guðmundsson skrifaði líka um „ferð aldarinnar“. En eitthvað kom fyrir afturgjörð Sunnlendingsins síkáta, því gjörðin klofnaði og þurfti að teipa hana saman svo hægt væri að komast á áfangastað.

Heimir H. Karlsson og Alda Jónsdóttir voru með pistla í Útrás á Rás 1 á þessum tíma og birtum við nokkra þeirra í Hjólhestinum. Þar sagði Alda m. a.:

„Reyndar er mín draumsýn að fólki sem notar hjólið sem samgöngutæki verði gefinn betri valkostur en lítill partur af göngustígunum til að komast leiðar sinnar, eins og til dæmis hjólarein eða hjólavegi eins og það heitir í Aðalskipulagi borgarinnar.
Þar er gert ráð fyrir samgönguneti um alla borgina sem ætti að nýtast hjólreiðafólki til samgangna en víða er þó gert ráð fyrir að fólk sé að hossast á gangstéttum og stígum þar sem oft er erfitt að komast ferða sinna óhindrað vegna hlykkja, kanta og gangandi vegfarenda. Á gangstéttum erum við hjólreiðamenn gestir en gangandi eiga réttinn. Ef við hefðum sérstakar reinar eða hjólavegi fyrir okkur væri hægur vandinn að skjótast meðfram Miklubrautinni, vestan úr bæ, upp á höfða eða í Grafarvoginn. Ekki síst vantar tengingar við nágrannabæjarfélögin, þær eru í algjöru lamasessi.“

Já þetta reyndist fjarlæg draumsýn en loksins er eitthvað farið að gerast í þessum hjólastígamálum þó engin sé leiðin upp Ártúnsbrekkuna enn þann dag í dag. Það er þó fróðlegt að lesa samantekt Magnúsar Bergs sem bjartsýnn vitnaði í þessi orð Aðalskipulags Reykjavíkurborgar:

„Nú er svo komið, að áhrif umferðar á umhverfið er orðið óviðunandi vandamál í heiminum og til óþæginda fyrir marga borgarbúa. Þörf á að auka umferðarrýmd reynist ómettanleg. Að auki mun aukin umferðarrýmd á götum þar sem loft- og hljóðmengun er þegar of mikil laða að sér meiri umferð og gera ástandið enn verra. Stór umferðarmannvirki og hröð umferð er hindrun fyrir aðra en akandi vegfarendur og öryggi þeirra stefnt í hættu. Það er því orðin almenn skoðun skipulagsfólks í hinum vestræna heimi, að samgöngur framtíðarinnar verði ekki leystar með því að greiða fyrir umferð einkabíla á sama hátt og hingað til.
Samkvæmt nýjum áherslum eru aðstæður fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur bættar og vægi þeirra í umferðinni aukið til móts við vægi bifreiða. Unnið er að því að bæta göngu- og hjólreiðaleiðir til þess að hjólreiðar og  ganga geti orðið öruggur og raunhæfur ferðamáti á styttri leiðum.
Hlutverk stígakerfisins er að tryggja öruggar og greiðfærar leiðir fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur milli heimila, vinnustaða og þjónustusvæða og að tengja saman opin svæði til útivistar
Hjólreiðareinarnar verða sérstaklega afmarkaðar brautir á götum þar sem ekki er hægt að koma fyrir sér stígum og á þetta sérstaklega við um miðbæinn.”

En þó þetta hafi kannski verið ríkjandi skoðun meðal skipulagsfólks virðist hún ekki alveg hafa náð til stjórnmálafólks. Á sömu síðu kemur fram að besta og öruggasta leiðin úr Reykjavík yrði fljótlega aflögð, þ.e. Akraborgin. Því miður er það ekki fyrir hvern sem er að hjóla á þeim hraðbrautum sem nú liggja frá Reykjavík og er enn minnst á gömu góðu dagana meðan Akraborgin gekk.

Blaðið má skoða í heild sinni hér: Hjólhesturinn 7. árg. 2. tbl. júní 1998

0702-1998-forsida-500.jpg