Það var margt fróðlegt í sextánda Hjólhestinum sem kom út í október 1997.

Forsíðuna prýddi hress hópur í ferð með klúbbnum frá Hvítárvatni sem bar Hjólhestinn á höndum sér.

Jón Örn Bergsson teiknaði allar forsíður Hjólhestsins fram að þessu ásamt flestum öðrum teikningum í blöðunum en þetta var í síðasta skipti sem teiknimyndafígúran skrýddi forsíðu fréttablaðsins. Við vorum farin að nota ljósmyndir í blaðinu sem var óhugsandi með þeirri prenttækni sem við notuðum fyrstu árin. Hjólhesturinn lifir samt enn í merki blaðsins og aldrei að vita hvenær hann stekkur fram á sjónarsviðið aftur.

Magnús Bergsson fjallaði um vetrarhjólreiðar, hvað prýðir góða hjólreiðaverslun og rafala fyrir reiðhjól.

Jóhann Leóson skrifaði skemmtilegan pistil út frá spurningunni „Hvað er svona frábært við það að þeysast um allt á sokkabuxum og með einangrunarplast á hausnum?“.

Einnig birtum við merkan pistil sem Oddný Guðmundsdóttir hafði skrifað í Æskuna 1957. Hún hafði hjólað nær alla akvegi landsins og aðalvegina oft og henni fannst að þetta ættu fleiri að gera.

Það var einnig fjallað um reiðhjólanotkun íslenskra lögreglumanna sem þóttu nýjung þá og mætti sjást oftar.

Elvar Ástráðsson tók saman og þýddi frásögn af „heljarreið hreistimanna“ úr National Geographic.

Ein fréttin fjallaði um það að ungmennum var á þessum tímapunkti bannað að hjóla án reiðhjólahjálma og skrifaði Magnús Bergsson m.a. um það:

Hjálmaskylda
„Það fór líklega ekki fram hjá neinum að frá og með 1. október er búið að lögleiða hjálma á börn fram að 15 ára aldri. Í fjölmiðlum voru deildar meiningar um þetta mál og mörgum þótti það undarlegt að lögin skyldu ekki ganga yfir alla aldurshópa. Í stuttu máli sagt var einstaklega illa staðið að þessum málum enda var aldrei haft samband við hagsmunaaðila hjólreiðafólks. Svo virðist vera að alskyns óskyldir hópar séu að kássast í okkar málum og fá eflaust borgað fyrir það. Sú skoðun er líka til að það hafi verið fáránlegt að lögleiða hjálma almennt.
Lítið á heimasíðu Dansk Cyklist Forbund, textinn er á ensku og slóðin er http://webhotel.umi-c.dk/dck. Það er skoðun margra að hjálmaskylda fæli fólk frá því að stíga fyrsta skrefið og prófa smá hjólatúr, finnist þetta of flókið og mikið vesen og haldi sig bara við einkabílinn og letilífið.“
MB.

Reykjavíkurborg fékk viðurkenningu fimm félaga, þ.m.t. ÍFHK, fyrir það sem áunnist hafði í að gera borgina aðgengilega öllum með því t.d. að ráðast í að setja flága á 2000 staði í gangstígakerfinu.

Magnús Bergsson fjallaði einnig um það sem ógert var og nefndi t.d. að enn væru hjólastígar ekki komnir í vegalög og  að enn hefði  ekki sést raunverulegur hjólastígur. Segja má að enn bóli ekki á þeim því slíkt er ekki til samkvæmt umferðarlögum enn.  Þó eru komnir nokkrir slíkir núna og verða löglega einungis ætlaðir fyrir hjólreiðar verði frumvarp til umferðarlaga samþykkt. Það hefur verið lagt fram í nokkur síðastliðin ár og aðeins þróast í rétta átt gagnvart hjólandi eftir mikla vinnu Landssamtaka hjólreiðamanna við að senda inn athugasemdir. Ein helsta athugasemdin hefur alltaf verið við áðurnefnt algjört bann við hjólreiðum ungmenna án reiðhjólahjálma því við viljum að þau hafi frjálst val eftir aðstæðum, aldri og þroska hvort þau noti reiðhjólahjálm eður ei. Öll árin hefur ráðuneytið neitað að rökræða málið efnislega eða endurskoða forsendur bannsins í ljósi aukinnar þekkingar á málaflokkinum, heldur aðeins tekið við athugasemdum.

Lesa má blaðið hér: Hjólhesturinn 6. árg. 3. tbl. okt. 1997

Páll Guðjónsson