Starfsárið hófst á því að ég var kjörinn formaður, hér um bil öllum óþekktur og fjarstaddur á aðalfundi, en  með ágætis meðmæli frá Örlygi - svo það var nokkur áhætta tekin. Árið leið svo ‘venju samkvæmt’ og í raun hefði ég getað lesið skírslu formanns frá í fyrra án þess að nokkur hefði tekið eftir neinu.

Blaðaútgáfa.

Eins og venjulega var ráðist í útgáfu Hjólhestsins og eftir örlitla byrjunarörðugleika komst skriður á klárinn og hann mætti á svæðið með hnakktöskurnar yfirfullar af fjölbreyttu og skemmtilegu efni og á Páll Guðjónsson þakkir skyldar fyrir að halda um taumana.

Opin hús.

Opin hús voru haldin á svo til öllum fimmtudagskvöldum yfir árið og var dagskráin fjölbreytt, fræðandi og skemmtileg. Meðal annars héldum við sólstöðukvöld á aðventunni og vorfagnað, fengum heimsóknir frá áhrifafólki í skipulagi borgarinnar, kynningar voru haldnar, viðgerðarnámskeið fyrir byrjendur sem lengra komna, þrjú talsins og eitt teiningarnámskeið til og voru öll vel sótt, þá voru haldin bíókvöld, myndakvöld, kompukvöld að ógleymdum kaffihúsakvöldunum, þar sem orðið var laust yfir góðum kaffibolla frá Arnaldi. Honum og Garðari, ásamt öðrum í húsnefnd, þakka ég kærlega fyrir að halda utan um húsnæðið og dagskrá opnu húsanna, en þess má einnig geta að á árinu voru ný verkfæri keypt í húsið.

Ferðalög og þriðjudagsferðir.

Þann 1. maí rúlluðu hjól ferðanefndarinnar af stað með vikulegum þriðjudagskvöldferðum í umsjón Hrannar og síðan tók við glæsileg ferðadagskrá og var m.a. farið á Snæfellsnes, Vestfirði og í Landmannalaugar og komust færri að en vildu. Vil ég þakka ferðanefnd fyrir flotta dagskrá og vel unnin störf.

Aðstoð við Hjólað í vinnuna og Reykjavíkurmaraþon.

Af öðrum verkefnum klúbbsins ber að nefna aðstoð okkar við Hjólað í vinnuna en ég mætti þar á skipulagsfundi sem fulltrúi klúbbsins og við vorum þeim til aðstoðar í kaffitjöldunum. Einnig vorum við eins og áður Reykjavíkurmaraþoninu til aðstoðar sem undanfarar í öllum vegalengdum og að öðrum ólöstuðum voru Hrönn og Kristín flottustu fulltrúarnir okkar í Latabænum og vöktu óskipta athygli barnanna og ekki síður feðra þeirra! 
Þá er mikið starf unnið með heimasíðunni okkar og reglulegum tölvupóstum á póstlista sem upplýsa um gang mála ekki bara hjá okkur heldur hjólreiðum á Íslandi í heild sinni. Vil ég þakka Páli fyrir að sinna þeim störfum af elju.

Í heildina alveg ágætt ár hjá Klúbbnum.  Eins og upplesningin ber með sér hefur árið  verið fínt hjá Íslenska Fjallahjólaklúbbnum og honum til sóma og er það von mín að allir hafi fundið eitthvað að sínum smekk. Ef svo var ekki er um að gera að slást í hópinn og taka þátt í starfinu því starfsemi klúbbsins endurspeglar aldrei annað en þáttakendurna.

Ég hef afráðið að sækjast ekki eftir endurkjöri í stjórnarkosningunum á eftir. Um leið og ég þakka fyrir mig þá óska ég nýrri stjórn góðs gengis.
Brynjar KristinssonFundargerð aðalfundar 2012

Fundargerð aðalfundar ÍFHK 18/10 2012

1. Kosning fundarstjóra. 
Sigurður Grétarsson

2. Skýrsla formanns.
Brynjar fór yfir helstu viðburði síðasta starfsárs.

3. Lagðir fram endurskoðaðir og áritaðir reikningar
Ársreikningur samþykktur. Fjárhagsstaðan er í góðu jafnvægi, auknar tekjur í kjölfar fjölgunar félagsmanna.

4. Tillögur um breytingar á lögum klúbbsins.
Engar tillögur bárust.

5. Kosning formanns.
Fjölnir Björgvinsson tók aftur sæti formanns.

6. Kosning stjórnar og skoðunarmanna reikninga.
Stjórn er mikið til óbreytt nema Brynjar hættir og Geir Harðarson tekur við hlutverki ritara.

7. Nefndir mannaðar
Nefndaseta einnig mikið til óbreytt. Arnaldur verður formaður húsnefndar. Formaður ferðanefndar verður Hrönn. Páll Guðjónsson verður áfram ritstjóri útgáfumála og smalar saman fólki eftir áramót þegar vinna hefst við næsta Hjólhest og hugsanlega Hjólreiðabæklings sem Guðný hefur áhuga á og vill aðstoða með.

8. Lögð fram tillaga að fjárhagsáætlun.
Nefndum veitt fjárheimild upp á 200.000 kr hverri sem þær hafa frjálsar hendur með hvernig er varið og geta óskað eftir meira til stjórnar ef þannig stendur á. Þetta hefur gefið góða raun og auðveldað rekstur nefnda eins og ferðanefnda t.d.

9. Önnur mál.
Guðný mælti með útgáfu Hjólreiðabæklings 2013 nú þegar fyrri bæklingar eru að klárast þó prentuð hafi verið 24.000 eintök. Páll hefur hugmyndir um einblöðunga um hjólaaðstöðu fyrir vinnustaði og um tækni samgönguhjólreiða. Bæði fékk góðan hljómgrunn og Sif og fleiri vildu að skoðað yrði með haustútgáfu 2013. Páll minnti líka á að alltaf væri pláss fyrir nýtt efni beint á vefinn og að facebook síðurnar væru góður vettvangur til að benda á gott efni sem fólk rekst á.
Guðný bryddaði líka upp á umræðum um möguleikann á að safna á vefinn upplýsingum um hjólaleiðir með kortum og umfjöllun og voru nefndir vefir eins og www.gpsies.com
Stungið var upp á hækkun félagsgjalda í 3.000 kr fyrir alla og fleiri útfærslur en á endanum ákveðið að halda sig við óbreytt gjald næsta árið því þó ekkert mælti gegn hækkun væri heldur ekki kallað á það í fjárhagsáætlun næsta árs. Betra þótti að reyna að auka tekjur með fjölgun félagsmanna þó það hafi reyndar aldrei fleiri borgað félagsgjöldin og þetta árið sem þótti aftur endurspegla almenna ánægju með störf klúbbsins út á við.
Erindi frá LHM um að ÍFHK hækkaði félagsgjöld sín til að standa undir launakostnaði við starfsmann sem starfaði þá 20% fyrir ÍFHK höfðu ekki skilað sér fullmótaðar til stjórnar og var því ekki lagt fram en hugmyndin fékk dræmar undirtektir.
Einnig voru ræddar hugsanlegar úrbætur á aðstöðunni og ýmislegt annað.
PG
 

Stjórn ÍFHK 2012-2013

Stjórn ÍFHK 2012-2013

Aftari röð: Arnaldur, Einar, Fjölnir og Geir 

Fremri röð: Páll, Örlygur og Hrönn