Geturðu hjálpað til?

Með aukinni starfsemi klúbbsins koma ný verkefni fyrir virka félagsmenn. Til að gera það kleyft að auka starfsemina eins og lýst er í næstu opnu þurfum við að fá fleiri sjálfboðaliða til að hjálpa til.
Okkur vantar nýja penna í Hjólhestinn og til að útbúa gögn fyrir útlendinga og Íslendinga sem hyggja á ferðalög um Ísland. Fólk til að manna opið hús vikulega. Reynda menn til að sjá um ferðir og fararstjórn og minna reynda til að sjá um byrjendaferðir. Jafnvel einhvern til að sjá um pöntunarþjónustu á sérhæfðum vörum.
Ef þú vilt sjá klúbbinn blómstra og dafna, þá þurfa fleiri að leggja hönd á plóg og nú er tækifærið þitt. Hafið samband við Pál í síma 561 1112 á daginn eða í tölvupósti This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. varðandi ritstörf og Magnús Bergsson varðandi annað í síma klúbbsins 562 0099 eða talið við okkur á fundum.
Páll Guðjónsson

 

Framkvæmdir í Reykjavík

Nú er borgarstjórinn í Reykjavík að hefja fundaferð um hverfi borgarinnar. Í síðustu fundaferð sótti ég nokkra fundi og það sem brann á fólki helst virtist vera umferð, of mikil umferð, of mikill umferðarhávaði, of mikil slysatíðni og ekki nógu mikið pláss fyrir fólk. Þarna verða kynntar fyrirhugaðar framkvæmdir á vegum borgarinnar í einstökum hverfum og skipulag þeirra. Þér gefst þarna gullið tækifæri til að kynna þér þessi mál og tjá þig um þau við æðstu ráðamenn beint. Borgarstjórn er kosin af okkur og vinnur fyrir okkur og nú er undir þér komið að láta þau vita hvað þú vilt og hvað ekki. Oftast er of seint að kvarta eftir að hlutirnir hafa verið framkvæmdir. Mætum öll og reynum að gera Reykjavík mannvænlegri.
Páll Guðjónsson

 

Snjómokstur og slysagildrur

Þátt fyrir að gatnamálastjórinn í Reykjavík hafi síðasta vetur gefið okkur munnlegt vilyrði fyrir því að gangstéttir við Miklubraut yrðu ruddar fyrir kl. 8 á morgnana og síðan stígurinn og Suðurlandsbraut, áður en farið yrði í aðrar leiðir, virðist það gleymt í ár. Tæpri viku eftir snjókomuna 4. og 5. feb. var enn ekki búið að ryðja gangstéttir við Miklubraut, hins vegar var búið að ryðja hér og þar, að því er virtist af handahófi. Svona vinnubrögð duga ekki fólki sem gengur eða hjólar tii vinnu eða skóla. Það er mjög mikilvægt að fólk láti heyra í sér ef það vill sjá breytingar. Þess vegna hvet ég fólk til að hringja og kvarta ef illa er rutt eða ef lagfæra þarf stíga og gangstéttir. í Reykjavík er það gatnamálastjóri sem sér um þessi mál og hans fólk í hverfastöðvunum. Fyrst átt þú að hringja í hverfastöðina í viðkomandi hverfi og ef það dugar ekki, gatnamálastjóra sjálfann. Við hefðum gaman af því að heyra hvaða viðbrögð þið fáið, við vitum að oft er brugðist við hratt og vel.
Páll Guðjónsson

 

Bréf frá Noregi.

Klúbbnum barst bréf frá Guðnýu K. Einarsdóttur í Noregi þar sem hún sagði frá árlegri hjólreiðaferð frá Þrándheimi til Oslóar „Den store styrkepröven“. Þessi leið, sem er í heild 540 km löng, verður farin 27. - 28. júní. Síðast liðið ár var þessi uppákoma haldin í þrítugasta skiptið og tóku 4000 hjólreiðamenn þátt í henni. í ár er einnig boðið upp á styttri vegalengd eða „den lille“ 220 km. Guðnýu þætti gaman að fá einhverja áhugasama, og þá sérstaklega konur, með sér í styttri hlutann sem tekur tvo daga. Þarna gefst gott tækifæri til að taka þátt í þessum viðburði.
Það er hiklaust hægt að mæla með Noregi sem skemmtilegu hjólreiðalandi þar sem landslag er mjög fjölbreytt og sumstaðar ævintýri líkast. Ekki hika, nú er tækifærið og tilefnið til að fara til Noregs, taka þátt í skemmtilegri uppákomu og auk þess að fræðast um land og þjóð. Frekari upplýsingar er hægt að fá hjá: Oslo Cyklekrets, Idrettens hus, Ekebergveien 101, N-l 178 Oslo, Norge, Sími: 00 49 22671009, Fax: 00 49 22689405
Það má líka hafa samband bréflega eða símleiðis við: Guðný K. Einarsdóttir, Sognsveien 102 D-23, 0857 Oslo, NORGE, Sími: 00 49 22238976
Klúbburinn hefur líka frekari upplýsingar (á norsku) og umsóknareyðublöð. Lítið því endilega inn á næsta fund og kynnið ykkur málið.
Magnús Bergs

 

 

Hálendið í hers höndum

Það urðu miklar deilur síðasta sumar um skipulag á Hveravöllum, þar sem til stóð og stendur kannski enn, að bola Ferðafélagi Íslands í burtu með þá gistiaðstöðu sem þeir hafa komið upp þar og byggja feiknamiklar byggingar og taka yfir starfsemina. Mitt í orrahríðinni fannst veikur punktur á FÍ sem var drykkjarvatnið í Landmannalaugum. Það uppfyllti ekki ströngustu heilbrigðiskröfur og var gistiskálanum lokað um tíma, þar til FÍ mönnum tókst að koma nýjum vatnstanki á staðinn.

Því miður er þetta mál ekki útkljáð og staða FÍ um allt land mjög ótrygg eins og kom í ljós í vetur þegar Hjörleifur Guttormsson spurði umhverfísráðherra, Guðmund Bjarnason, hvaða reglur væru í gildi um gistirými í fjallaskálum.

Hann sagðist hafa heyrt að „uppi væru kröfur um það af hálfu stjórnvalda að fylgja ákveðnum stöðlum varðandi gistirými, þar á meðal rúmmetratölu á hvern þann sem gistir í skálum á vegum Ferðafélags Íslands. Ég geri ráð fyrir að það gildi þá um alla slíka gistiskála eða sæluhús í óbyggðum. Það sýndist mjög snúið að uppfylla þessar kröfur. Svo dæmi sé tekið hefðu þessar kröfur þær afleiðingar hvað varðar möguleika á fjölda þeirra sem gista mega í skála Ferðafélagsins við Drekagil við Öskju, en þar gerir Ferðafélagið nú ráð fyrir að rúmist 20 manns, að ef fylgt væri þeim stöðlum sem fram hafa verið bornir þá væri aðeins heimilt að þar gisti fjórir. Og sjá menn þá hver vandi er á höndum... Ég er ekki alveg viss um að það sé rétt að yfirfæra staðla á gistirými, t.d. í bændagistingu, yfir á gistingu í fjallaskálum. Þar hefur það nú verið hluti af rómantíkinni jafnvel að tveir sofi í sama fleti, svona upp á gamla mátann, og væri það þá aftekið ef krafan um 5 eða 6 m3 rými fyrir gest yrði uppfyllt.“

„Það liggur líka fyrir, ég hef fengið upplýsingar um það frá Ferðafélagi Íslands, að kröfurnar eru mjög óskýrar sem Ferðafélaginu berast, hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt til þess að þessi rekstur fái starfsleyfi á hinum einstöku stöðum. Það mun ekki vera nema í Þórsmörk þar sem skáli Ferðafélagsins hefur raunverulega starfsleyfi. Annars staðar er þetta ekki frágengið“.
Í svari ráðherrans voru taldar upp of langar og margar lagagreinar til að endurtaka hér nema þessa: „í 69. gr. heilbrigðisreglugerðar, nr. 149/1990, eru gerðar kröfur til þess að gistiskálar skuli hafa baðaðstöðu fyrir gesti svo og salerni fyrir karla sér og konur sér. Ekki skuli svefnrými gistiskála miða við minna rými 6 m3 á hvern gest en heilbrigðisnefnd er þó heimilt að leyfa 5 m3 á hvern gest séu notaðar kojur.“

Hjörleifur svaraði síðan: “Ég tók ekki eftir að það væri neitt samráð tilskilið þar við þá sem standa að viðkomandi rekstri... Mér sýnist að þetta sé allt saman í hers höndum miðað við þær reglur sem settar eru að því er varðar rými þannig að hæstv. ráðherra grípur sennilega til lokunar í stórum stíl ef hann ætlar að framfylgja settum reglum.“

Ráðherrann sagði „það er afar erfitt að búa til samstarfshóp eða nefnd með öllum þessum aðilum því þeir eru svo fjölmargir. Þetta er gríðarstór hópur.“

Kannski erum við svo mörg sem unnum hálendinu að það sé bara ekki hægt að tala við okkur eða óþarfi. Ég hvet alla til að fylgjast vel með aðgerðum stjórnvalda í þessum málum og öðrum. Það fara ekki alltaf saman orð og aðgerðir en ef almenningur fylgist vel með og veitir stjórnvöldum aðhald með því að láta heyra í sér ef gengið er of langt sjá þau oft að sér. Sérstaklega ef brugðist er við nógu snemma, meðan málin eru í umræðunni eða frumvörp óafgreidd. Þetta sýndi sig vel nýlega þegar nokkrum ungum þingmönnum datt í hug að auka hámarkshraðann á þjóðvegum af því að þeir fóru hvort eð er ekki eftir þeim lögum sem væru í gildi.

Það er til lítils að hafa lög og fara ekki eftir þeim. Ég vona að stjórnvöld geri ferðafélögum eins og FÍ kleift að starfrækja gistiskála sína á hálendinu með hefðbundnum hætti í samræmi við lög en fari ekki að loka þeim í stórum stíl vegna óviðeigandi reglna. Það er í raun óþolandi að stjórnvöld setji frjáls félagasamtök á grátt svæði þar sem ráðherra eða embættismaður getur kippt fjárhagsgrundvellinum undan þeim á augabragði ef þau standa einhversstaðar í vegi.

Kannski þurfum við að fá okkur tjöld næst með 5 m3 á mann og innbyggðri salernisaðstöðu?
(Sjá umræður á 29. fundi haustþings 1996 á vef Alþingis: www.althingi.is).
Páll Guðjónsson

Umhverfis- og náttúruverndarsamtök

Það hefur varla farið fram hjá nokkrum manni að í upphafi þessa árs hefur umræða um umhverfismál verið áberandi í fjölmiðlum. Í huga undirritaðs hafa Íslendingar verið einstakir drullusokkar í flestu því sem tengist málefnum umhverfis og náttúru, eins og margar vestrænar þjóðir. Við höfum hingað til haft aðgang að óspilltri .náttúru vegna fámennis og því ekki metið hana að verðleikum.

Ríkisvaldið hefur gersamlega brugðist, vinnubrögðin hafa oftar en ekki tekið mið af úreltum eða gölluðum lagakrókum um náttúruvernd. Í alþjóðastarfi reyna stjórnvöld að leita allra leiða til að komast hjá því að taka ábyrgð. Þar ríkir enn sú hugsun að næsta kynslóð eigi að leysa vandann eða þá einhverjar aðrar þjóðir. Almenningur hefur oft orðið vitni að því þegar svokallaður umhverfísráðherra hefur talað í kross og má því vart á milli sjá hvort hann sé iðnaðarráðherra eða eitthvað annað. Af fyrrnefndu má sjá að ekki veitir af að almenningur taki við sér og láti í sér heyra. Nú hafa verið stofnuð samtök almennings um náttúruvernd og umhverfismál. Samtökin eru enn nafnlaus en starfskraftur þeirra hefur mest farið í undirbúning fyrir náttúruverndarþing sem haldið var 31. jan. til 1. feb. Ætlunin er sú að almenningur geti tekið virkan þátt í umhverfis- og náttúruvernd. Stefnt er að því að tengjast samskonar samtökum út í heimi, t.d. „Friends of the Earth“. Fátt er þessum samtökum óviðkomandi, allt frá sorphirðu og daglegri sóun, til stóriðju og virkjana á hálendinu. Fundir samtakanna verða auglýstir í fjölmiðlum og vonandi að flestir láti sjá sig svo að starfið megi dafna sem best.
Magnús Bergsson