Fjölnir á NesjavöllumFerðalög eru og hafa verið mín helsta ástríða allt frá því ég man eftir mér. Tjaldútilegur og jeppaferðir með styttri eða lengri gönguferðum yfir sumartímann hefur átt stóran þátt í að móta mig á barns og unglings árunum. Ég ferðaðist með ömmu og afa, mömmu og pabba, og frændsystkinum úr stórfjölskyldunni og naut hverrar stundar. Það er því nokkuð skrítið finnst mér hvað ég uppgötvaði hjólið seint. Ég hef samt átt hjól síðan ég man eftir mér. Ég hjólaði allra minna ferða á Akranesi þar sem ég ólst upp, en einhvern vegin datt mér aldrei í hug að ferðast á því.

Það var ekki fyrr en ég uppgötvaði Fjallahjólaklúbbinn að kviknaði á perunni. Ég hafði reyndar séð útlendinga hjóla um landið, en ég vorkenndi þeim af því ég hélt þeir væru svo fátækir að þeir hefðu ekki efni á bílaleigubíl eins og allir hinir. Seinna komst ég að því að mörg hver þessara alvöru hjóla með búnaði kosta á við bíl. Ástæðan fyrir því að hjóla frekar en að aka bíl eða mótorhjóli er tengingin við náttúruna og umhverfið sem maður fær með því að fara hægar yfir. Takmark ferðalaga er jú upplifunin sem maður lifir á leiðinni og/eða staðnum sem maður fer á en ekki fjölda kílómetra sem maður fór yfir ekki satt?

Fyrsta hálendishjóltúrinn minn fór ég að Fjallabaki, leið sem ég hafði ekið oftar en ég hef tölu á. En við það að hjóla þessa leið "sá" ég fyrst leiðina, landslagið og fann hvernig landið lá. Það varð ekki aftur snúið og síðan eru margar mislangar og erfiðar hjólaferðir að baki, hér heima og erlendis. Ég hef náð þeim þroska að sjá hvað hjólið getur í raun gefið manni.

Fjallahjólaklúbburinn er ekki bara fyrir ferðafíkla eins og mig sem njóta þess að ferðast á hjóli, þó hann hafi í upphafi verið það og dragi nafn sitt þaðan. Það er útbreiddur misskilningur að maður verði að vera á fjallahjóli til að vera gjaldgengur meðlimur. Ég var til dæmis á tíugíra hjólinu hennar mömmu þegar ég mætti fyrst á opið hús hjá klúbbnum og var tekið opnum örmum. 
 

Úr Nesjavallaferð


Núna nær starfssemin yfir allar hliðar og greinar hjólreiða að undanskildum kapphjólreiðum. Klúbburinn er eftirsóknarvert félag sem veitir félagsmönnum sínum ýmis kjör og fríðindi. Þar má nefna afslætti hjá ýmsum verslunum og fyrirtækjum, aðgangur að gríðarlegu magni gagnlegra upplýsinga um hjólreiðar í víðasta skilningi í bókasafninu, aðgangur að viðgerðaraðstöðu með öllum þeim helstu sérverkfærum sem þarf til viðgerða.  Félagslífið er blómlegt, klúbburinn stendur fyrir fjölmörgum hjólaferðum í ýmsum útfærslum og lengdum. Í sumar eru þær frá 10km kvöldferð upp í um 650km reisu á 8 dögum, svo allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Viðgerðarnámskeið eru haldin á vorin bæði fyrir byrjendur og lengra komna. Ferðasögur, myndasýningar og góður félagsskapur er líka það sem einkennir starfssemina.

Flestir meðlimir klúbbsins eru í dag þeir sem nýta sér hjólið aðallega til samgangna innanbæjar til vinnu, út í búð og þessháttar. Það liggur í augum uppi hagkvæmnin í því að hjóla til vinnu. Hreyfingin er líkamanum nauðsyn og tími og peningar sparast í líkamsræktarstöðvum. Bíllinn fær hvíld og maður sparar eldsneyti og annan rekstrarkostnað á honum svo maður tali nú ekki um umhverfismengunina (mengun bílsins er nefnilega ekki bara það sem kemur út um púströrið). Að hjóla til vinnu - sérstaklega að vori er dásamlegt! Maður finnur ilminn af vorinu, heyrir í fuglunum og maður skynjar svo sterkt hvernig sumarið nálgast. Og svo helst maður í fínu formi.