Eyrún og Fjölnir kynna vetrarhjólreiðar við PerlunaÞað var í fyrra vor sem hann Fjölnir vinur minn fór að hvetja mig í því að hjóla í vinnuna. Ég hélt hann væri galinn. Jú jú,ég átti fínt ca 10 ára gamalt, ónotað hjól í geymslunni, en að hjóla og það alla leiðina í vinnuna, það var óhugsandi.

Hann gafst ekki upp, og sagði mér að koma með hjólið niður í klúbbhús og hann myndi hjálpa mér að yfirfara það, stilla gírana, smyrja keðjuna, skoða bremsurnar o.s.frv. Jú ég var alveg á því að það væri nú í lagi, tróð hjólinu í skottið á bílnum og fór niður í klúbbhúsið að Brekkustíg 2.

Þar tóku á móti mér brosandi andlit sem buðu mig velkomna. Hjólinu mínu var snarað uppá stand og því komið í toppform á meðan spjallað var um hjól og ferðir sem höfðu verið farnar með klúbbnum. Einnig var mér sagt frá þriðjudagsferðunum sem klúbburinn fer í frá Mjóddinni á sumrin, því í þeim er farið um höfuðborgarsvæðið í smá skömmtum og þar lærir maður að þekkja stígana og umhverfið. Og ég hvött í að mæta í þá næstu sem var Breiðholtshringurinn. Húff jú ég ákvað að slá til.  

úr þriðjudagsferðNæsta þriðjudag, þá lagði ég tímanlega af stað í Mjóddina og þar sem var smá hópur af fólki á öllum aldri á alls konar hjólum. Þar var m.a. hann Bjarni sem leiddi hópinn og ákvað ég að segja honum frá því að ég ætlaði að vera öftust, og ef ég "týndist" þá væri það vegna þess að ég hefði gefist upp og snúið við. Um kl. 20 var lagt af stað í rólegheitunum. Fólk var að spjalla saman, horfa í kringum sig og hjóla og áður en ég vissi af var ég komin niður í Mjódd aftur með hópnum. Þessu bjóst ég aldrei við. En þar með var ekki aftur snúið.

Ég fór að hjóla oftar með klúbbnum á þriðjudagskvöldum, fara með þeim í lengri ferðir og prófa að hjóla í vinnuna. Í upphafi þá teymdi ég upp flestar brekkur, en eftir því sem ég hjólaði oftar, þá fór ég að komast ofar í þær áður en ég fór að teyma og á endanum var ég farin að hjóla alla leiðina upp. Það var frábært. Þrekið jókst, líkaminn styrktist og kílóin fóru að fjúka. Það sem áður var óhugsandi var allt í einu orðið ekkert mál. Ég fór að kaupa fleiri aukahluti á hjólið, sem ég fékk afslátt af því að ég var orðin meðlimur í klúbbnum.

Einnig mætti ég þegar opið hús var annað hvert fimmtudagskvöld þar sem fólk spjallaði saman yfir kaffibolla, gerði við hjólin sín eða naut afþreyinga sem klúbburinn bauð uppá eins og myndasýningar, námskeið og fleira. Þannig fór að ég bauð mig fram í stjórn klúbbsins sem ritara.

Einnig er í boði að vera í nefndum sem eru innan félagsins og geta allir sem áhuga hafa, fundið eitthvað við sitt hæfi. Í þeim er alltaf pláss fyrir fleira gott og skemmtilegt fólk. Húsnefndin sér m.a. um að halda klúbbhúsinu fínu og skipuleggja og stýra uppákomum sem eiga sér stað í húsinu sjálfu. Ferðanefndin skipuleggur og leiðir þriðjudagsferðirnar og aðrar lengri ferðir sem eru farnar. Ritnefnd setur m.a. greinar á heimasíðu okkar og gefur út Hjólhestinn. Og fjáröflunarnefndin sér m.a. um það að finna fyrirtæki sem vilja veita meðlimum klúbbsins afslætti og selja auglýsingar í Hjólhestinn. Þetta er allt sjálfboðavinna, en margar hendur vinna létt verk og þegar félagsskapurinn er góður er allt skemmtilegt.

Í dag er ég búin að setja nagladekk undir hjólið og fer á því í vinnuna þegar veður er skaplegt og fer hjólatúra mér til skemmtunar. Maður fer hægar yfir og þarf að fara varlegar, en þetta er alveg hægt. Einnig gildir sama regla og áður, það er alveg í lagi að teyma hjólið þar sem manni líst ekki á aðstæður.

Mig langar til þess að hvetja þig til þess að koma í heimsókn til okkar í klúbbhúsið og kynnast okkur og/eða mæta í þriðjudagsferðir þegar þær byrja í vor því þær eru við allra hæfi. Stærsti þröskuldurinn er maður sjálfur við að koma sér af stað. En þú getur það og þú þarft ekki að vera á fjallahjóli því það sem skiptir mestu máli er að vera á hjóli sem hentar manni og líður vel á.

Hlakka til að sjá þig.