Haustið 1993 afhenti klúbburinn fulltrúum borgarinnar undirskriftalista um bætta aðstöðu til handa hjólreiðamönnum. Um svipað leiti sendi klúbburinn bréf til Dómsmálaráðuneytisins um að bæta við í umferðamerkjaflóruna merki sem varar bílstjóra við hjólandi umferð. Fljótlega upp úr áramótunum var stofnuð hjólanefnd innan borgarkerfisins sem átti að skila af sér tillögum um úrbætur fyrir kosningar. Fengu hagsmunasamtök fatlaðra og Fjallahjólaklúbburinn að koma með sínar tillögur.

Eftir kosningar, vorið 1994 var haldið áfram með þessa vinnu. Að auki var kominn maður í umferðanefnd borgarinnar sem hafði mikla reynslu af hjólreiðum, Óskar Dýrmundur Ólafsson. Sumarið 1994 stóð klúbburinn fyrir myndasýningu í Þróttheimum þar sem almenningur fékk að sjá samanburð á stígum hér á landi og erlendis. Sú sýning vakti töluverða athygli og var hún sýnd í styttri útgáfu í Borgarskipulagi um veturinn, þar sem allir fulltrúar þessa málaflokks voru viðstaddir.
Er talið að hún hafi líka vakið þar marga til umhugsunar þó svo að umræður eftir sýninguna hafi því miður að mestu leiti snúist um það hvernig setja mætti upp hraðahindranir fyrir hjólreiðamenn!

0405-hindranir-500.png


Hagsmunasamtök fatlaðra settu einnig fram ýtarlega skýrslu um að lagfæra þyrfti u.þ.b. 2000 fláa og kanta í borginni. Það má svo segja að sumarið 1995 hafi verið framkvæmt kraftaverk þar sem fúsk seinustu ára og áratuga í stígagerð hefur verið lagfært. Auk þessa, er nú hægt að fara frá Ægissíðu upp í Víðidal án þess að þurfa að fara svo mikið sem yfir eina umferðagötu. Er sá stígur nú svo mikið notaður, að suma daga er varla hægt að hjóla þar um. Í sumar barst klúbbnum svo loksins svar frá Dómsmálaráðuneytinu þess efnis að búið væri að lögleiða fyrrgreint umferðamerki.

Þó svo að allt sé að stefna til betri vegar þá hefur klúbburinn þurft að hafa afskipti af fyrirhuguðum framkvæmdum þar sem stígar hafa hreinlega verið fjarlægðir eins og gerðist nýverið við hönnun mislægra gatnamóta hjá Vegagerð Ríkisins. Það er því miður svo að hjólreiðamenn og gangandi eiga stöðugt að víkja fyrir víðáttumiklum bílamannvirkjum, öllum til óþurftar um ókomna framtíð.

Magnús Bergsson