Það má segja að á þessu ári höfum við hjólreiðamenn horft á byltingu í samgöngumálum okkar þar sem vaskar sveitir manna frá bænum hafa farið um margar af helstu leiðum okkar, brotið þar kanta og fjarlægt steypueyjar af gatnamótum sem gerðu ekkert annað en að hindra umferð fólks. Í staðinn komu fallegar hellulagnir og góðir flágar. Fyrir vikið hrökklast færri út í stórhættulegt bílahafið á götunum eftir að hafa gefist upp á hindrunarstökki yfir farartálma sem ómældum upphæðum hefur verið sóað í uppbyggingu á.

Borgaryfirvöld hafa oft verið skömmuð áður en trúlega kom sparkið í rassinn sem vakti þau þegar Reykjavíkurdeild Sjálfsbjargar kynnti úttekt á aðgengi fatlaðra í Reykjavík. Eftir að hafa farið um allar götur bæjarins og skoðað öll gatnamót var niðurstaðan sú að ein gata hefði fundist sem var sæmilega fær fötluðum. 2.000 hindranir lokuðu öllum öðrum götum borgarinnar. Það var ákveðið að taka til hendinni og árangurinn er strax auðséður.

0405-hofdabakkabru2-500.png

En hvað kostuðu nú herlegheitin? Í sumar var hent upp Höfðabakkabrúnni eins og ekkert væri en sú framkvæmd og tilheyrandi breytingar frá Skeiðarvogi og upp fyrir Höfðabakka kosta 1.300 milljónir króna en þessi litla bylting kostaði aðeins 18-19 milljónir króna að viðbættum átaksverkefnum fólks af atvinnuleysisskrá fyrir 8.5 milljónir. Þar af voru 10 milljónir eyrnamerktar endurbótum fyrir fatlaða, fimm hjólafólki og síðan var farið þrjár til fjórar milljónir fram úr áætlunum af einskærri framkvæmdagleði. Vonandi sjá borgarfulltrúarnir okkar í Reykjavík að þetta var ekkert sárt og halda áfram á sömu braut næstu ár því mikið verk er óunnið.

Undanfarnar vikur hefur borgarstjóri Reykjavíkur haldið röð funda í öllum hverfum borgarinnar og var vel mætt á þá fundi. Það sem helst hvíldi á fólki voru óþægindi vegna of mikillar umferðar. Borgarstjórinn talaði um að nauðsynlegt væri að draga úr þessari umferð. t.d. með því að gera þeim sem eru á bílum erfiðara fyrir, takmarka fjölda bílastæða og jafnvel hefja gjaldtöku á bílastæðum við mjög stóra vinnustaði eins og Háskóla Íslands og Landspítalann. Einnig kom fram að reynt væri að ná samkomulagi við vagnstjóra SVR um að leyfa fólki að taka hjól með á leiðinni frá miðborg upp í Mjódd enda ætti það ekki að vera meira vandamál en að hafa vagna og kerrur. 

0405-bru2-500.png


Önnur stórframkvæmd er bygging göngu og hjólabrúarinnar yfir Kringlumýrarbraut. Hún er kostuð af ríkinu og er áætlaður kostnaður 45 milljónir. Ekki veit ég hvernig það kom til að ríkið fjármagnaði hana því síðasta vetur aftók vegamálastjóri í Þjóðarsálinni að hann mætti gera neitt við sína vegapeninga fyrir fólk. Þá ætti samkvæmt lögum aðeins að nota fyrir umferð bíla og hestafólks.

Svavar Gestsson þingmaður hefur eins og í fyrra, flutt frumvarp til að koma göngu og hjólastígum inn í vegalög en þá hlaut það ekki hljómgrunn hjá ráðamönnum. Fróðir menn spá því að eftir þessar umbætur allar verði sprenging næsta vor í notkun reiðhjóla og þá komi fljótt í ljós nauðsyn breiðari stíga þar sem umferð gangandi og hjólandi er ekki blandað saman.