Nú er liðið enn eitt gæfuríkt sumar fyrir hjólafólk. Aldrei hefur sést annar eins fjöldi manns hjólandi um götur borgarinnar og þetta sumar og ekki var það til að draga úr áhuganum þegar borgin tók sig til og byrjaði að rífa niður helstu farartálmana við Miklubraut, Suðurlandsbraut og víðar. Endapunkturinn i ár verður svo þegar nýja göngu- og hjólabrúin yfir Kringlumýrarbraut verður opnuð, sem verður vonandi um svipað leyti og þetta blað kemur út. Þá opnast mjög skemmtileg leið sem gerir manni kleift að hjóla vestan af Ægissíðu og allt upp í Breiðholt eða Árbæ án þess að þurfa að kljást við bílaumferðina eða þau óhreinindi sem henni fylgir.

Það voru farnar nokkrar vel heppnaðar ferðir á vegum klúbbsins sem hafa aldrei verið jafn fjölmennar.  Margir nýliðar mættu og aðrir reyndari halda áfram að mæta í ferðirnar. Aldurinn á fólki í ferðunum hefur verið frá 12 til 68 þó flestir séu á bilinu 15 til 35. Engin slys urðu og allir réðu vel víð þetta, enda farið rólega, reynt að halda hópinn og vanir menn ráku lestina og redduðu öllum smábilunum sem komu upp á. Harðjaxlarnir í klúbbnum voru að sjálfsögðu á fleygiferð upp um fjöll og firnindi allt sumarið, ýmist einir með sjálfum sér eða í litlum hópum. Ferillinn er oft sá að fyrst prófar fólk að fara dagsferðir í Heiðmerkurhring eða Bláfjallahring. Síðan er hjólað til Þingvalla, gist og heim daginn eftir. Þá fyrst fer fólk að þora i klúbbferðir og eftir nokkrar slíkar fer fólk að spreyta sig á lengri ferðum um Vestfirði, hálendið eða hringveginn. Þeim allra hörðustu finnst skemmtilegast að hossast eftir grófum línuvegum og gömlum slóðum eða jafnvel yfir jökla og dugar þá ekkert nema almennilegur ferða og hjólabúnaður.

En klúbburinn er ekki bara fyrir ferðafólk því trúlega hefur stór hluti meðlimanna aldrei fundið leiðina út úr bænum, heldur er markmið félagsins, eins og stendur í lögum þess, "að auka reiðhjólanotkun og vinna að bættri aðstöðu hjólreiðafólks til samgangna". Auk skipulegra ferða, fræðslustarfs og fleira hefur klúbburinn gengist fyrir ýmisskonar keppnum sem aðrir kunna betur að fjalla um en ég, m.a. var hjólað í kringum Skorradalsvatn og haldnar þrautakeppnir.

Nú er ný ritnefnd tekin til starfa með blöndu af nýju og reyndu fólki. Hinn drátthagi Jón Örn sér enn sem fyrr að mestu um myndskreytingar og Kalli Scott heldur áfram að raupa um stórkallalegar hrakningaferðir í vondum veðrum þar sem flest viðist fara úrskeiðis þó ég ætli nú að reyna að fá hann til að minnast eitthvað á allar góðu ferðirnar líka. Nýliðarnir Guðbjörg og Gísli rakari koma með tvo sjónarhorn á sömu ferð í Landmannalaugar. Gísli Jónsson ætlar að sjá um uppsetninguna á blaðinu en hún hefur verið ansi skrautleg stundum. Sjálfur ætla ég að reyna koma með einhvern fróðleik um umhverfismál og mengun. Síðan reynum við að tína til einhvern fróðleik upp úr sjálfum okkur eða þýðum úr erlendum blöðum. Alltaf fáum við svo eitthvað sent inn frá lesendum og "lausráðnum   pistlahöfundum" sem við reynum að birta. Ykkur er velkomið að senda inn pistla, fyrirspurnir, smáauglýsingar eða skemmtilegar teikningar sem henta í blaðið. Merkið það bara: Hjólhesturinn. Pósthólf 5193. 125 Reykjavík. Einnig má hringja eða faxa í síma 562 0099 sem er númer klúbbsins eða tala við okkur á funduni klúbbsis sem eru ávallt fyrsta þriðjudag hvers mánaðar kl.20 í Þróttheimum (rétt hjá IKEA).