Einu sinni var ung stúlka er Rauðhjálma hét. Hún átti ýturfagran Bell hjálm með skyggni, rauðan á litin. Einu sinni bað mamma hennar hana að fara með mat til ömmu sinnar og hlúa að henni, en amma hennar bjó á tjaldsvæði í skóginum

Rauðhjálma vatt sér í hjólabuxurnar sínar, Gore-Tex jakkann, setti upp Bell hjálminn rauða og fyllti töskurnar af mat, en viti menn töskurnar voru rauðar Ortlieb. Hún setti töskurnar á rauða hjólið sitt og ætlaði að fara að leggja af stað þegar mamma hennar kallaði á hana og sagði að hún yrði að fara eftir hjólastígnum til að villast ekki í skóginum og hleypa úr dekkjunum ef stígurinn væri blautur. Rauðhjálma jánkaði því og hélt af stað.

raudhj.gif

Er hún var komin inn í skóginn ákvað hún að stoppa og hvíla sig aðeins. Hún lagði frá sér rauða hjólið, tók vatnsbrúsann úr statífinu og fékk sér sopa. Síðan tók hún WD-40 brúsa upp og sprautaði yfir allt gíradótið til að hafa allt í lagi og fékk sér síðan nestisbita. Rauðhjálma sá fullt af blómum og ákvað hún að tína nokkur fyrir Rauðömmu. En viti menn, þarna kom úlfur á títanium racer í hjólabuxum, með grifflur og SPD pedala, og spurði Rauðhjálmu hvað hún væri að gera. Hún sagðist vera að tína blóm handa Rauðömmu sem dveldi á tjaldstæðinu skóginum. Úlfurinn hugsar með sér "Aha, best að fara og athuga málið", og sagðist þurfa að halda áfram til að sinna mikilvægum erindagjörðum.

Þegar Rauðhjálma var búin að tína vænan blómavönd ákvað hún að halda áfram. Fyrst var að setja upp rauða hjálminn og pumpa örlítið í demparana. Rauðhjálma hélt nú af stað aftur eftir hjólastígnum í átt að fjögurra manna rauða tjaldinu hennar Rauðömmu. Er hún var komin þangað tók hún rauðu töskurnar og blómin og skildi rauða hjólið eftir við tré.

Hún bankaði á tjaldið og rám rödd svaraði. Það var úlfurinn og hann var búinn að éta Rauðömmu. Hann lá á Therma-Rest dýnunni er Rauðhjálma skreið inn í dimmt tjaldið. Rauðhjálma sá ílla í myrkrinu en fannst amma sín ekki líta vel út og spurði "Af hverju ertu með svona stór eyru?". "Af því þá þarf ég ekki hjálm vinan". "En svona stór augu?". "Það er til að sjá landslagið betur vinan". "En svona stóran munn?". "Það er til að ég geti étið þig", sagði úlfurinn og gleypti hana í heilu lagi. Rauðhjálma sá Rauðömmu og voru þær mjög hræddar í maganum á úlfinum.

Tjaldvörðurinn, sem var að rukka tjaldgjöldin á sínu Mongoose iboc-comp hjóli með LX búnaði, kom að tjaldinu og bankaði en fékk ekkert svar enda steinsvaf úlfurinn með allt hafurtaskið í maganum. Hann heyrði Rauðhjálmu og Rauðömmu kalla á hjálp í gegnum magann, greip pumpuna sína og réðist inn í tjaldið. 

Þegar hann sá úlfinn lyggjandi með Rauðhjálmu og Rauðömmu í maganum tók hann upp skátahnífinn sinn, skar upp magann á úlfinum og hleypti þeim út. Síðan saumaði hann magann saman aftur með bremsuvír og pumpaði lofti inn í munninn á úlfinum svo maginn fylltist af lofti. Hann hélt áfram að pumpa þar til úlfurinn fór að svífa og sveif út úr tjaldinu. Hann hélt áfram að pumpa alveg þar til kom gat á belginn á úlfinum og hann þeyttist út í himingeiminn eins og sprungin blaðra og sást aldrei meir.

Eftir þennan harmleik, sem endaði þó vel, ákváðu þær stöllur að halda heim á leið. Þær létu þetta ævintýri ekki á sig fá og hafa þær hjólað mikið síðan. Úti er ævintýri, kötturinn ræður ekki við stýri og hjólar út í mýri.

Gísli "rakari" Guðmundsson. 

Teikning: Jón Örn Bergsson

© Hjólhesturinn 1.tlb. 5.árg. Febrúar 1996.