Miðvikudaginn 18. febrúar 1998 fór ég í útréttingabæjarferð eftir hádegið. Fyrir hádegið var ég á lesstofu Árnagarðs að lesa „Okkur“ eftir Zamyatin. Þeirri bók er skipt í fjörutíu kafla sem söguhöfundurinn kallar skýrslur eða færslur. Það er vegna áhrifa frá henni sem ég skipti þessum pistli í færslur.

Þá byrja ég. Ég hefði gert það fyrr, en það er víst svo ægilega flott að byrja á að krota inngang. Það er m.a.s. kennt í ritgerðarsmíð í íslenzku, með svokölluðu skráargatsljósriti, á fyrsta ári í mennta- og fjölbrautarskólum

Jæja, en nú byrja ég:

Fyrsta færsla
Ferðin hófst um klukkan 13:57 og lá leiðin í Miðbæinn, hvaðan ég hjólaði eftir Skúlagötu og fór yfir Snorrabrautina gegnum „löggubílagatið“. Ég sá bíl sem beið eftir að komast inn á Skúlagötu af Rauðarárstíg. Það var að koma annar bíll niður Skúlagötu, svo hann beið eftir að hann færi hjá. Þá æddi hann af stað, þó hjólari, ég, væri við Rauðarárstíginn (ég sá umferðarljósin við Hlemm). Hann sá mig, það er engin spurning [rosalega er nú íþróttamannslegt að segja: það er engin spurning:

Jæja Svenni, farið þið í þennan leik til að sigra? -Já, það er engin spurning, liðið er búið að æfa vel og blabla. -En nú er hefðin þeirra megin, hefur það engin áhrif? -Já, það er engin spurning, hún er þeim í vil en við erum hungraðir í sigur…(úr viðtali íþróttafréttamanns við íþróttamann, engu skiptir hvers við hvern eða af hvaða tilefni, þau er öll svona)]. Semsagt: ég veit hann sá mig, vegna þess við horfðumst í augu allan tímann sem svínunin stóð yfir. Ég stoppaði og krotaði niður númerið: Þetta var eldgömul station-Tercel -minnir mig - á gulu númeri MS 067.

Eftir þennan afar geðþekka atburð var bæjarferðin mín hálf tíðindalaus, þangað til:

Önnur færsla
Ég kom að ljósunum við Reykjaveg og Suðurlandsbraut. Einsog flestir vita er „frjáls“ hægri beygja þar. Ég var kominn út á gangbrautina - bara doldið - þegar silfurgrár Isuzu kom á fleygiferð. Lífræni massinn sem ók sá ekki baun fram fyrir sig, hann horfði til vinstri, á umferðina úr suðri á Suðurlandsbraut. Hún var nokkur svo hann stoppaði (ég nenni ekki að segja hvar, vegna þess að allir ættu að geta sagt sér sjálfir að hann stoppaði á gangbrautinni miðri). Ég færði mig örlítið framar, bara rétt til að keyra ofurlétt á hægri hurðina svo glumdi í. Eftir smá stund skrúfaði stelpan í farþegasætinu niður rúðuna og mælti:

-„Hæ!“

Hvurn andskotann var hún að meina? Hæ?

-„Magga biður að heilsa þér“.

Magga, jújú, ég á vinkonu að nafni Margrét, hún vinnur í Húsdýra- eða Fjölskyldugarðinum. Þetta var sumsé ríkisjeppi úr Laugardalsgörðunum. Það væri nú hálfkaldhæðnislegt ef ríkisjeppi, sem maður sjálfur fjármagnar, keyrði mann niður á gangbraut, sem maður fjármagnar líka.

Ég vona bara að stelpan, sem bar kveðju Möggu til mín, lifi vel og sæl. Ég get því miður ekkert sagt um massann sem keyrði; ég veit ekkert um hann og hann veit ekkert um mig. Hann horfði allan tímann til vinstri, í þeirri von að geta skotist inn í umferðartóm sem kynni að myndast á Suðurlandsbraut.

Þriðja færsla
Mörkin 1, öðru nafni Gullsól. Síðasti viðkomustaður þessarar ferðar. Ég lagði hjólinu upp við vegg, uppi á gangstétt, beint fyrir framan bíl í lausagangi. Í honum var kall, sennilega að bíða eftir kellingunni sinni. Þó mér hafi fundist það hið versta mál (að bíllinn væri í gangi, sko. Ekki að hann beið eftir konunni, það var hið bezta mál) gerði ég ekkert, fyrr en;

ég kom út aftur, eftir u.þ.b. kortér, og gaurinn beið enn. Og bíllinn enn í gangi. Þá settist ég niður, krotaði númerið (TU 985) og orkti vísu, undir einhverju fornyrðislagslíki, um dumbunginn í veðrinu þann daginn, sólina og drulluna sem hún reyndi að skína niður til - en það var svo lélegt að ég henti því í sígarettustampinn við inngang Gullsólar.

Um kvöldið fór ég í mat til mömmu og pabba út á Seltjarnarnes. Þar horfði ég á þátt fyrrum dýrafræðikennara míns í sjónvarpinu, Nýjustu tækni og vísindi:

Í síðustu mynd þess kvölds sáum við (ég hef reyndar aldrei vitað hver þessi „við“ erum, bara sætt mig við að þau séu hann og áhorfandinn) framtíðaráætlanir Japana í sambandi við fólksfjölgun í stórborgum. Þeir ætla að grafa miklar hvelfingar og hreinlega jarða fólkið, og líka að byggja nokkurra kílómetra háar blokkir, smala fólki þar inn og senda þær svo eitthvert á haf út. Ef það dugar ekki þá ætla Japanirnir bara að moka liðinu í nýlendur sem þeir munu stofna á Mars.

Hver veit nema það verði vel raunhæfur kostur (eftirsóknarverður kannski?) þegar við verðum búin að draga koldíoxíðstjöld fyrir sólu, rífa upp þessar fáu hríslur sem eftir eru og föndra okkur tvö ný úthöf úr skautunum.

Fjórða færsla
Síðasti kafli, þessi sem byrjaði á „ Um kvöldið fór ég í mat …“ og endaði á „…úthöf úr skautunum.“ var ekki sérstök færsla. Hann á í raun meira skylt við spássíukrotin í Konungsbók, það er bara svo erfitt að skrifa hugleiðingar á spássíur í þessum miðli. Þess vegna tróð ég þessu hér inn.

Fimmta færsla
Um klukkan átta fórum við (í þessu tilfelli veit ég hver þessi „við“ eru; þau eru ég, mamma og fjögurra ára systurdóttir mín) nið’rí vinnu til mömmu. Ég þurfti að ljósrita nokkur kort, þó það komi þessari frásögu ekkert við.

Mamma mín vinnur á Landsspítalanum - það kemur þessari frásögu hins vegar við, því þar gerðust þeir atburðir sem nú skal sagt frá:

Að ljósrituninni lokinni fórum við. Á leiðinni út mættum við strák (ætli hann hafi ekki verið svona 25ára). Hann hefur sennilega verið nýpabbi, af því að mamma vinnur á kvennadeildinni og klukkan var sirkabát pabbatími. Eigi var drengur þessi ýkja ógáfulegur í útliti, en ekki verður hið sama sagt um hætti hans. Hann lagði bíl sínum, rauðri Toyotu Corolla XL, númer R37910 (gamalt númer), uppi á gangstétt, í gangi - kannski kallinn við Gullsól sé afi hans (hvað ungur nemur… og allt það). Ætli mig hafi bara verið að dreyma í öll þau skipti sem ég hef talið mig sjá „Bíll í lausagangi mengar“-merki?

En svo ég hlýti nú ráðum Sverris Stormskers og horfi á björtu hliðarnar, þá lagði hann ekki fyrir sjúkrabílamóttökuna.

Sjötta færsla
Við þessa sjón, sem ég sagði frá í fimmtu færslu, rifjaðist upp frétt í sjónvarpinu, frá 21.október 1997, um bílastæðisvandann við Landsspítalann.

Bílastæðin fyllast alltaf í öllum heimsóknartímum, sem er að sjölfsögðu ögn leiðinlegt fyrir veika fólkið innandyra - það gefur auga leið að það er ekki hægt að ætlast til af ættingjum og vinum þeirra að þeir gangi utandyra til að komast til þeirra.

fréttamaðurinn spurði lífrænan massa, konu í þessu tilviki, hvað væri til ráða?

-Bara að leggja á óbrotinni línu, var svarið.

Það er hughreystandi að vita, þegar maður leggst til svefns, að þarna úti er fólk með lausnir á öllum vandamálum og lætur þau ekki stöðva sig við að gera hvað það ætlar sér.

Sjöunda færsla
Í þessari sjöundu, og jafnframt síðustu, færslu er ég á leið heim til mín. Leiðin liggur gegnum Kolbeinsmýrina og eftir Frostaskjóli. Fyrir um ári var lögð stétt úr Mýrinni. Áður var ögn spennandi að fara þessa leið; hvort maður kæmist þarna á milli eða færi á hausinn í drullunni. Þessi stétt sló svo í gegn að bílar notfærðu sér þá leið sem hún opnaði. En því var kippt í liðinn tiltölulega fljótt, með járngrindum, ekta íslenzkum, sem verða torsýnilegar þegar skyggja tekur.

Jæja, sumsé;

ég kom þarna eftir stéttinni, upp í Frostaskjólið.

Á planinu við hús númer 36 - minnir mig, húsunum við Frostaskjólið er svo sveppalega raðað upp, en húsið bar, og ber enn, hæstu jöfnu töluna í Frostaskjóli (þess má til gamans geta að húsið beint á móti, sem ber hæstu oddatöluna, er númer hundrað og eitthvað) - var VW-Golf að hleypa tveim stelpum út. Þær voru með íþróttatöskur og því, vegna feykilegs innsæis míns, ætla ég að þær hafi verið að koma af íþróttaæfingu. Vegna þess er líklegt að þær hafi verið orðnar þreyttar (klukkan að ganga ellefu, þær búnar að sinna daglegum verkum sínum auk þess að hafa verið á æfingu), og sú þriðja, sem ók bílnum, án efa líka. Hún hefur vafalaust séð rúmið sitt í hillingum, a.m.k. sá hún ekki umhverfi sitt, dúndrar í bakkgír og þrumar út á götu. Ég veit ekki fyrr en ég er kominn með afturbretti og -stuðara á framberann hjá mér. Stelpan horfir á mig, úr tómi höfuðkúpuhvolfs síns, sér mig færa mig að bílstjórahlera hennar og lyfta hönd til að banka á rúðuna. Ég hitti samt aldrei á rúðuna því þetta fagra fljóð var horfið („sem kólfi skotið“ eða „einsog byssubrandur“ eru alltof silalegar lýsingar svo ég segi ekkert nánar frá hvernig það hvarf).

Ég náði númerinu en ekki að skrifa það niður svo ég man ekki hvort það var PH 696 eða PH 969. Þess vegna ætla ég ekkert að minnast á númerið í þessu tilviki, þar sem annað þeirra hlýtur að vera rangt. Fólk sem vill láta taka sig alvarlega hefur einfaldlega ekki efni á að vera með órökstuddar getgátur í skrifum sínum

Áttunda færsla
Í sjöundu færslu sagði ég að sú yrði síðasta færslan. Ég ætla samt að bæta einni við, bara af því ég get það og enginn getur bannað mér það. Hún er númer níu.

Níunda færsla
Fyrir nokkrum árum beitti Árni Johnsen, háttvirtur 1.þingmaður Stórhöfðakjördæmis, sér fyrir einkanúmerum á bíla. Það var þarft verk sem seint verður fullþakkað; það er nefnilega miklu auðveldara að muna númer sem eru heil orð, ekki bara handahófskenndar tölur og bókstafir, bíla sem svína eða á annan hátt haga sér einsog leikskólakrakkar í umferðinni.

Læt ég þessu þá lokið.
Cyke’ heil
Heimir Vaff