gönguvélin Stiklað á stóru í hjólasögunni eftir Sólver H. Sólversson Guðbjargarson
Hver hefði getað ímyndað sér skriðuna sem þýski baróninn Karl von Drais hrundi af stað!

Drais hafði fundið upp gönguvélina 1817 sem fékk viðurnefnið hóbbý hesturinn og leit út eins og tvíhjól nú til dags en þrátt fyrir að vanta fótstig var hægt að ná töluverðum hraða á góðu undirlagi.

Til að sýna fram á hraða uppfinningar sinnar bar hann hana saman við póstsamgöngur og sýndi að með gönguvélinni var hægt að komast töluvert hraðar en pósturinn, á sömu leiðum, þrátt fyrir misjafnar aðstæður. Ímynd fólks í dag af þessum hjólum er að þau þykja nokkuð óþægileg ásetu, en athuga ber að grindin hafði fjaðrandi eiginleika og hnakkurinn var sérsmíðaður söðull.

Sökum þess hve dýr gönguvélin var, hafði vel efnað fólk aðeins efni á að fjárfesta í slíku tæki svo sem aðallinn og heldra fólk eins og læknar, prestar og efnaðir verzlunarmenn.

Samkvæmt þjóðsögunni komst gönguvélin í tísku hjá ungum og fínum spjátrungum svokölluðum ‚dandý-um‘.

Eftir að hafa eytt dágóðri stund fyrir framan spegilinn við að dubba sig upp í rauðu aðsniðnu jökkunum í hnébrókum með pípuhatt, fengu þeir það orðspor að geysast um sveitirnar á hobbý-hestunum sínum í lautarferðir á sunnudögum í stað þess að  sýna gott fordæmi sökum stöðu sinnar og stéttar og mæta í messu!

Í upphafi var hjólið því ástundun karlmanna og það eina sem nýttist kvenmönnum var að mögulegt var að sitja pent á söðlinum svo herramennirnir gætu reitt elskurnar á áfangastað.

Nokkrum árum síðar í kringum 1820, var gönguvélin orðin mun vinsælli, framleiðslukostnaðurinn töluvert lægri, en þau kostuðu nokkra mánaða verkamannlaun. Gönguvélin var því ekki eins mikið stöðutákn og í upphafi.

Næsta stóra stökk var þó að líta dagsins ljós. Með tilkomu vélbúnaðar,  (fót- og handstiga svipuð fyrstu fótknúnu saumavélunum), tók reiðhjólið að líkjast því sem við þekkjum í dag.

Hjólið hætti að vera hlaupahjól, enda komst fólk mun hraðar með því að hjóla á hjóli en að hlaupa á hjóli.

Þess ber að geta að um svipað leyti kynntu Drais og enski kollegi hans Johnson þríhjólin, mun vandaðri hjól, sem öðluðust fáeinum áratugum síðar mikinn virðingarsess, en hægt var að fá á þau hliðarsöðul fyrir kjólklædda eigendur.

 

gönguvélakeppniGönguvélakeppni


Hraðstiginn
Næsti stóri áfangi í hjólasögunni var 1863 þegar frakkinn Pierre Michaux setti sveifarsett og pedala á framhjólið og jók meðalhraðann töluvert frá því sem áður þekktist.

Einkennandi fyrir þessi hjól var að framhjólið var nokkru stærra en afturhjólið.

Hraðstiginn Beinskakur

Þessi hjól voru kölluð vélocipède (hrað-stigi). En í þéttbýli fékk hraðstiginn háðsnafngiftina bein-skakurinn sem endurspeglaðist í því að dekkin voru hörð og innan þéttbýlis hefur þessi nýja tegund hjóla ekki verið þægileg ásetu þegar geyst var hjólað.

Þrátt fyrir harða reið gaf reiðhjólið nú mun fleira fólki en áður raunhæfan kost á skjótum samgöngum yfir lengri vegalendir og hægt var að búa töluverðan spöl frá vinnustað enda var það reiðhjólið sem skapaði fyrst forsendur fyrir úthverfamyndun borga.

Ljóst er að fyrstu áratugina voru hjólreiðar einungis á færi hinna betur efnuðu sem undirstrikaðist sérstaklega í fatnaðinum sem miðaði við kynbundnar kröfur Viktoríutímans, fremur en að vera hannaður sem raunhæfur til hjólreiða.

Konur voru því sérstaklega heftar sem hjólreiðamenn því fatnaðurinn miðaði lítt við mikla áreynslu, vítt hreyfispan útlima né losun svita.1 Þar að auki komu þröngar lífsstykkin sérstaklega í veg fyrir djúpa öndun. Breytingar lágu þó í loftinu.

 

Tandem hraðstigi

 

Kvenmenn stíga í pontu
Strax uppúr 1850 hófst merkilegur áfangi.

Amelia BloomerAthafnasamar konur litu til hjólsins sem sitt helsta samgöngutæki. Frítíminn nýttist betur og gaf konum einnig kost á því að komast skjótt á milli áfangastaða og gjörnýta persónuleg tengslanet sín við skipulag kröfunnar til kosningaréttar enn skilvirkari en ella. Með hjólreiðum varð enn betur ljóst hve karllægt samfélagið var sem skar konum þröngan stakk. Hjólreiðar áttu veigamikinn þátt í því að konur settu spurningamerki við hefðbundinn fatnað sem leiddi smá saman til þess að viktoríutískunni var ‚sagt upp‘.

Banfashion2b.gifdarískur hjólreiðamaður og kvenréttindasinni að nafni Amelia Bloomer vildi fyrst og fremst klæðast þægilegum fatnaði!
Amelía Blommer fór að klæðast tyrkneskum buxum og síðu pilsi (stuttum túnik) sem hún taldi vera þann klæðnað sem var hvað hentugastur til hjólreiða.

Fleiri konur fóru að klæðast slíkum fatnaði og fengu þær viðurnefnið bloomer.

Þetta þótti töluverð uppreisn gegn viðhorfum samtímans og fóru þær ekki varhluta af neikvæðum viðbrögðum og stimplaðar lauslátar fyrir að hjóla um í buxum og þar að auki klofvega!2

Fyrir vikið var ekki óalgegnt að komið var fram við þær eins og mellur. Í verri tilvikum voru þær kallaðar dræsur, druslur, og hórur og í nokkrum ríkjum beggja vegna Atlantsála hreinlega sektaðar fyrir að brjóta almennt velsæmi sökum klæðaburðar og þaðan af verra.

Þær héldu þó sínu striki og stofnuðu félagasamtök3 upp úr hreyfingunni sem hafði það markmið að kvenfatnaður ætti að vera „rökrænn“ og kölluðu bloomerfötin  kvenfrelsisbúninginn.

Því miður varð klæðabylting fyrstu Bloomer kvenanna skammlíf.Venjulegir hjólreiðamenn ryðja veginn

Þróun hjóla var hröð og næsta stökk rétt handan við hornið. Hjólið var nú þegar orðið að því samgöngutæki sem við hjólreiðamenn þekkjum í  dag og hafði ímynd ferðafrelsis. Markmiðið var hið sama og áður; komast enn hraðar á milli áfangastaða.

Þó var einn hængur á. Fyrir daga gírskiptinga og lega, var einungis hægt að ná auknum hraða með stærra dekki.

James Starley fann upp háhjólið 1871. Í kjölfarið féllu fyrri hraðamet eins og dögg fyrir sólu.

Háhjólin náðu slíkum vinsældum að staðalímynd fólks af hjóli voru háhjól og gengust dags daglega undir heitinu ordinary-hjól sem útleggst á ágætri íslensku  venjuleg hjól! 

Með háhjólinu urðu einnig önnur tímamót. Málmur tók við af tré sem aðalefniviður hjóla. Nýtt hjólaæði var hafið!

 

highwheelnormal_bike_girl.jpg

Venjulega hjólið, háhjólið

 


Færa má rök fyrir því að háhjólið hafi rutt brautina fyrir einkasamgöngur fólks: Hjólaklúbbar spruttu upp eins og gorkúlur sem aldrei fyrr. Félögin kröfðust frekari réttinda hjólreiðafólks sem fest voru í lög. Aukinn hraði þýddi einnig meiri líkamlega áreynslu, sem kallaði enn frekar á sérhæfðari fatnað.

En aukinn hraði krafðist einnig betra undirlags laust við ójöfnur og holur.

Það var því frekja hjólreiðamanna, aðallega á venjulegum-hjólum, sem þrýstu á lagningu góðra og vandaðra nútímavega og ruddi þar með brautina fyrir seinni tíma bílaumferð.

Annar angi af háhjólinu leiddi einnig af sér þrí-háhjólið, sem var hentugt fyrir fínt kjólklætt fólk og gaf þeim kost á að snúa beint fram og þurftu þar af leiðandi ekki að sitja á hliðarsöðli og knýja sig áfram með saumavélafótstigi.

Þau kostuðu mun meira og voru frek til göturýmisins en til árekstra milli þeirra á tvíhjóli og þríhjólum, stundum þurfti jafnvel lögreglan að skakka leikinn.4

Því var það heldra fólk, auðkýfingar, prestar og fínar frúr, sem þurftu auk kjóls að klæðast mannskemmandi þröngum lífstykkjum, og koma pilsfatnaði með pilsaglennu skikkanlega fyrir svo þau flæktust síður í teinum og fótstigi, gafst þar með aftur tækifæri að undirstrika stöðu sína og megn á þríhjólunum og þurftu ekki að óttast þá auðmýkt að missa jafnvægið og enda út í runna eða með andlitið í for fyrir framan óbreyttan almúgann. Þess ber að geta að sjálf Viktoría Bretadrottning hélt upp á Coventry Rotary fjórhjólið sitt, en hún keypti tvö af sjálfum Starley.

En flestir höfðu ekki ráð á svo dýrum hjólum og þar sem hefðbundin tvíhjól voru, og eru, mun ódýrari en þríhjólin náðu tvíhjólin meiri hylli almennings en plássfrek þrí- og fjórhjólin.

LadyTrik.gifCoventry_Rotary_quadracycle_1885.JPG

Konu-háhjólið  / Coventry Rotary fjórhjól frá Starley, eins og Viktoría drottning keypti. Demanturinn, öryggið & tútturnar

En stærsta hjólabyltingin var ekki langt undan. Gallinn við háhjólin var að fallið var frekar hátt í bókstaflegum skilningi.

Á tímum háhjólanna hafði keðjudrifið þróast. Með því að hafa drifið stærra við fótstigið en mun minna á hjólinu sjálfu snerist hjólið nokkra hringi þótt stigið væri einn hringur á fótstiginu. Tæknin hafði því þróast í þá átt að hægt var að hafa hjólin mun minni í þvermál svo fallið væri í raun ekkert ef hjólreiðamaður missti jafnvægið. Í kjölfarið var reynt að létta hjólin enn frekar, annars vegar með því að einfalda hönnun stella, og hinsvegar með nýjum möguleikum sem málmiðnaðarinn var farinn að bjóða upp á. Hönnun stella þróaðist í útlit sem minnti marga á skorinn demant og hefur upp frá því haldið viðurnefninu demantsstellið.5 Notkun málma hafði tekið stórstígum framförum og álvinnsla hafði náð því stigi að hægt var að vinna úr því viðunandi sterk rör sem voru mun léttari en stálrör. Reiðhjólið fékk því það nútímalega útlit og léttleika sem við þekkjum í dag.

 

aluminium_poster.JPG

Plakat sem auglýsir kosti álhjóla. Hjólið orðið svo létt að jafnvel kona getur lyft því með einni

 

 

Hjólin urðu í kjölfarið minni og auðveldari í meðhöndlun. Það reiðhjól sem varð vinsælast hafði tvö jafnstór hjól og markaðssett sem öryggishjól. Nýir hjólreiðamenn þyrftu ekki lengur að vera eins hugaðir og forverar þeirra sem höfðu bara úr beinskökum og háhjólum að velja.

 

Gúmmíslangan var þó sú uppfinning sem var hvatinn að hjólaæðinu 1890-1900. Árið 1888 markaðsetti Írinn John Boyd Dunlop gúmmíslönguna eftir að hafa hugsað mikið út í það hvernig hægt væri að gera hjólreiðar þægilegri.

John hafði veitt því eftirtekt að beinskakur stráksins hans veitti ekki þægilega reið og lausnina taldi hann vera loftfylltar gúmmítúttur í stað gegnheilla dekkja sem leiddu titring upp í líkama hjólreiðamannsins.

Það var því gúmmíslangan sem gerði hjólreiðar loksins þægilegar, en á slíkum bomsum varð reiðin loks nægilega mjúk til að auka enn frekar á vinsældir hjólsins. Þar sem álag á grind, gjörð og gaffal var ekki eins afgerandi leið ekki á löngu þar til þau gerðu framleiðsluna enn ódýrari.

 

dunloplg.jpg

Dunlop á öryggishjóli á túttunum sínum

 


Hlutfallsleg aukning hjólreiðafólks hafði aldrei verið meiri frá því að fyrsti hjólreiðamaðurinn settist á fyrsta hjólið.

Konur voru þar engin undantekning, flykktust út að hjóla og sem samgöngutæki auðvelduðu hjólreiðar kvenréttindabaráttuna enn frekar, enda ekki að ástæðulausu að einn helsti hjólreiðaframleiðandinn kallaði sig Liberator Cycles.

En þrátt fyrir þægilega reið og frumkvöðlastarf Bloomerstelpna var fatnaður kvenna enn ósamræmanlegur hjólreiðum.

Poster_liberator2.jpg

Auglýsing frá 1899 fyrir Frelsis-hjól. Frelsisgyðja heldur á öryggishjóli með demantsstelli

Ný kynslóð kvenna var aftur farin að reka sig  á ósamræmanlegar kröfur samtímans og því skaut bloomer tískan rótum á ný.

Uppreisn kvenna varð því áberandi en ella og sömu mótbárur endurtóku sig leynt og ljóst og fjörutíu árum áður. Afar hreinskilið álit sumra var að óæskilegt væri að konur hjóluðu því þá kynntust þær frelsi um of!

Hjólreiðaframleiðendur tóku tillit til kvenna og endurhönnuðu hjólin til að koma til móts við hefðbundinn klæðaburð Viktoríutímans. Topprörið var því látið halla frá stýri og langt niður á sætisstöng svo pils myndu ekki þeytast upp eins og gerist þegar konur hjóla á ‚karlhjólum‘.6

Að auki var keðjukassa bætt við svo kjólföt og skálmar myndu síður flækjast. Allt fram yfir 21. öldina hefur þessi hönnun ‚kvenhjóla‘ haldist sem gerir enn ráð fyrir því að konur hjóli um í ökklasíðum pilsum.

Undir áhrifum frá hefðbundinni kvenímynd var fyrsti almennt viðtekni kvenhjólreiðafatnaðurinn hannaður til geta hjólað um í kjólfatnaði klofvega.

Mælt var með að hann yrði allur úr ull, því annar textíll svo sem bómull hélt svitanum frekar að líkamanum.

Fatnaðurinn reyndist þungur og huldi allan líkaman svo hann varð einkar óhentugur í heitu loftslagi.
Sjálft pilsið var ‚klofið‘ þ.e.a.s. tvær skálmar sem litu út saman eins og pils. Til að minnka möguleika á að pils-skálmar flæktust í keðju og sveif var hægt að binda skálmarnar við ökklana á búningnum. Miðað við fyrirhöfnina að klæðast svona pils-hjólreiðafatnaði þá var það engin furða að þægilegast fannst konum að sleppa öllu umstangi sem fylgdi pilsum og hjóla bara um í buxum.

Svo fór að kona nokkur að nafni Frú George D. Johnston, flaug illa á hausinn eftir að pils hennar flæktist í fótstigi og snögg vindhviða feykti henni um koll.

fashion_cycling.jpg

Æskilegur fatnaður samtímans. Auglýsing fyrir klofin pils

 

Eftirfarandi er frásögn hennar:
„Ef ég væri neydd til að klæðast pilsi við hjólreiðar, þá myndi ég hætta að hjóla. Ég mun aldrei gleyma því hve ég þjáðist í handleggnum, allt vegna pilsins. Dag einn í fyrra var ég í hjólatúr ásamt nokkrum vinum þegar sterk vindhviða náði taki á pilsinu og flækti því um sveifina með þeim afleiðingum að ég missti jafnvægið. Hraðinn sem ég var á olli því, að við skellinn braut ég handlegginn.

Í sex vikur lá ég rúmliggjandi og það var þá sem ég ákvað að klæðast öllu öðru en pilsi, og lýsti því yfir að ef ég nokkru sinni næði fullum styrk í handleggnum myndi ég klæðast bloomer! Mikið er ég fegin að ég ákvað þetta því aldrei áður sem hjólreiðamaður hef ég notið hjólreiða eins mikið og nú. Ég fer upp fjöll áður óhjólandi, hjóla tvöfalt hraðar, óttast hvorki teymi né slæma vegi, því ef ég missi jafnvægið get ég tillt létt niður fætinum á jörðina. Nú klæðist ég bloomerunum mínum, er í þungum undirfatnaði, í sokkum upp að hné, í lífstykki, og í svölu veðri í tvöföldum jakka sem ver mig fyrir kulda. Ég nýt þess að hjóla!“ 7

 

bike1.gifbike2.gif

Í takt við kvenímynd Viktoríutímans. Fyrsti stillanlegi kvenreiðahjólafatnaðurinn. Úr sölulista Ladies’ Standard Magazine, apríl 1894

bike3.gif

Sama hjólaflík, en búið er að festa ökklaböndin

Sem endranær voru ekki allir á eitt sáttir við að konur hjóluðu um í buxum og gerðu óspart athugasemdir og grín að þeim, sérstaklega bloomerum sem klæddu sig rökrétt miðað við hjólreiðar. Þær voru í háum sokkum klæddar víðum buxum sem náðu rétt niður fyrir hné, svo buxurnar gætu ekki flækst í sveif og keðju. Einnig var fremri helmingur erma sniðinn þétt að líkamanum svo þær flæktust ekki í stýri.

En grasrótin í kvennapólitíkinni var í fullum gangi og krafan um kosningaréttar efst á baugi. Til að vera teknar alvarlega í pólitískri baráttu sinni þurftu margar hreinlega að pína sig í að klæðast þröngum lífstykkjum undir þungum og óþægilegum ökklasíðum pilsum þegar þær hjóluðu á milli staða.

Sumar gengu jafnvel svo langt að þær lögðu áherslu á að þær virtu lögin, því sumstaðar var ólöglegt fyrir konur að ganga um í buxum. Þær ýttu því þeim sem klæddu sig rökrétt út í horn.

 bloomers.jpg

 

girlz.jpg

„Löghlýðnar baráttukonur fyrir kosningarétti.“ Grasrótin í viðteknum kvenfatnaði og löglegum.

 

Mótorknúin fjórhjól

Um aldamótin 1901 var hjólaæðinu lokið. Sú margvíslega tækni sem hjólreiðaframleiðendur þróuðu, var undirstaða undir bílaframleiðslu, enda var fjórhjólið í raun vélalaus bíll sem reiðhjólaframleiðendur, eins og Ford, einblíndu nú á.8

 

rudge_quadracycle_1888.JPG

Rudge fjórhjól 1888

Reiðhjólið hafði kynnt almenningi fyrir persónulegu ferðafrelsi og skapað nýjar væntingar. Fjórhjólið sem var heldur þyngra var því helst á valdi karlmanna, enda áberandi að auglýsingar fyrir fjölsæta fjórhjól, sem einnig voru hönnuð með fjölskyldufólk í huga, höfðu karlmann nær undantekningalaust við stýrið og konuna prúða og stillta með handtösku í kjöltu.

Ferðafrelsið sem almenningur hafði kynnst með tilkomu hjólsins færðist yfir á mengandi fjórhjól með mótor, þ.e.a.s. einkabíllinn, sem jafnt og þétt tók yfir vegina góðu sem hjólreiðamenn höfðu knúið í gegn og gerðu þá brátt óheilnæma.

Þegar litið er yfir þetta tímabil tæknisögunnar er eins og vinsældir hjólsins og atorka kvennahreyfinganna hafi haldist hönd í hönd á meðan konur sátu sjálfar við stýri.

Kvenréttindakonan Susan B. Anthony orðaði þennan þankagang best.

„Reiðhjólið hefur gert meira til að frelsa konur en nokkuð annað í allri veröldinni!“ 9

Sólver H. Sólversson Guðbjargarson

Heimildir & myndir:
       Ladies’ Standard Magazine: apríl 1894; júní 1897
       Perry, David Brunn. (1995) Bike Cult. New York: Four Walls Eight Windows.
       Viðar Rósmundsson (1999) Efnisfræði málmiðna. EFM 102. Reykjavík: Iðnú.
       Myndbókasafn bandaríska löggjafaþingsins.

Leitarvélar og alfræðiorðabækur:
       www.bok.hi.is > Gagnasöfn > A-Ö > „B“ > Britannica On-line:   
       Google.co.uk - www.dictionary.com - www.finna.is
       Leitarorð: „cycling, woman, suffragists, costume history, cycle history, queen victoria, starley, bloomers, bicycle, tricycle, quadracycle, sociables“

http://inventors.about.com/library/inventors/blbicycle.htm
http://teacher.scholastic.com/activities/suffrage/effie1.htm
http://womenshistory.about.com/library/weekly/aa050900a.htm
http://xroads.virginia.edu/~UG02/hendrick/health.html
www.answers.com/topic/history-of-the-bicycle
www.cyclepublishing.com/history/index.html
www.exploratorium.edu/cycling/humanpower1.html
www.facstaff.bucknell.edu/mvigeant/univ_270_03/Allison/history.htm
www.islandia.is/lhm
www.loc.gov/exhibits/treasures/tri119.html
www.mmedia.is/ifhk   
www.pedalinghistory.com/PHhistory.html
www.tylerbicycleclub.com/BicycleHistory.html

Footn:
1    Konur hafa fleiri svitakyrtla en karlmenn svo að dreifing svitans er jafnari og minni frá hverjum svitakyrtli og því ráða konur betur við að kæla líkamann.
2    Ólíkt því sem gerist í hestamennsku þarf hjólreiðamaðurinn að knýja sig sjálfur áfram og þar sem hjólið var hannað með tilliti til buxnaklæddra eigenda var því ekki nema fyrirsjáanleg afleiðing að þegar konur stigu á sveif, þá gerðu þær það klofvega.    °
3    Rational Dress Society
4    Grindarsmíði þrí- og fjórhjólanna var
    undanfari bíliðnaðarins.
5    Demantsstell hafa lárétta topptúbu og eru því hentug fyrir buxnaklædda reiðhjólamenn.
6    Álit undirritaðs er að vegna karlægra hönnun hjóla sé réttara að nefna hjól með hallandi         topptúbu skotahjól en kvenhjól.
7    Þýðing undirritaðs úr ensku.
8    Léttbyggð stál- og álrör, vírteinar, keðjur,  drif, fall-málmmótun, stillanlegar legur, gírar, loftslangan, áráðanlegar bremsur, stýri, umskiptanlegir hjólahlutir, framleiðslulína fyrir fjöldaframleiðslu, færibandið.
9    Þýðing undirritaðs úr ensku.

Myndir:
Gönguvélakeppni.  /  A Hobby horse race.

Tandem hraðstigi. Konan á hliðarsöðli.  /  Tandem vélocipède, woman riding sidesaddle.

Kvenhjólið, kynslóð á eftir beinskaknum.  / 
The female bike, one bike-generation behind.

Amelia Bloomer.

Venjulega hjólið, háhjólið.  /  The ordinary, the High-wheeler, the penny-farthing.

Venjulegur hjólreiðamaður.  /  An ordinary cyclist.

Konu-háhjólið.  /   The Lady-Trike.

Coventry Rotary fjórhjól frá Starley, eins og Viktoría drottning keypti. /  Starley’s Coventry Rotary Quadracycle, like the one owned by queen Victoria.

Öryggishjól, með demantsstelli, keðjudrifi og loftslöngum.  /   Savety bicycle with a dimond shaped frame, chaindrive and pneumatic tires.

Plakat sem auglýsir kosti álhjóla. Hjólið orðið svo létt að jafnvel kona getur lyft því með einni.  / 
A poster advertising aluminium bicycles. Cycles so light that even a woman can lift one single handily.

Dunlop á öryggishjóli á túttunum sínum.  /  Dunlop riding his safety-bike incorporating
his pneumatic tires.

Öfgar ímyndana.  /  Image of the extreme.

Auglýsing frá 1899 fyrir Frelsis-hjól. Frelsisgyðja heldur á öryggishjóli með demantsstelli.  / 
An advertisment for Liberator Cycles 1899. The freedom godess holds a bicycle with
a dimond frame and pneumatic tires.

Æskilegur fatnaður samtímans. Auglýsing fyrir klofin pils.  /  The ideal codedress for women. An advertisment for split skirts.

Í takt við kvenímynd Viktoríutímans. Fyrsti stillanlegi kvenreiðahjólafatnaðurinn. Úr sölulista Ladies’ Standard Magazine, apríl 1894.  /  In concord with the standard image of a woman in the Victorian era. The first adjustable cycling apparel for women. From the Ladies’ Standard Magazine April 1894.

Sama hjólaflík, en búið er að festa ökklaböndin.  /  The same cycling  apparel, but split in two by
fastening the ankle straps.

Konur á hjólum.  /  Women cycling.

„Löghlýðnar baráttukonur fyrir kosningarétti.“ Grasrótin í viðteknum kvenfatnaði og löglegum.  /  “Law abiding female suffragists”. Lobbying in a non rational, but legal, dresscode.

Rudge fjórhjól 1888.  /  Rudge quadracycle 1888.