Er gerlegt að nota hjól sem samgöngutæki í Reykjavík?
Upphafið: Sumarið 1999 byrjaði ég að hjóla. Hafði keypt allnokkuð notað hjól á uppboði hjá Löggunni nokkru áður. Í fyrstunni var ætlunin að kanna hvort það væri mögulegt að hjóla alla leið í vinnuna, úr miðbæ Reykjavíkur að Rannsóknastofnunum á Keldnaholti, rétt rúmir tólf kílómetrar, það væri minna mál að komast heim aftur það er jú alltaf hægt að láta ná í sig á bílnum.

Leiðin er ágæt hjólaleið fyrst eftir Laufásveginum þar til komið er að Barónsstíg við gamla Kennaraskólann þar er hættulegt horn bæði þröngt og eins hitt að bílar sem sveigja af Miklubraut koma á mikilli ferð í beygjuna og er eins gott að vera almennilega vaknaður á þessum stað. Því næst er hjólað á gangstéttum meðfram Miklubraut yfir Sæbraut á gangbraut þá meðfram Elliðavogi, yfir gömlu brýrnar á Elliðaánum út með Elliðaánum að austanverðu, inn í Bryggjuhverfið, undir Gullinbrú, meðfram Grafarvogi, við enda fótboltavallarins, upp snarbratta brekku meðfram skíðalyftu upp í Húsahverfi, út á Gagnveg, eftir honum yfir Víkurveg og að Rannsóknastofnunum. Valinn var bjartur og fagur sumarmorgun og jú merkilegt nokk þetta var hægt og það á innan við klukkutíma.

Þetta sumar var hjólað nokkrum sinnum og haldið áfram fram í september en þá var hjólinu lagt það eru jú bara ofurhetjur sem hjóla á veturna. Sumarið þar á eftir eða árið 2000 var veðrið einhvern veginn ekki með besta móti og þar við bættist að farið var í frí erlendis þannig að aðeins var farið nokkrum sinnum á hjóli til vinnu það sumar en var þó orðin staðreynd að þetta var ekki bara gerlegt heldur líka svolítið gaman. Kannski mest gaman af því að ég tapaði kílóum við þessa áreynslu í sól og hita. Strax og snjóa leysti eða í apríl 2001 var farið á fullt, undirbúningnum var lokið og nú var hjólað markvisst a.m.k. þrisvar í viku til vinnu, pælt í hjólaleiðum, fatnaði og yfirleitt öllu því sem að við kom hjólreiðum ekki síst hvernig aðrir hjólarar voru útbúnir.

Þegar líða tók á sumarið var orðið ljóst að þessi nýji lífsstíll var kominn til að vera, hugsanlegt að hann hafi komið um leið og vöðvarnir stækkuðu og styrktust, maginn minnkaði og maður var léttari, bæði í lund og kílóum talið. Nýtt hraðamet var sett reglulega og nú rann maður leiðina á innan við fjörutíu mínútum þegar best var. Seint í ágúst var ljóst að hjól keypt nánast óséð og alls ekki miðað við eigin líkama, dugði ekki lengur, fjárfest var í alvöru 24 gíra fjallahjóli úr áli með dempurum og grófmunstruðum dekkjum, nú var ég til í allt. Hjólið átti að kosta 70 þús. sem var langtum meira en ég hafði eytt í leikfang fyrir mig hingað til, því var beðið eftir útsölu og þá fékkst það á 40. þús. Samviskunni var bjargað.

Reyndar hafði afgreiðslumaður í einni hjólaversluninni spurt mig, þegar ég var í hjólakaupahugleiðingum, hvað ég hjólaði mikið? Eftir að hafa fengið útlistun á því þá bauð hann mér hjól á 150 þús. Sagði að það væri trúlega það sem að mér og minni notkun hentaði best, ég taldi víst að maðurinn væri bilaður. Núna sé ég að trúlega hefur hann haft rétt fyrir sér vegna þess að dýrari hjólin eru mun vandaðri og endast þess vegna betur. Til að sannfæra eigin samvisku betur var pælt í hvernig verkfærið þ.e. hjólið mundi skila eigandanum arðsemi af fjárfestingunni. Til þess eru margar leiðir, ein er t.d. að deila verð hjólsins í með fjölda strætóferða eða þá finna út hvað greitt er samkvæmt kílómetragjaldi fyrir hvern ekinn kílómetra á bíl að ósk vinnuveitanda. Hvaða leið sem farin var í þessum krónupælingum þá var það ljóst að ef að ég yrði duglegur að hjóla í vinnuna þá mundi þetta borga sig, það þyrfti ekki nema svona 1000 til 1500 km til þess.

En hvað með veturinn? Er hægt að hjóla í Reykjavík eftir septemberlok? Í febrúarlok 2002 eftir rétt rúma sex mánuði, var ég búinn að hjóla yfir 2000 km til og frá vinnu, aðeins tveir eða þrír dagar dottið út vegna veðurs annars bara ljúft svo ljúft, varð ekki kalt nema kannski einu sinni, var orðin dofinn á tánum þegar ég kom til vinnu skyldi ekki hvers vegna hélt að skórnir væru kannski orðnir of litlir en fékk að heyra frá vinnufélaga sem blöskraði að sjá hjólareiðamann á ferli, að frostið hefði farið í -15°C þann morguninn. En er ekki efitt að hjóla í snjónum? Hvaða snjó? Ef það snjóaði eitthvað að ráði þá var oftast búið að moka eða sópa öllu í burtu þegar ég var á ferðinni, nánast alltaf. En hálkan? Eftir að ég datt snögglega einn morguninn án þess þó að slasa mig þá fór ég síðdegis sama dag og fékk mér nagladekk að framan. Næsta vetur datt ég reyndar aftur og þá þannig að afturdekkið skautaði út undan sér og þá var ekki annað að gera en fá nelgt að aftan líka eftir það hefur knapinn ekki dottið. En rokið og rigningin? Í fyrstu var mér meinilla við rokið, missti andann, komst ekkert áfram, rokið alltaf beint í fangið. En allt í einu vingaðist ég við vindinn hann bauð upp þá tilbreytingu að stundum kom hann í bakið á mér og þá komst maður sko áfram, þá leið maður áfram á ljúfri siglingu í blankalogni og er það trúlega í því eina tilfelli sem hægt er að vera á ferð í logni þ.e. þegar vindurinn fer á sama hraða og í sömu átt og maður sjálfur. Rigning er ekki vandamál aðeins spurning um klæðaburð. En þá myrkrið? Hvernig er að hjóla í svartasta skammdeginu? Oftast nær ekkert mál, það versta í því sambandi eru aðrir hjólreiðamenn sem einhverra hluta vegna vilja ekki láta aðra sjá eða vita að þeir eru á ferðinni eða þeir eru í leynilegum erindagjörðum

Af þessu sést að það er vel framkvæmanlegt og alls ekkert þrekvirki að hjóla til og frá vinnu allan ársins hring í henni Reykjavík. Það sem betur mætti fara er mál sem snýr fyrst og fremst að borgaryfirvöldum, en það er að þau geri sér grein fyrir því að hjólreiðar séu raunhæfur ferðamáti, að tekið sé tillit til hjólandi umferðar við hönnun nýrra umferðarmannvirkja, að tekið sé tillit til okkar þegar verið er að vinna eitthvað í verklegum framkvæmdum við gatnakerfið, en ótaldæmi eru til um algjört skeytingaleysi við aðra umferð en bílaumferð.

Að lokum má nefna að til að ná verulegri fjölgun hjólreiðamanna og þar með sparnaði fyrir þjóðfélagið, þá þarf að merkja hjólaakreinar á sem flestar götur þar sem því verður komið fyrir og þar að auki að gera hjólfærar stofnbrautir um borgina þvera og endilanga þar sem reiknað er með 30 km hámarkshraða. Þá fyrst verður hjólreiðafólk almennilega sýnilegt og eðlilegur hlutur í umferðarmenningu höfuðborgarinnar. Eins og staðan er í dag þá má segja að hún sé mun betri heldur en fyrir t.d. tíu árum og má segja að það sé ótrúlegt hvað það eru margir sem þó láta sig hafa það að hjóla í umhverfi sem er því í raun óvinveitt, en verum bjartsýn og trúum því að innan ekki alltof langs tíma verði sú viðhorfsbreyting sem þarf til að færa hlutina til betri vegar.

p.s. Höfundur er Óli Þór 46 ára, býr í miðbæ Reykjavíkur og starfar við matvælarannsóknir á Keldnaholti.

Hjólhesturinn Nóv 2003
© ÍFHK 2003