Magnús Bergsson hefur haft yfirumsjón með Hjólhestinum frá upphafi 1991. Að halda úti útgáfustarfsemi sem þessari er ekkert grín og hornsteinn um einstakt brautryðjendastarf Magga og þolinmæði að halda þessu gangandi án startkapla gegn öllum mótbárum. Hægt er að bera saman gróflega þennan ótrúlega drifkraft með því að leita að erlendum hjólreiðafélögum sem hafa álíka útgáfustarfsemi á sínum snærum eins og við. Þau félög eru nokkuð vandfundin!


Okkar umdeildi Maggi hefur í nóg að snúast og eftir að hann stofnaði fjölskyldu hefur hann í nokkurn tíma ætlað að takmarka hjólamál sín við pólitískt starf LHM og stíga þar með það skref að klippa á naflastrenginn við Hjólhestinn, sem hann hefur nú gert. Þó jálkurinn okkar hafi látið af yfirumsjón með útgáfunni mun hann verða áfram kunnuglegur og tryggur penni á síðum ritsins.

Því er boltanum varpað yfir til ykkar félagar!
Þið sem áhuga hafið á að koma að Hjólhestinum ættuð endilega að stíga loks skrefið og ganga í ritstjórn, nýta tengslanet ykkar og gefa góðum pennum olnbogaskot.
Fyrir ykkur sem hafið áhuga á grafík eða grafískri miðlun er Hjólhesturinn einnig kjörið tækifæri að dýfa puttunum í alvöru verkefni sem nýtist í ferilskránna (CV-ið, Curriculum Vitæ.) enda er Hjólhesturinn prentaður í töluverðu upplagi.
Vilji er fyrir hendi að koma þekkingunni til skila í vinnslu umbrotsforritsins þannig að þið sem eruð áhugasöm þurfið ekki að vera sprenglærðir umbrotssnillingar um leið og þið kveikið á forritinu. Það eina sem þarf er áhuginn og viljinn til að koma starfi okkar og sýn á manneskjulegra umhverfi á framfæri bæði á síðum Hjólhestinum og á heimasíðunni.

Til að vel til takist er nokkur lærdómur að vinna í umbroti og játa ber að það er aðeins meira mál en virðist í fyrstu, sem undirritaður hefur rekist all illilega á.
Sem dæmi er að ein lítil tilfærsla á mynd ofarlega í grein getur þýtt nánast endalaust dútl í baráttu við réttar orðskiptingar, takt í texta sem og að koma hórungum fyrir kattarnef svo textinn verður þægilegur aflestrar og þá er óupptalið svokallað "pitstop!"

Hið góða fólk sem hefur staðið með Magga árum saman og verið þjarkarnir í Hjólhestinum eiga því verulegt hrós skilið fyrir ósérhlífið framlag sitt.

Það er því til umhugsunar að undanfarin misseri hefur ritnefndin verið afar fámenn, og í haust síðastliðið skráði aðeins einn hugaður félagi sig í ritnefnd.
Það er því útséð að útgáfa Hjólhestsins stendur og fellur með starfi nefndarinnar og ekki hægt að ætlast til þess að útgáfan haldi gæðum sínum né komi jafn reglulega út ef hann hvílir á svo fáum herðum.
Af þessum sökum var haust og vor-hjólhestarnir sameinaðir í einn og því ljóst að alveg óráðið er hve mikið hægt er að leggja í Hjólhestinn næstu misserin.
Hjólreiðamál í landinu standa á tímamótum því verið er að vinna að því að festa hjólreiðabrautir í vegalög sem LHM er aðalhvatinn að. Því skiptir sköpum að útgáfustarfsemi okkar sýni metnað, sé vönduð og trúverðug í alla staði og styðji við bakið á þeim sem stuðla að sjálfbærum samgöngum.

Fyrir hönd þeirra sem komið hafa að Hjólhestinum óskum við MBerg velfarnaðar í starfi LHM sem og í uppeldi næstu kynslóðar MBergara.

Sólver H. Sólversson Guðbjargarson
formaður ÍFHK

Hjólhesturinn 1. tbl. apríl 2005
© ÍFHK 2005