Viltu skipta á sléttu á bílnum þínum og hjólastól auglýsti VÍS fyrir skömmu en það má líka spyrja hvort þú viljir ekki skipta á bílnum og hjóli og fá borgað með. Það er nefnilega ekki bara dýrt að kaupa sér bíl heldur enn dýrara að reka hann. Samkvæmt útreikningum opinberra aðila er einkabíllinn stærsti útgjaldaliður heimilisins. Fólk eyðir mest í einkabílinn, í öðru sæti er húsnæði og maturinn í þriðja sæti. Yfirleitt er húsaleigan eða afborganirnar af íbúðinni fastur kostnaður sem fólk þekkir og fólk vandar sig við að gera góð kaup í mat en fæstir hafa hugmynd um hvað bíllinn kostar í raun. Líta kannski á bensínreikningana af og til og gera sér ekki grein fyrir að það er aðeins hluti af herkostnaði einkabílsins. Það eru bifreiðagjöld, tryggingagjöld, viðhald og viðgerðir og einn stærsti liðurinn eru afskriftirnar. Milljón króna bíllinn er nefnilega afskrifaður á um 10 árum sem þýðir 100.000kr í afskriftir á ári. Fólk hugsar sjaldnast út í þennan stóra lið vegna þess að maður fær aldrei reikninginn fyrir hann heldur er hann borgaður þegar bíllinn er endurnýjaður.

 

v-skipta.gif


Það er fleira sem fólk virðist líta á sem tilfallandi kostnað og lítt tengdan útgerð einkabílsins eins og þegar umferðaróhöpp verða. Hér urðu 12.500 árekstrar árið 1994 eða að meðaltali 35 á dag og í þeim flestum má reikna með að annar aðilinn hafi verið í órétti og ekki fengið neitt bætt úr tryggingum fyrir tjónið sem varð á eigin bíl. Í þessum árekstrum urðu 2500 slys á mönnum eða 7 á dag og að meðaltali kostaði hvert slys 1.200.000kr, og eins og með bílana er upp og ofan hvað fólk fékk bætt fyrir vinnutap og örkuml. (Tölurnar komu fram á fræðslfundi hjá VÍS janúar 96). Eins og þið sjáið eru mikið fleiri sem sem fá þann stóra á sig í umferðinni en þeir sem fá þann stóra í lottó og öðrum happadrættum. Í umferðinni hefur það nefnilega ekki gerst í manna minnum að "sá stóri" gengi ekki út í fjórar - fimm vikur. Árið 1995 létust 28 í bílaumferðinni eða einn þrettánda hvern dag sem er nálægt meðaltali nokkurra síðustu ára. Því miður er það svo að allir sem eru á ferð í umferðinni spila í þessu stóra lotteríi sem bílaumferðin er og alltof margir fá þann stóra.

 

 

borgad.gif


Valkostirnir við bílinn dýra eru: að nota strætó (ódýrt), hjóla (ódýrara) eða ganga (ókeypis). Sumir tala um að dýrt sé að kaupa gott hjól en borga svo tugi þúsunda fyrir að láta laga smá rispu á einkabílnum án þess að depla auga eða reikna það með rekstrarkostnaði bílsins. Meðalfjölskyldan eyðir 75.000kr á ári í happadrætti (Friðrik Sophusson, alþingi 21. feb. 1996) og fyrir þann pening einan má kaupa fjallahjól í hæsta gæðaflokki á hverju ári eða tvö meðalgóð hjól. Síðan er hægt að fá barnastóla fyrir börnin, barnatengivagn eða tengihjól eftir því hversu gömul þau eru. Varast ber að hleypa þeim einum út í umferðina of ungum á sínum eigin hjólum.

 

Einföld aðferð til að gera sér grein fyrir hvað það kostar að reka bíl er að skoða hvað hver ekinn kílómeter kostar. Þetta er nokkuð mismunandi eftir því hversu mikið er ekið á ári en yfirleitt er talan um 30 - 35kr á kílómeter. Dagsbrúnarmenn fá borgaðar 34kr á kílómeter fyrir akstur á eigin bíl og seint verða þeir taldir ofborgaðir. Þannig má reikna að það getur kostað mörg hundruð krónur að skreppa á bílnum út í búð eða í heimsókn. Samkvæmt útreikningum FÍB er rekstrarkostnaður bílsins um 1000kr á dag. Væri nú ekki margt skemmtilegra eða þarfara við peninginn að gera, eins og að draga úr eftirvinnu, gera sér dagamun oftar eða safna fyrir eigin íbúð.

 

Það er ekki dýrt að koma sér upp góðu hjóli og hjálmi eða svipað og trygging á einum bíl kostar í eitt ár. Fyrir fólk sem byrjar að hjóla á vorin nægir venjulegur fatnaður og það getur komið sér upp hjólafatnaði í rólegheitum eftir þörfum. Í veturna þarf helst sérhannaðan fatnað sem heldur manni þurrum í úrkomu og hleypir út svita.

 

Kostirnir eru margir fyrir utan peningasparnaðinn. Hreyfingin er mjög holl. Það er skemmtilegt að hjóla. Þú sérð tilveruna í allt öðru ljósi, kemst í snertingu við umhverfi þitt og hittir fólk á förnum vegi. Aukakílóin hverfa smátt og smátt, ef mataræði er ekki breytt. Þú mengar ekki Jörðina fyrir komandi kynslóðum. Innan bæjar fer hjólamaður um á svipuðum tíma og bílar, sérstaklega þar sem hægt er að nota göngustíga og ekki þarf að kljást við öll götuljósin.

 

Á veturna er miðstöðin alltaf í gangi á hjólinu mínu og alltaf hlýtt í mínum Gore-tex jakka, meðan þeir sem ferðast í einkabílum þurfa gjarnan að skrapa glugga og sópa snjó og bíða svo skjálfandi af kulda í 5-10 mínútur eftir að bíllinn hitni nóg til að losna við móðu af gluggum og mæta svo með kuldahroll í vinnuna. Hálkan er ekki mikið mál á hjólinu eftir að maður er kominn með nagladekk sem kosta svipað og mánaðarkort í heilsurækt.

 

En þó að maður losi sig ekki við bílinn má spara stórar upphæðir bara á því að nota hann minna. Prófa til dæmis að hjóla reglulega til vinnu eða þegar skroppið er í kaffi til vina. Bíla má nefnilega hvíla, spara pening og bæta heilsuna, allt í einu. Jafnvel leggja honum að mestu yfir sumartímann.

 

Páll Guðjónsson.

 

Teikningar: Jón Örn Bergsson.

 

© Hjólhesturinn 1.tlb. 5.árg. Febrúar 1996.