Við sem hjólum að staðaldri þekkjum öll þá fordóma sem fylgja hjólreiðum. Hver þekkir t.d ekki setningar eins og: "Ertu alveg brjáluð/aður að hjóla í þessu veðri", eða: "Á ég ekki bara að skutla þér".
Fólk sem segir svona lagað veit greinilega ekki af hverju það er að missa. Það er einmitt tilgangurinn með þessari grein, að sýna fram á þessi undraverðu áhrif sem hjólreiðar hafa á líkamann og grufla aðeins í matarræðinu.

Flestum á nú að vera orðið ljóst, að hreyfing er líkama og sál nauðsynleg. Hjólreiðar eru einmitt mjög áhrifarík leið til bættrar heilsu og betra líkamsástands. Það skaðar heldur ekki að þær eru þrælskemmtilegar og bjóða óneitanlega upp á ýmsan fjölbreytileika eins og t.d að fara í hjólaferðalög, keppnir o.s.frv.

Mikilvægt er að halda sér í formi allt áríð um kring, og hvað gæti verið sniðugra en að
hjóla úti i svala og fríska loftinu. Það er nú samt svo að veður leyfir það ekki alltaf og þá er gott að hlaupa og synda með.  Það er bæði fjölbreyttara og eykur alhliðaþol.

Hjólreiðar styrkja hjartavöðvana, þannig að hjartað dælir meira blóði til líkamans við hvert slag, sem þýðir hægari hvíldarpúls, sem er mikilvægt þegar líkaminn hvílist. Æðakerfið styrkist og blóðið rennur hindrunarlaust sína leið. Þannig verður hjartað sterkari og mikilvirkari pumpa. Flutningsgeta þess getur þannig farið úr 15-20 lítrum á mín. yfir í 35-40 lítra á mín. Þetta miðast þó við að viðkomandi hjóli a.m.k. 10-15 km. 3-4 sinnum í viku. Sterkara hjarta bætir flest annað í líkamsstarfseminni. Blóðrásakerfið batnar í heild sinni. Vöðvamassi og styrkur eykst til muna. Andadráttur batnar og verður auðveldari. Blóðmagnið eykst um allt að 30%. Flutningskerfí taugaboða til vöðva líkamans styrkist. Öll hreyfing verður því auðveldari, vöðvar, liðamót og annað stirðna ekki og eru vel "smurð".

Með þessari auknu og góðu hreyfingu verður líkamsþyngd stjórnað betur og hægt er á allri hrörnun á líkama og sál. Stress minnkar, lund og skap batnar undantekningarlaust. Því má segja að hjólreiðar veiti mikla mótstöðu við ýmsum nútímasjúkdómum sem herja á landann.
Þar að auki stuðlar góð hreyfing að betra kalkjafnvægi og minni blýinntöku, sem þýðir að aukið kalk ýtir blýinu til hliðar sem er mjög mikilvægt í þéttbýli.

 

0401-maria.jpg

Gatið fyllt rétt.

 
Næringaþarfir eru miklar hjá íþróttafólki og þar er hjólreiðafólk ekki undanskilið. Við þurfum orku til að ná góðri frammistöðu, Skyndiorka er ekki æskileg heldur háorka sem gerir okkur kleift að taka á undir álagi í lengri tíma. Hjólreiðafólk stundar háorkuíþrótt og þess vegna þarf fæðan að innihalda mikið af kolvetnum og próteinum.
Varast ber mikinn sykur, þar sem umframmagn alls sykurs hættir til að trekkja vökva inn í meltingarfærin sem þýðir þornun líkamsvefja. Þá er besta ráðið við þorsta súr ávaxtasafi.

Mikilvægustu næringarefnin eru: kolvetni, hvítuefni (prótín), fita, steinefni, vítamín og vatn.

Vítamín eru okkur öllum mikilvæg. Við verðum að afla þeirra úr fæðu eða bætiefnum til að halda "stellinu" í gír. Þau eru nauðsynleg lífskrafti, vexti og almennri vellíðan. Vítamín virka ekki ósvipað og loftþrýstingur í dekkjum, án hans er hjólið hálf slappt og við komust ekki eins vel áfram. Efnaskiptum er stjórnað af vítamínum og er afkastageta okkar mikið undir þeim komið.

Mikilvægustu steinefnin eru: kalk, joð, járn, magníum, fosfór og zink. Svo er mjög gott að taka fjölvítamín með steinefnum, B og E vítamín og jafnvel prótínbæti.
Einnig er alltaf gott að hafa í huga heilræði eins og "allt er gott í hófi", en ef það bregst hefur það verið sannað að B12 vitamín sé gott við timburmönnum.

Heimildir: Cykling og Bætiefnabiblían.
María Dögg Hjörleifsdóttir.


Birtist fyrst í Hjólhestinum mars 1995.