Ég er ein af þeim fjölmörgu sem hafa uppgötvað hjólreiðar. Það eru til staðir á Íslandi sem eru til fyrirmyndar fyrir hjólandi og gangandi umferð. Víðidalurinn er einn af þessum stöðum. Allar aðstæður þar eru til fyrirmyndar. Göngustígarnir eru tvískiptir, annar helmingurinn fyrir hraða umferð og hinn fyrir hæga umferð. Þótt að landsmenn séu ekki allir búnir að uppgötva til hvers þetta strik er eiginlega þá er þetta spor í rétta átt. Það er meira að segja sér hestastígur. Hrifningin snarminnkaði hins vegar þegar ég komst í kast við hestamennina þar í fyrsta sinn. Hingað til hef ég ekkert haft á móti hestamönnum. Ég þekki meira að segja persónulega nokkra hestamenn og þeir eru ekkert verri en gengur og gerist.

Vandamálið er að hestastígurinn kemur nokkrum sinnum inn á malbikaða stíginn. Þegar það gerist verða hestamenn að fara varlegar en venjulega vegna gangandi og hjólandi umferðar sem þar er. Margir gera það efalaust en betur má ef duga skal. Ég hef orðið vitni að hestamönnum sem hafa svínað fyrir þá umferð sem fyrir er. Það er stórhættulegt, sérstaklega þar sem hestar eru í flestum tilvikum þyngri en menn! Ég hef oft fengið það á tilfinninguna á ferðum mínum um Viðidalinn að ég sé bara gestur þar í boði hestamannafélagsins á staðnum og stundum er ég alls ekki velkomin þarna. Fyrst sárnaði mér þetta náttúrulega og fór að hugsa hvað ég eða aðrir hjólreiðamenn höfðum gert til að koma þessu af stað. Því miður dettur mér ekkert í hug. Eg hef leitað til hestamanna og spurt þá um þetta en hingað til hef ég ekki fengið neitt skynsamlegt svar. Þeir segja til dæmis að hestamir séu svo hræddir við hjólin. Mér finnst það heldur aum skýring.

0401-reidhestar2.jpg

Hjól fara tiltölulega hægt yfir og þau eru algerlega hljóðlaus. Ef hjól hræða hesta svona, hvernig bregðast þeir þá við bílum og mótorhjólum? Að vísu hef ég persónulega séð hest fælast þegar ég teymdi hjólið mitt framhjá honum en mér finnst það segja meira um hestinn og hestamanninn heldur en hjólið. Ég er farin að hallast að þeirri skoðun að hestamir í Víðidalnum séu orðnir dálítið taugaveiklaðir. Þeir virðast ekki þola streitu borgarlífsins eins vel og við mennirnir.

Það er allt annað með sveitahesta. Þeir eiga það til að strjúka úr girðingunni sinni og standa á veginum. Þó að ég komi hjólandi að einum slíkum verður hann ekkert kvekktur, fer bara að sníkja eins og eina brauðsneið. Ef svo vill til að bíll kemur brunandi að þá er hann heldur ekkert að láta það á sig fá. Bíllinn verður að gjöra svo vel að stoppa og bíða eftir því að hestinum þóknist að hreyfa sig. Þannig sést að hestar eru ekki í eðli sínu hræddir við hjól og ég er enn á byrjunarreit og hef ekki hugmynd um hvers vegna hestamönnum er illa við hjólreiðamenn.

Lítill álfur hvíslaði því að mér um daginn að hestamönnum væri illa við hjólreiðamenn vegna þess að þeir væru svo ósvífnir að nota einkastígana þeirra. Ég neitaði að trúa þessu fyrst í stað en efasemdarfræi var sáð í huga minn. Þegar ég fer að hugsa alvarlega um þessi orð litla álfsins þá er ég ekki frá því að lítið sannleikskorn leynist í þeim. Það vill nefnilega þannig til að tengdafólk mitt á heima við Elliðavatn en eins og allir vita er Elliðavatn við Heiðmörk sem er vinsæll staður hestaáhugamanna. Ég hef mikið yndi af því að heimsækja þetta tengdafólk mitt og bregð mér því oft á hjólfákinum mínum upp að Elliðavatni. Til skamms tíma var mikið um skipulegar hjólreiðaferðir um Heiðmörk. Þá var oft farið úr Víðidalnum um hestastíg upp á einkaveg og aftur inn á hestastíg, yfir brú og þaðan inn í Heiðmörk. Eigendur einkavegarins, sem eru einmitt tengdafólk mitt, eru ekki allt of hrifnir af mikilli umferð hestamanna sem um hann fara og það ekki að ástæðulausu. Komið hefur fyrir að ótaminn hestur brjálaðist og munaði þá litlu að þau væru ekki til frásagnar um atburðinn. Hestamenn eru líka tregir til að víkja og teppa veginn almennri umferð auk þess sem að hann er í henglum eftir þá þegar það er votviðrasamt. Þess vegna finnst mér það heldur hart af hestamönnum að reiðast þegar við notum hestavegina.

0401-reidhestar.jpg

Mín niðurstaða er sú að hestamenn eru fúlir út í hjólreiðamenn fyrir að nota „einkavegina" þeirra, Að mínu mati eiga hestamenn ekki stígana þó að þeir hafi upphaflega verið gerðir fyrir þá. Á þeim tíma voru hjól alls ekki til þess fallin að hjóla utan malbikaðra vega. Núna eru hjólin, orðin svo góð að það er orðið leiðinlegt að hjóla á malbiki. Það verður að bæta samband hjólreiðamanna og hestamanna. Þetta ósamkomulag gengur ekki til lengdar. Það er a.m.k. ljóst að hjólreiðamenn eru komnir til að vera.

Við hjólreiðamenn verðum að nota hvert tækifæri til að komast á alvöru vegi. Hestamenn verða því að venjast hjólreiðamönnum og við verðum að gera þeim það auðveldara. Við þurfum samt ekki að haga okkur eins og þeir, vera með leiðindi og vesen. Við erum þroskað fólk og kunnum að ræða hlutina. Gerum okkur far um að kenna hestamönnunum það líka.

Sonja Richter

Teikningar: Jón Örn Bergsson

Birtist fyrst í Hjólhestinum mars 1995.