0303-pistill-200.gifÞá er enn eitt sumarið liðið og mun það skilja eftir sig minningu um einstaka veðurblíðu, og því gott tækifæri fyrir landsmenn að breyta til betri vegar og nota annað farartæki en einkabílinn.

Það má merkja töluverða aukningu hjólreiðaumferðar í borginni. Borgaryfirvöld hafa unnið örlítið í lagningu stíga, og eftir kosningar var aukinn
kraftur settur í lagningu stígsins sem liggja á um Ægissíðu, Fossvog, Elliðaárdal og upp í Heiðmörk. Í miðborginni hefur verið gefið eftir eitt bílastæði undir reiðhjólastæði og sjá má að hætt er að steypa fjallháar umferðaeyjur þvert yfir gangbrautir. En við stöndum líka frammi fyrir því að ekki hefur verið lagður svo mikið sem einn metri af hjólreiðastíg í Reykjavík. Þá er átt við kantlausan stíg sem ekki er mjórri en 1,5 metri og stofnbraut sem er 2x1,5 metri að breidd. Þeir stígar sem finna má í Reykjavík hafa aldrei verið lagðir sem hjólreiðastígar, jafnvel þó öðru hafi verið haldið fram svona rétt fyrir kosningar. Þeir sem trúa því ekki geta haft samband við klúbbinn og skoðað 300 myndir og fjölda skýrslna um þessi mál. Hinsvegar er það rúmlega 13 ára gömul lagasetning sem heimilar okkur hjólreiðamönnum að hjóla á gangstéttum en þó með þeim annmörkum að við verðum að taka fullt tillit til gangandi. Þessi lagasetning kom til vegna þess að þáverandi borgaryfirvöld vildu ýta út af borðinu öllum pælingum um lagningu sérstakra hjólastíga. Það var ekki fyrr en borgin hafði fengið í hendur undirskriftalista með 3000 nöfnum, frá Fjallahjólaklúbbnum í nóvember 1993, að borgarráð setti saman hjólanefnd sem átti að koma með tillögur að úrbótum fyrir hjólreiðafólk. Í rúmlega tvö ár hafði starfað áhugamannahópur innan borgarinnar um bætta aðstöðu hjólreiðamanna sem hét Hjólreiðar í öndvegi. Hjólanefndin studdist að verulegu leyti við tillögur þessa hóps. Fjallahjólaklúbburinn fékk svo að koma með sínar athugasemdir. Nefndin skilaði síðan af sér tillögunum 1. apríl 1994.

En það er ekki nóg til að tillögurnar verði að veruleika. Innan borgarinnar er ótrúlegur fjöldi manna sem eingan áhuga hefur á því að auka veg reiðhjólsins og vinna jafnvel gegn því. Á sama tíma er allur kraftur settur í að auka velferð einkabílsins. Sem dæmi þá er þegar búið að kasta á glæ nokkrum milljónum í hönnun mislægra gatnamóta Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar án þess að gera ráð fyrir gangandi eða hjólandi. Samt sem áður er þetta í miðju íbúðarhverfi þar sem fjöldi íbúa fara tæplega á bílum til að versla vegna nálægðar við Kringluna. Þetta er dæmigert fyrir vinnubrögð borgarinnar en vandamál hennar eru margþætt. Verktakar eru misjafnlega vandvirkir sem virðast vinna öll verk eftirlitslaust. Þó hef ég frétt af manni sem ekur á milli framkvæmdastaða, en eitt er víst hann vinnur ekki fyrir kaupinu því hann mælir aldrei gráðuhallan á gangstéttafláum eða hæð brúna og kanta.

Það eina sem skiptir máli virðist vera að hinir demparavæddu bílar reyni sem minnst á sinn búnað, að þeir hafi sem mest svigrúm og að þeir komist skemmstu leið á sem mestum hraða. Fá þar að víkja hólar, fjöll og dalir og er nú svo komið að grænu svæðunum í Reykjavik fer nú óðum fækkandi. Á sama tíma er allt gert til að tefja fyrir gangandi og hjólandi sem þurfa að krækja fyrir háar girðingar, taka stóra króka fyrir umferðaslaufur og príla yfir ótal kanta í ótal hlykkjum. Hvað ætli reykvískir bílstjórar segðu ef þeim væri fyrirskipað að taka fyrst krók til Hafnarfjarðar ef þeir ætluðu í Mosfellsbæ vegna þess að það væri gangbraut i Elliðaárdalnum? Það þarf varla að spyrja að því, það yrði allt vitlaust.

Borgin þarf að ráða til sín FAGMENN sem myndu hafa eftirlit með framkvæmdum er varða hjólreiða- og göngustíga, og standa vörð um hagsmuni allra þeirra sem ekki nota einkabíla til að komast leiða sinna. Það virðist vera nægur skari embættismanna sem allan hug hafa á að auka sem mest einkabílaumferð í borginni á kostnað hjólandi og gangandi. Þeir þvarga um sparnað og arðsemi framkvæmda í fjölmiðlum sem hljómar eins og alkahólisti talandi um hollustu víndrykkju. Þar er aðallega tekið mið af því að bílstjóri þurfi að eyða sem fæstum mínútum í umferðinni, þ.e.a.s. tíminn kostar peninga. Í þeim arðsemisútreikningum er ekki tekið mið af umhverfisþáttum en frá því er heldur aldrei sagt í fjölmiðlum, vegna þess að þá aukast líkur á því að ekkert verði af framkvæmdum. Fyrir þá sem vita ekkí hvað umhverfisþættir eru, þá er t.d. tekið mið af náttúruspjöllum, loftmengun, hávaðamengun og sjónmengun. Allir þessir þættir skipta okkur mun meira máli þar sem þeir varða okkar líkamlegu og andlegu heilsu.

Borgin ætti að byggjast upp sem mannvæn borg. Hamingju borgarbúa;er ekki að fínna í gerviþörfum eins og háværu, fyrirferðamiklu, illþefjandi, rándýru blikkrusli og víðáttumiklu malbiki. Hana er frekar að finna í rólegu og hljóðlátu umhverfi þar sem hver og einn lifir sem best í sátt og samlyndi við náttúruna.

Magnús Bergsson
Teikning, Jón Örn Bergsson
Birtist fyrst í Hjólhestinum október 1994.