Er þversögn í því að öryggi hjólreiðamanns sé best borgið á götunni? Hvað með gangstéttina? Þar er enginn á bíl – verða þá nokkur slys þar? Hvenær stuðar bíll hjól? Hvenær stýrir ökumaður ökutæki sínu á hjólreiðamann á reiðhjóli? Algengustu tilvikin eru þar sem hjól þvera veginn. Enginn fyrirvari – jafnvel skert útsýni. Búmm!

Eigum við þá að leggja hjólunum í geymsluna, skutla börnunum í skólann og skjótast á bílnum í sjoppuna en hjóla svo á góðviðrisdögum í Nauthólsvíkina og njóta þess að anda þá að okkur fersku lofti á ferð um borgina? Af hverju ekki að læra rétta staðsetningu reiðhjólsins á götunni og gera hjólið að samgöngutæki númer eitt á heimilinu?

Fyrir hvern hjólreiðamann er einum bíl færra á götunni. Það leysir vanda umferðarþunga gatnakerfisins á heilbrigðan hátt og allir græða. Spörum gjaldeyri, njótum veðursins, finnum vindinn, regnið og sólina leika við okkur. Rannsóknir sýna að lífslíkur þeirra sem hjóla til samgangna eru 30% hærri en annarra. [i]

Í dag er útbreiddur misskilningur – einkum meðal yngri ökumanna – að reiðhjól eigi heima á gangstéttinni. Þekkir þú af eigin raun hvernig er að ganga á gangstétt og reiðhjól kemur á 30 km hraða fram úr þér? Hvernig heldur þú að það sé að fá þennan orkubolta beint á þig? Gangandi vegfarandi á allan rétt á öllum gangstéttum og útivistarstígum. Þennan rétt ber að virða. Lærum að hjóla á götunni. Lærum að taka ríkjandi stöðu þegar við þurfum að vernda staðsetningu okkar á götunni og færum okkur í víkjandi stöðu til að hleypa hraðskreiðari umferð framhjá.

Þægilegasta og einfaldasta leiðin á milli tveggja staða er um götur bæjarins. Veljum götur sem gott er að anda við og eru með rólegri umferð. Aukum öryggi annarra vegfarenda; barnanna okkar – og minnkum hraða þeirra sem geysast um á stórum ökutækjum um þröngar umferðargötur.

Kennsla í Hjólafærni á Íslandi er komin til að vera. Í vor útskrifast yfir 50 börn úr Álftamýrarskóla með þekkingu í að staðsetja sig á götunni á hjólinu sínu. Þau fá að vita að það er eðlilegt að nota götuna til samgangna og það er hættuminna en að skjótast leiðar sinnar á gangstéttum. Þeirra þjálfun á áfram að vera undir eftirliti foreldra þeirra og í náminu var öllum foreldrum boðið að læra þá hjólafærni sem börnunum var kennt.

Enn mikilvægara er þó að leiðbeina eldra og reyndara hjólreiðafólki sem þekkir betur háttsemi umferðarinnar að vera á götunni og vera sýnilegt annarri umferð. Því fleiri sem velja götuna til að hjóla á, því öruggari verður hjólreiðfólk. Ökumenn annarra ökutækja þurfa líka að venjast því að eiga von á hjólreiðafólki á götunni. Við erum öll í sama liðinu. Allir græða á því að færri bílar séu á götunum, hjólreiðafólk, stjórnendur vélknúinna ökutækja, gangandi vegfarendur og skattgreiðendur; allir.

Sesselja Traustadóttir, verkefnisstýra Hjólafærni á Íslandi

[i] Andersen LB, Schnohr P, Schroll M, Hein HO. All-cause mortality associated with physical activity during leisure time, work, sports, and cycling to work. Arch Intern Med, 2000 Jun 12;160(11):1621-8.

Sjá meira efni um hjólafærni hjá:
www.ifhk.is

http://politiken.dk/indland/article723086.ece

Og bent er á ráðstefnuna Velo-City Global í Köben 22. - 25. júní 2010:

http://www.kk.dk/cyklernesby.aspx