Bannað að reiðaÞessi mynd sýnir hvar faðir reiðir dóttir sína milli staða í Amsterdam og ekki annað að sjá en vel fari á með þeim. Þetta er ólöglegt á Íslandi. Líklega var lagt bann við þessu af einhverjum sem töldu þetta hættulegt háttarlag en hvað höfðu þeir fyrir sér? Nú eru fleiri bönn við heilbrigðum hjólreiðum í farvatninu en jafnframt er unnið að endurskoðun laganna í heild sinni. 

Forgangsröðin á forgangsakreinum

Fyrir alþingi liggur frumvarp um forgangsakreinar þar sem öðrum ökutækjum en strætisvögnum og leigubifreiðum verður bannað að nota þær og þeir sem brjóti það bann verði sektaðir. Víðast hvar í Evrópu þykir sjálfsagt að hjólreiðafólk noti forgangsakreinar en á umferðarþyngstu leiðunum er oft sérstök hjólabraut samhliða sem umferð hjólandi er beint á. Þegar við lítum á forgangsakreinarnar á Laugavegi, Hverfisgötu og Lækjargötu er okkur ómögulegt að skilja hví ætti ekki að nýta þær fyrir hjólandi umferð. Gangstéttin þarna hentar engan veginn hjólreiðafólki og strætisvagnar fara almennt ekkert hraðar en hjól. Rökin með frumvarpinu snúast reyndar ekkert um umhverfisvænan samgöngumáta, jákvæð áhrif á lýðheilsu eða annað sem auknar hjólreiðar hafa í för með sér heldur er eingöngu verið að reyna að efla almenningssamgöngur. Því miður er það á kostnað hjólreiða. Það á ekki að vera glæpur að hjóla eftir forgangsakrein – hver er aftur tilgangur almennings­samgangna? Á vef Strætó stendur: “Framtíðarsýn okkar byggist á því að viðskiptavinir okkar kjósi að komast leiðar sinnar með strætó vegna þess að það sé mun hagkvæmari, umhverfisvænni og jafnvel fljótlegri kostur en að nota einkabíl”. Fyrir okkur sem hjólum er þetta veruleiki en ekki framtíðarsýn. Er reiðhjólið kannski ekki líka mun hagkvæmari, umhverfisvænni og jafnvel fljótlegri kostur en að nota strætó eða leigubíl? Það þarf enginn að bíða í klukkutíma á kvöldin eða um helgar áður en þeir stíga á hjólið sitt.

 

hjólað á forgangsakrein í Berlin
Berlin eða Lækjargata? Bílastæði, forgangsakrein, akrein og miðeyja.
Af hverju vilja íslensk stjórnvöld hjólið á akreinina með mestu umferðinni?

 

Er glæpur að hjóla án reiðhjólahjálms?

Hjálmlaus í umferðinni Í þeim löndum þar sem notkun reiðhjólahjálma hefur verið leidd í lög hefur tíðni alvarlegra höfuðáverka dregist saman, en ekki vegna notkunar hjálmanna heldur vegna þess að lögleiðing þeirra dregur úr hjólreiðum almennt og bein fylgni er þarna á milli. Fækkun hjóla á götum úti hefur neikvæð áhrif á heildar umferðaröryggi hjólreiðafólks. Öryggi hjólreiðafólks eykst eftir því sem fleiri hjóla og þannig hafa heildar­áhrif hjálmaskyldu, þar sem hún hefur verið innleidd, verið neikvæð á öryggi hjólreiðafólks.

Umræða um hjólreiðar beinist allt of oft að meintum hættum, langt umfram tilefni, því þeir sem hjóla reglulega lifa lengur, jákvæð áhrif hreyfingarinnar á heilsuna eru ótvíræð, með eða án hjálma. Hreyfingarleysi er margfalt hættulegra heilsunni en nokkurn tíma hjólreiðar. Stefna okkar er ekki að vera á móti hjálmanotkun heldur hjálmaskyldu, notkunin á að vera val og það á ekki að teljast glæpur að hjóla án hjálms.

Mikill áróður er fyrir hjálmanotkun á Íslandi og oft með staðhæfingum sem engin rök eru fyrir s.s. meinta 80% minni slysatíðni. Raunverulegar slysatölur þar sem hjálmaskylda hefur verið lögleidd sýna annað. Ungmenni eru skylduð til að nota þá samkvæmt íslenskum lögum. Þar sem gagnsemin er ekki ótvíræð mætti beina áróðrinum meira að kostum hjólreiða. Lesið um þessa og fleiri þversagnir í öryggismálum hjólreiðafólks  með tilvitnunum í marktækar rannsóknir hér .

Athugið einnig að hjálmar eru mjög misjafnir eftir því fyrir hvaða not þeir eru ætlaðir og ekki hægt að bera saman t.d. frauðplasthjólahjálma og mótorhjólahjálma með harðri skel. Það eru líka ótal fyrirvarar um stærð, legu og stillingu reiðhjólahjálma frá framleiðendum sem segja hreint út að sé þeim skilyrðum ekki fullnægt geti hjálmarnir reynst gagnslausir eða jafnvel hættulegri en enginn við ákveðnar aðstæður. Reiðhjólahjálmar eru því miður ekki sú töfralausn sem ein og sér minnkar slysatíðni um 80% og ábyrgðarhluti að telja fólki trú um slíkt því þá halda sumir kannski að það sé bara 20% að kunna umferðarreglurnar, hvernig öruggast er að staðsetja sig og haga sér í umferðinni og annað sem er afar mikilvægt að kunna þegar reiðhjól er notað sem samgöngutæki.

Ný umferðarlög

Tveir lögreglumenn hjóla Nú stendur yfir heildar endurskoðun umferðarlaga á Íslandi og tókum við í ÍFHK og LHM saman ítarlega greinargerð og lögðum fyrir nefndina sem hefur það verkefni. Hana má lesa hér á vef klúbbsins fjallahjolaklubburinn.is. Meðal þess sem þar kemur fram er réttur hjólreiðafólks til að ferðast um alla vegi landsins og ef einhverra hluta vegna þarf að aðskilja umferð hjólandi frá akandi, að þeim sé boðinn jafn góður valkostur. Við höfum frétt af skiltum sem loka leiðum án nokkurrar ástæðu eða að boðið væri upp á aðra leið, slíkt stenst ekki lög. Eins hafa verið hugmyndir að vísa hjólafólki af ákveðnum íslenskum þjóðvegum og bjóða upp á grófa slóða í staðinn, slíkt er ekki boðlegt.

Ekki hægt að fylgja lögum?

Lágmarkskrafa er að hægt sé að komast um án þess að brjóta lög en í dag eru á nokkrum stöðum í borginni umferðarstýrð ljós sem nota skynjara sem fæstir skynja reiðhjól. Hjólreiðafólk sem ekki getur beðið endalaust eftir bíl til að fá grænt ljós neyðist til að fara á svig við lögin. Þetta minnkar virðingu fyrir lögum og stungum við upp á nokkrum leiðum til að bæta úr þessu enda viljum við fylgja lögum.

Öðrum en reiðhjólum bannað að fara í gegn

 

 Öðrum er reiðhjólum bannað að fara beint í gegn.

Ein leið væri að undanskylja hjólreiðafólk með sérstöku “nema hjól” skilti eins og víða sjást erlendis og færi það þá yfir á eigin ábyrgð “þegar það er unnt án óþæginda eða hættu fyrir aðra umferð”. Svona má líka greiða leið hjólandi þar sem bifreiðum er stýrt fram hjá, svo sem gegnum botnlangagötur, gegn einstefnu þar sem aðstæður leyfa og víðar.

vinstri umferð á útivistarstíg
Hægri umferð hér en vinstri þarna

Línumerkingar á útivistarstígum eru með ólíkindum, þar sem fólki er ætlað að þverbrjóta allar almennar reglur um hægri umferð og óbrotnar línur sem gilda á akbrautum. Rannsóknir sýna að blandaðir göngu- og útivistarstígar eru hættulegri hjólreiðafólki en að hjóla úti á götu innan athyglissviðs bílstjóra – nánar um það hér á vef klúbbsins og hér eru myndir af línuruglinu.

Birtist fyrst í Hjólhestinum mars 2009