Hjólafærni Hjólafærni miðar að því að auka öryggi hjólreiðamanna í umferðinni og var fyrst kynnt á Íslandi á samgönguviku árið 2007. Í framhaldi af því hefur hópur áhugamanna um hjólreiðar unnið að því að koma Hjólafærni af stað á Íslandi, bæði með kynningum og námskeiðum. Hjólafærni er upprunnin í Bretlandi og hefur notið feikilegra vinsælda þar í landi. John Franklin hefur verið talsmaður Hjólafærni í Bretlandi og kom til Íslands til að kynna verkefnið. Hjólafærni er heildstæð stefna í menntun hjólreiðafólks þar sem hjólað er undir leiðsögn viðurkennds hjólakennara. Hjólreiðaþjálfunin skiptist í þrjú stig eftir aldri, getu og reynslu.

header.gif

Stig 1:

Grunnstig fyrir byrjendur á öllum aldri. Á þessu stigi er miðað við að þátttakendur kynnist hjólinu, þekki stillingar hjólsins og öryggisbúnað. Auk þess er gert ráð fyrir að þeir nái lágmarkshæfni í hjólreiðum svo sem að nota gíra rétt, geti stjórnað hjólinu af öryggi, geti litið í kringum sig, sleppt stýrinu með annarri hendi og gefið merki um beygju. Kennsla fer fram fjarri umferð og er fyrsta stigið undirbúningur áður en farið er út í umferðina.

Stig 2:

Byrjunarstig þar sem farið er yfir hvernig hjóla eigi í umferðinni. Þetta stig er fyrir alla sem hafa náð tilskyldum árangri á fyrsta stigi. Lágmarksaldur fyrir þátttöku á öðru stigi er 8 ára. Á stigi tvö er lögð áhersla á lykilatriði eins og að líta í kringum sig og athuga með umferð. Farið er yfir örugga stöðu hjólreiðamannsins á götunni. Kennt er hvernig byrja og enda eigi ferð og hvenær eigi að gefa merki til ökumanna í kring. Kennsla fer fram á rólegum umferðargötum.

Stig 3:

Lokastig hjólafærninnar sem felur í sér lengri hjólaferðir um stærri umferðargötum. Stig þrjú er einungis ætlað þeim sem hafa lokið stigi tvö, eru 12 ára og eldri og hafa öðlast reynslu og hæfni til að hjóla í umferðinni. Nauðsynlegt er að þekkja þær hættur sem eru í umferðinni og geta brugðist við þeim. Sá sem hefur lokið stigi þrjú telst vera fullgildur þátttakandi í umferðinni.

 

Kennaranámskeið

Í maí árið 2008 var ráðinn breskur Hjólafærnikennari til landsins til að halda kennaranámskeið í Hjólafærni. LHM og ÍFHK stóðu fyrir námskeiðinu auk þess sem Íþróttasamband Íslands (ÍSÍ) var bakhjarl þess og útvegaði aðstöðu fyrir námskeiðshaldið. Sex nemendur, allt vant hjólreiðafólk, sátu námskeiðið og fengu réttindi sem Hjólafærnikennarar að því loknu. Bókleg kennsla fór fram í húsnæði ÍSÍ og verkleg kennsla fór fram á hjólum í kringum Laugardalinn. Námskeiðið stóð yfir í fjóra daga. Farið var yfir mismunandi kennsluaðferðir og áhersla lögð á reynslunám nemenda. Enn fremur var farið ítarlega í öll þrjú stig Hjólafærnikennslunnar. Að lokum var fylgst með kennaranemum leiðbeina íslenskum ungmennum í Hjólafærni, alls um 40 tíma námskeið.

Kennsla í Hjólafærni

Haustið 2008 var fyrsta Hjólafærni­nám­skeiðið á Íslandi haldið. Að þessu sinni var nemendum í 6. og 7. bekk í Álftamýrarskóla boðið að taka þátt. Námskeiðið var hluti af þróunarverkefni við skólann. Öllum nemendum bekkjanna var boðin þátttaka og var námskeiðið kennt á skólatíma. Þátttaka var góð og skráðu 27 nemendur sig til leiks. Hámarksfjöldi þátttakenda í hverjum hóp í Hjólafærni eru sex nemendur og voru því fimm hópar. Kennd voru fyrstu tvö stig Hjólafærninnar og útskrifuðust 22 nemendur með formlegri athöfn á Evrópska umferðaröryggisdeginum 13. október sem tileinkaður var öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda.

Vorið 2009 er áætlað að bjóða upp á annað Hjólafærninámskeið í Álftamýrarskóla. Þá verður öllum nemendum í 4. og 5. bekk boðið að taka þátt.

Hjólafærni

Námsefni

Síðastliðið haust var safnað saman miklum upplýsingum um Hjólafærni og útbúið námsefni fyrir kennsluna í Álftamýrarskóla. Öll skjöl voru send til foreldra og forráðamanna þátttakenda á námskeiðinu. Þannig voru foreldrar virkjaðir í þátttöku barna sinna í Hjólafærni.

Kynningar

Hjólafærni hefur verið kynnt á ýmsum stöðum. Haldin var kynning hjá Umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar í ágúst árið 2008. Kynningin var ætluð áhugafólki um eflingu hjólreiða sem samgöngumáta. Þróunarverkefnið var kynnt starfsfólki í Álftamýrarskóla í byrjun september. Þá var einnig kynning á Akureyri í lok september á ráðstefnunni

Ný lög - ný tækifæri.

Markvisst hefur verið unnið að því að kynna Hjólafærni og komnir eru tengiliðir við verkefnið í menntamála-, heilbrigðis-, umhverfis- og samgönguráðuneytinu.  Verkefnastjórn hefur komið á tengslum við Umferðaráð og Umferðafræðslusvið lögreglunnar. Þá styður Vinnuskóli Reykjavíkur verkefnið. Einnig eru jákvæðar undirtektir við þessa fræðsluhugmynd hjá þeim deildarstjórum ÍTR sem verkefnastjórn hefur sett sig í samband við. Héðinn Unnsteinsson hjá heilbrigðisráðuneytinu styður verkefnið af heilum hug.  Endurmenntun Kennaraháskóla Íslands hefur lýst yfir vilja til samstarfs og býður aðgang að póstlistum sínum til kynningar. Vegagerðin hefur einnig tilnefnt samstarfsfulltrúa úr sínum röðum. Fræðsludeild Umferðarstofu hefur fengið kynningu á verkefninu og óskaði í framhaldinu eftir kynningarerindi frá verkefnastjórn fyrir málþingsröð sem Sigurður Helgason er með í undirbúningi. Nokkrir hjólandi lögreglumenn styðja einnig verkefnið.

Ökukennarafélag Íslands, Trygginga­félögin, Íþróttakennarafélag Íslands, Lands­björg og Grundaskóli á Akranesi (sem er heimaskóli í Umferðafræðslu) eru á lista okkar yfir samstarfsaðila sem við viljum kynna verkefnið og vonandi fá með í tenglanet verkefnisins.

Styrkir

Fyrsti opinberi styrkurinn, sem varð kveikjan að verkefninu, var veittur LHM 2007. Það var 200.000 kr. framlag úr Pokasjóði sem var nýtt til þess að fá John Franklin til landsins í samgönguviku það ár. Hann kynnti landsmönnum í fyrirlestrum sínum hugmyndirnar um Bikeability. Páll Guðjónsson hefur þýtt efni af fyrirlestrunum. Þeir hafa birst í Hjólhestinum sem ÍFHK gefur út auk þess sem efnið er aðgengilegt á heimasíðu ÍFHK www.fjallahjolaklubburinn.is  Á árinu 2008 hefur verkefnið hlotið tvo styrki frá menntamála­ráðuneytinu; úr Endurmenntunarsjóði grunnskóla, 668.000 kr. og Þróunarsjóði grunnskóla, 600.000 kr. Þá hefur Menntasvið Reykjavíkur styrkt verkefnið um 200.000 kr. og Íslenski fjallahjólaklúbburinn um 130.000 kr.

Nemendur í hjólafærni útskrifast

Framhald

Framundan er vinna við vandaða heimasíðu og námsefnisgerð í tengslum við Hjólafærni. Í nóvember 2008 skiluðum við umsókn til menntamálaráðuneytisins um styrk til námsefnisgerðar. Með vorinu vonum við að Hjólhesturinn verði fullmótaður sem íslensk teiknimynda-hjólaerkitýpa og verði kynntur börnum landsins á heimasíðu Hjólafærninnar sem unnið er að um þessar mundir. Verkefnastjórnin hefur leitað til Háskólans í Reykjavík um að vera með í samfélagsverkefni þeirra, Fræinu, sem gæti stutt við brautargengi Hjólafærninnar.

Í þeim þreng­ingum sem nú hafa orðið í þjóð­félaginu er ljóst að færri styrkir bjóðast. Það er hins vegar von okkar að ráðamenn sjái hversu mikill þjóðfélagslegur ávinningur getur orðið af því að efla og styðja við hjólreiðar í landinu.

Síðast en ekki síst hefur hjólalæknirinn doktor BÆK hafið störf. Hans verkefni er að gera við hjól og kenna hvernig eigi að laga biluð hjól. Það ætti að vera nóg að gera hjá honum en mikilvægt er að gera hann sýnilegri.

Aðstandendur Hjólafærni

Verkefnisstjóri Hjólafærni er Sesselja Traustadóttir hjólreiðakennari, grunnskólakennari og meistarnemi í lýðheilsuvísindum í HÍ. Hún er varaformaður Landssamtaka hjólreiðamanna og Íslenska fjallahjólaklúbbsins.

Morten Lange er eðlisverkfræðingur og vinnur hjá Símanum. Hann hefur  verið  formaður Landssamtaka hjólreiðamanna frá 2005 og er fulltrúi þeirra í Umferðaráði.

Árni Davíðsson, hjólreiðakennari, menntaður líffræðingur frá HÍ og starfar sem heilbrigðisfulltrúi í Mosfellsbæ.

Bjarney Gunnarsdóttir, hjólreiðakennari og kennaranemi við Íþróttafræðiskor HÍ. Hún mun ljúka B.S.-námi vorið 2009. Hún sá um hjólreiðaverkefni Vinnuskóla Reykjavíkur, Hjól í Borg, sumarið 2008.

Vilberg Helgason, hjólakennari og kerfisfræðingur í framhaldsnámi við HR.

Unnur Bragadóttir, margmiðlunar­hönnuður.

Kjartan Guðnason, deildarstjóri hjá Geislavörnum ríkisins.

Páll Guðjónsson hefur aðstoðað með gerð kynningarefnis auk þess sem Hjólafærni hefur nýtt sér þýðingar hans á efni Johns Franklin.

Birtist fyrst í Hjólhestinum mars 2009