2008 var sérlega gott ár fyrir Íslenska fjallahjólaklúbbinn sem telur nú metfjölda félaga. Klúbburinn stóð fyrir mjög blómlegu félagslífi; fjölbreyttum ferðum; skemmri og lengri ferðum innanlands og erlendis. Viðburðir í klúbbhúsinu voru líka fjölmargir og fjölbreyttir; myndakvöld, viðgerða-, ferðaundirbúnings-, teininga-, og vetrarbúnaðarnámskeið, konukvöld, kaffihúsakvöld og margt fleira. Hápunktur starfsemi ÍFHK '08 var samt án efa "Stóra Berlínarferðin" en 16 manna hópur hjólaði á 8 dögum frá Kaupmannahöfn til Berlínar og þriggja daga hjólaferðin um bakka Þjórsár.

Ný stjórn var kosin í október. Við þökkum fráfarandi stjórn undir forystu Péturs Þórs Ragnarssonar frábært starf sem skilað hefur klúbbnum í það sem hann er í dag. Stjórnin sem tekur við skipa: Formaður: Fjölnir Björgvinsson, varaformaður: Sesselja Traustadóttir, Gjaldkeri: Ásgerður Bergsdóttir, ritari: Edda Guðmundsdóttir og meðstjórnandi: Pétur Þór Ragnarsson og varamenn: Magnús Bergsson og Sólver Sólversson.

Þar að auki eru fjölmennar og kraft­miklar nefndir sem starfa sjálfstætt. Þær eru: Húsnefnd, ferðanefnd, og ritnefnd. Klúbburinn mun halda áfram á sömu  braut með sömu áherslum og undan farin ár, nema með mun kraftmeiri og sýnilegri hætti en áður. Enda er áþreifanleg þörf á virkum klúbbi, sem má sjá í gríðarlegri aukningu hjólreiða og auknum áhuga almennt. Sífellt fleiri sjá kosti þess að sameina í heilbrigðum lífsstíl, útiveru, hreyfingu, tíma og peningasparnað með hjólreiðum.

Ákveðið hefur verð að hafa opið hús ÖLL fimmtudagskvöld kl 20:00 (nema það lendi á helgidögum) stærri viðburðir verða auglýstir sérstaklega á póstlistanum eins og myndakvöld, námskeið o.þ.h. svo endilega kíkið á fjallahjolaklubburinn.is og skráið ykkur á póstlistann.  

Svo má ganga út frá því að einhver sérlega spennandi viðburður verði fyrsta fimmtudag hvers mánaðar. En fylgist vel með dagskránni á netinu því nýjum viðburðum gæti verið bætt inn í með skömmum fyrirvara. Vorið er á næsta leiti og verður dagskráin í takt við það. Myndakvöld, bíókvöld og viðgerðanámskeið verða á vordögum líkt og í fyrra. Svo taka við ferðaundirbúningsnámskeið,  ferðir - langar og stuttar frameftir sumri. Hápunkturinn í ferðunum í sumar verður Fjallabaksferðin 4. - 12 júlí. Í haust verða svo aftur myndakvöld og samantekt þar sem árið verður gert upp í máli og myndum.

Það er gríðarlega ánægjulegt að sjá hvað hjólreiðar hafa aukist jafnt og þétt undanfarin ár jafnt sumar sem vetur. Á morgnana á leið til vinnu í vetur hef ég varla séð stíg án hjólfara  eftir eitt eða fleiri reiðhjól í nýfallinni mjöllinni. Fyrir um fjórum árum, eða þegar ég var að byrja að hjóla til vinnu yfir vetrarmánuðina var það undantekning að sjá hjólaför í snjónum á minni leið. Reykjavíkurborg stendur sig líka betur í að ryðja stígana snemma á morgnana sem gera hjólreiðar raunhæfan samgöngumöguleika allt árið.


Fjölnir Björgvinsson formaður ÍFHK.

Hjólum heil og til fyrirmyndar.

Birtist fyrst í Hjólhestinum mars 2009