Horft út um bílrúðuÉg tók bílpróf 17 ára gamall árið 1975.  Eftir það snerti ég ekki reiðhjól fyrr en ég keypti mér eitt slíkt árið 1986.  Í þessi 11 ár keyrði ég bara og keyrði.   Síðan hef ég verið nokkuð duglegur við að hjóla.  Í þau 22 ár sem liðin eru síðan ég uppgötvaði hjólið í annað sinn, hef ég ávallt haft bæði bíl og reiðhjól til umráða og hef nokkuð góðan samanburð á þessum gripum sem samgöngutækjum.  Ég hef búið í Reykjavíkurborg, í litlu sveitaþorpi úti á landi og ný bý ég á sveitabæ.  Reynsla mín er því töluverð!

 

Stundum hef ég lesið af athygli dóma um nýja bíla, t.d. jeppabifreiðar.  Þá hefur mér oft flogið í hug samanburður við reiðhjól og fundist reiðhjól koma furðu vel út í samanburðinum.  Og satt að segja hafa reiðhjól yfirburði yfir jafnvel fínustu jeppa á sumum sviðum.

Við skulum ímynda okkur að við séum að lesa grein í bílablaði um nýjasta jeppann.  Blaðamaðurinn gæti t.d. bent á að bílstjórinn sitji hátt og sjái vel yfir umhverfið.  Ég er rúmlega 1,80 m á hæð og hef oft tekið eftir því þegar ég sit á reiðhjólinu mínu við hliðina á t.d. venjulegum Pajero-jeppa, að höfuð mitt er í nákvæmlega sömu hæð og höfuð bílstjórans. Hjólreiðamaðurinn sér að þessu leyti alveg jafnvel yfir umhverfi sitt og sá sem situr undir stýri á jeppanum.  1-0 fyrir reiðhjólinu (eða kannski 1-1).

Blaðamaðurinn gæti einnig vakið athygli á því að jeppinn sé það vel hannaður að gluggapóstar og annað slíkt skyggi mjög lítið á útsýni ökumannsins.  Aftur skulum við huga að hjólreiðamanninum.  Það eina sem takmarkar útsýni hans eru hálsliðirnir!  Það eru engir gluggapóstar á reiðhjólum sem skyggja á útsýni hjólreiðamannsins.  2-0 fyrir reiðhjólinu.

Blaðamaðurinn benti enn fremur á að jeppinn kæmist vel áfram í torfærum.  Hjólreiðamaðurinn kemst þó stundum víðar.  Einu sinni hjólaði ég Grettisgötuna sem er þröng gata með einstefnu.  Þar er nóg að einn bíll stöðvi og þá komast hinir fyrir aftan hvorki lönd né strönd vegna þess.  Þessi torfæra stöðvaði reiðhjólamanninn hins vegar ekki að neinu leyti.  Hann komst auðveldlega áfram.  Við skulum m.a.s. ímynda okkur að búið væri að grafa skurð þvert yfir Grettisgötuna.  Gatan væri þar með orðin ófær öllum bílum.  Hjólreiðamaður gæti farið upp á gangstétt og komist þannig áfram.  Jafnvel þó skurðurinn ryfi gangstéttirnar líka gæti hjólreiðamaðurinn alltaf farið af baki og vippað hjólinu yfir skurðinn!  Það gæti jeppakallinn aldrei.  3-0 fyrir reiðhjólinu.

Sjaldan er fjallað um gífurlegan aðstöðumun bílstjóra og hjólreiðamanna á höfuðborgarsvæðinu.   Oft er þá látið sem þetta sé bílstjórum í hag, en það er alveg öfugt.  Aumingja bílstjórarnir verða að láta sér nægja göturnar.  Hjólreiðamennirnir geta hins vegar hjólað bæði á götum og göngustígum.  Gaman væri nú ef íslenski fjallahjólaklúbburinn tæki saman annars vegar heildarvegalengd alls gatnakerfisins á höfuðborgarsvæðinu og hins vegar samanlagða heildarvegalengd gatnakerfis og göngu- og hjólreiðastíga á höfuðborgarsvæðinu.  Þá myndi menn skilja um hvað ég er að tala. 

Þeir sem byrja að hjóla í Reykjavík verða oft undrandi á því hvað hjólreiðamenn eru fljótir á milli borgarhverfa.  Það er m.a af því að bílar eru afskaplega stirðbusaleg farartæki, einkum í eldri hluta Reykjavíkur og einnig af því að þeir hafa það umfram bílana að hafa aðgang að göngu- og hjólreiðastígum til viðbótar götunum (og auðvitað hikum við ekki við að nota göturnar).  4-0 fyrir reiðhjólinu.

Hjólreiðamaðurinn stígur af baki með góðri samvisku hress, kátur og endurnærður.  Bílstjórinn gerir það ekki.  5-0 fyrir reiðhjólinu.

"Var ekki voða erfitt að hjóla í þessari rigningu?" er maður stundum spurður þegar maður hjólar í borginni.   Auðvitað getur hjólreiðamaður lent í hellirigningu, en það er satt að segja frekar sjaldgæft.  Aftur á móti búa bílstjórar við tvöfalda blekkingu sem ýkir rigningu fyrir þeim:

Í fyrsta lagi er stór framrúða 30-50 cm fyrir framan augun á bílstjórum en ekki hjólreiðamönnum.  Á þessari rúðu sést hver einasti regndropi mjög vel, eðli málsins samkvæmt.  Allir dropar hversu smáir sem þeir eru trufla bílstjórann og hann verður að láta þurrkurnar ganga.  Þetta getur valdið því að smáúðarigning vekur svo sannarlega athygli bílstjóranna á meðan hjólreiðamennirnir taka (bókstaflega) ekki eftir henni.  (Það gera þeir að vísu ef þeir hafa gleraugu, enda er ég með linsur!)

Í öðru lagi eru bílstjórar oft að aka á 40-60 km hraða innan um um aðra bíla á blautum götum.  Við þennan akstur þeyta þeir bleytu hver á annan.  Hjólreiðamaðurinn getur verið á góðri siglingu t.d. á hjólreiðastíg eða kyrrlátri umferðargötu (því hjólreiðamenn forðast umferðarþungar götur ef þeir geta) og þótt stígurinn eða gatan sé blaut truflar það hjólreiðamanninn ekkert á siglingunni.  Hann fær engar skvettur á sig.  6-0 fyrir reiðhjólinu.

Að lokum má nefna einn kost við hjólreiðar umfram bílferðalög þegar fleiri en einn ferðast saman.  Það getur nefnilega komið fyrir að einn úr hópnum leysi vind með tilheyrandi ólykt.  Ef þetta gerist um borð í bíl, þá er það frekar óskemmtilegt fyrir alla.  Ef þetta gerist meðal hjólreiðamanna, ja þá vita hinir aldrei af vindgangi þess sem vindinn leysir.  En þetta þekki ég náttúrulega bara af afspurn...

Síðan má bera saman orkunýtingu reiðhjólsins annars vegar og jeppans hins vegar.  Einnig himinhrópandi mun á rekstrarkostnaði.  Best er þó að hjólreiðar lengja lífið!   Það gerir akstur í bíl ekki.

Einar Örn Thorlacius

Svarfhóli, Hvalfjarðarsveit