DofriGóð tilfinning er titillinn á þessari færslu Dofra Hermannssonar á blogginu. Hann hefur verið duglegur að hjóla eins og lesa má og því bætum við honum á listann okkar yfir bloggsíður þar sem bloggað er um hjólamálefni ásamt öðru sem vert er að fylgjast með.


Góð tilfinning

Undanfarnar 6 vikur hef ég hjólað í vinnuna. Þetta eru rúmlega 100 km á viku svo miðað við meðaleyðslu á bíl er ég að spara mér um 8 þúsund í bensín á mánuði. Það er góð tilfinning.

Ef ég færi á bíl í vinnuna þyrfti það í raun að vera bíll nr. 2 á heimilinu og miðað við lítinn bíl væri kostnaður við rekstur - fyrir utan eldsneyti - um 50 þúsund á mánuði. Sparnaðurinn með því að vera á hjóli er því kominn upp í 58 þúsund á mánuði. Aftur góð tilfinning.

Ég er að jafnaði um 10 mínútum lengur á milli Grafarvogs og miðbæjar á hjóli en í bíl og samtals tapast þarna um 20 mínútur á dag eða um 100 mínútur á viku. Á móti kemur að ég get með góðri samvisku sleppt því að fara í ræktina en 100 mínútur duga eru einmitt mátulegar fyrir eina slíka ferð.

Mánaðaráskrift að líkamsrækt er tæpast undir 5 þúsund krónum á mánuði svo með því að hjóla er ég í rauninni að fara í ræktina 10 sinnum í viku og spara mér um 63 þúsund krónur á mánuði. Til að fá þessa upphæð í vasann þarf maður að hafa rúmlega 100 þúsund fyrir skatt svo það má segja að með ákvörðuninni um að hjóla í vinnuna í stað þess að nota bíl nr. 2 til og frá vinnu hafi maður fengið 100 þúsund króna launahækkun. Góð tilfinning.

Í gær fékk ég vindinn í fangið á leiðinni heim. Mér lá ekkert á svo þetta var skemmtileg áreynsla þótt sandfokið við Björgun í Bryggjuhverfinu hafi hvorki verið notalegt fyrir augu eða tennur.
Í morgun var vindurinn hins vegar í bakið og mig bar létt yfir. Það er notalegt að byrja daginn þannig.

Það skemmtilega við að hjóla undan vindi, fyrir utan áreynsluleysið, er að öll hljóð verða manni samferða í vindinum. Þannig heyrir maður hljóðin í dekkjum, keðjum, stígnum og laufblöðum á allt annan hátt en venjulega. Það er líka eins og maður ferðist í einhvers konar lofttómi.

Líka góð tilfinning.