morgunbladidÞetta er yfirskriftin á ýtarlegri umfjöllun í Morgunblaðinu 1. júní 2008. Þar er farið yfir stöðu hjólreiða hér á landi, stígar þræddir um höfuðborgarsvæðið og rýnt fram á veginn. Greinin er eftir Pétur Blöndal og er hin athyglisverðasta lesning fyrir hjólafólk. PG.


Morgunblaðið 1. júní 2008

Sífellt fleiri Íslendingar nota reiðhjól til að komast leiðar sinnar. „Það vilja allir vera í formi og ferskir á því," segir Sesselja Traustadóttir, varaformaður Landssamtaka hjólreiðamanna, „en það breytir miklu hvað bensínlítrinn er hár - þá leitar fólk nýrra leiða. Ég keypti síðast bensín í febrúar og hef ekkert saknað þess að þurfa ekki að kaupa meira bensín!"

Þrátt fyrir nokkra vakningu er hjólreiðafólk þó í miklum minnihluta þegar horft er til bílaeignar landsmanna. Og leiddar eru líkur að því að aukin reiðhjólanotkun komi fyrst og fremst fram í því að fólk selji þriðja bílinn á heimilinu. 

Segja má að „kúnnar" hjólastíganetsins um höfuðborgarsvæðið séu tvennskonar, annarsvegar þeir sem hjóla í vinnuna allan ársins hring og vilja fara sem stystar leiðir og hinsvegar þeir sem nota stígana til útivistar og hjóla kannski annað slagið í vinnuna.

Ef til vill er langt seilst að tala um „hjólastíganetið", því eiginlegir hjólastígar eru aðeins tveir, en gangandi vegfarendum er meinað að nota þá. Sjötíu metra kafli á Laugaveginum varð fyrsti íslenski hjólastígurinn og svo var lagður sérhannaður hjólastígur um Lönguhlíðina. En í þessari grein og á meðfylgjandi korti skírskotar „hjólastíganetið" til „aðalstíga", sem eru fyrir blandaða umferð hjólandi og gangandi. 

300 milljónir í hjólastíg

Breyttan tíðaranda má kannski helst merkja á því að sífellt fleiri taka þátt í átakinu „Hjólað í vinnuna", en einnig á fjárframlögum til hjólastígagerðar, sem hafa stóraukist. Þar munar líklega mest um hjólastíg sem lagður verður í sumar frá Ægisíðu í Elliðaárdal, en kostnaður við þá framkvæmd er áætlaður um 300 milljónir

„Hjólastígurinn er lagður til þess að greiða fyrir umferð hjólreiðamanna og draga úr slysahættu," segir Gísli Marteinn Baldursson borgarfulltrúi. „Víða er farin styttri leið með hjólastíginn, sneitt hjá kröppum beygjum, jafnaðar út brekkur og krækt hjá blindbeygjum, svo sem við dælustöðina út frá Reykjavíkurflugvelli. Á Suðurgötu næst tenging við Háskóla Íslands og þegar Háskólinn í Reykjavík rís í Öskjuhlíðinni tengist hann einnig stígnum. Þá er lagt upp með að framlengja stíginn alla leið í útivistarperluna Heiðmörk í framtíðinni." 

Gísli Marteinn segir fjölgun hjólreiðamanna næsta „risaskref" í grænu skrefunum, en þegar hafi farþegum með strætó verið fjölgað um milljón á ári, sem ella væru á bílunum sínum. „Þetta er hljóðlát bylting í borginni."

Krókar og útúrdúrar

Ekki fer þó á milli mála að margt má enn laga í samgöngum fyrir hjólreiðafólk, ekki síst í samanburði við hjólaborgir erlendis, og um margt eru Íslendingar enn á byrjunarreit. Tengingum er einkum ábótavant þegar kemur að því að ferðast á milli stórra hverfa og segir Sesselja það bagalegt. „Allir hjólreiðamenn eru til dæmis sammála um að það er hræðilega vont að ferðast úr Breiðholti í Hafnarfjörð. Og það er skrýtið að ekki skuli gert ráð fyrir þessari stóru samfélagslegu fjárfestingu, því hér eru samgöngumál ofarlega á baugi."

Skortur á leiðum fyrir hjólreiðamenn á milli norður- og suðurhluta Reykjavíkur er einnig áberandi. „Það eru ágætar tengingar á milli austurs og vestur, svo sem meðfram Miklubrautinni og um Fossvoginn, en það á enn eftir að ljúka við stíginn um Snorrabraut og Hofsvallagötu," segir Pálmi Freyr Randversson hjá umhverfis- og samgöngusviði borgarinnar. „Það mætti gera betur í þeim málum, en við munum þó ljúka við Suðurgötu á þessu ári." 

Í því felst stefnubreyting þegar akreinar fyrir bíla verða þrengdar á Suðurgötu og yst á götunni verða akreinar í báðar áttir merktar hjólaumferð. Það verður því ekki lagður stígur utan götunnar, eins og oftast hingað til í Reykjavík. Pálmi Freyr segir þetta ódýrari og fljótlegri lausn og að með þessu móti sé hægt að búa til fleiri hjólaleiðir á skemmri tíma.

Eins þykir hjólreiðamönnum seinlegra að fara sérstaka hjólastíga, oft með krókum og útúrdúrum, í stað þess að fylgja bílaumferðinni stystu leið. Reynslan er sú að sérstakir hjólastígar utan götunnar séu jafnvel hættulegri, því ökumenn eru síður meðvitaðir um þá. Í Kaupmannahöfn er slysatíðni einna mest þar sem hjólreiðafólk kemur af slíkum stígum og ætlar yfir göturnar, en þá er hættan sú að beygt sé í veg fyrir það.

Ákvörðun sveitarfélaga

Kvartað er undan því að tengingum sé afar ábótavant fyrir hjólreiðafólk á milli bæjarfélaga. Gagnrýnt var nýverið að hjólreiðastígar skyldu ekki hafa verið lagðir við tvöföldun Vesturlandsvegar og Reykjanesbrautar í umfangsmestu vegagerð síðari ára á höfuðborgarsvæðinu. „„Það er svolítið vandræðalegt að ekki sé hægt að hjóla héðan og til Keflavíkur," segir Sesselja, „að ekki sé gert ráð fyrir þessum umhverfisvæna samgöngumáta." 

Ein af skýringunum er sú að Vegagerð ríkisins sér um framkvæmdir við stofnbrautir en hafði fyrst á þessu ári lagalega heimild til að fjármagna hjólastíga meðfram þeim. Fram að því hafði Vegagerðin aðeins leyfi til þess að fjármagna reiðstíga, sem er kannski lýsandi fyrir tíðarandann í samgöngumálum á Fróni.

Hreinn Haraldsson vegamálstjóri reiknar með því að ákvörðunin um hjólastíga verði áfram í flestum tilvikum „meira á hendi sveitarfélaga", en Vegagerðin komi að fjármögnun og hönnun ef hjólastígar liggi við stofnbrautir. Lagning hjólastíga á milli byggðarlaga hljóti hinsvegar að verða í meiri forgrunni eftirleiðis. „Oft koma tvö eða fleiri sveitarfélög við sögu og þá er það á okkar könnu að ræða við viðkomandi sveitarfélög, hvort þau vilji hafa hjólastíga inni á skipulagi hjá sér." 

Hann segir ekki mörg erindi berast varðandi hjólastíga, en umræða fari vaxandi um meiri aðkomu Vegagerðarinnar. Sjálfur fær hann stundum lánað hjól sonar síns, sem er í Háskólanum á Akureyri, 21 gírs rauðbrúnt DBS-fjallahjól, „helvíti flott", og hjólar þá í Elliðaárdalnum. „Ég tók reyndar ekki þátt í átakinu Hjólað í vinnuna, en Vegagerðin lenti þar í fjórða sæti."

Hetjurnar á vegunum

Umferðin á þjóðvegunum getur verið varhugaverð fyrir hjólreiðafólk, enda eru hjólum eru ekki helgaðar sérakreinar. Sesselja segir mikilvægt að miðla því til bílstjóra hvernig það sé fyrir hjólreiðamenn að mæta þeim á þjóðvegum landsins. „Nú er sumarið að byrja og þá verður hjólreiðafólk á hringveginum. Það halda alltaf einhverjir að það sé gaman og ætla sér að standa við það, þó að flestir fari aðrar leiðir."

Hún nefnir sem dæmi að ef hjólað sé á vegi með 90 km hámarkshraða, eins og til dæmis þurfi að gera á milli Reykjavíkur og Selfoss, þá sé tillitssemi að bílstjórar á dragi aðeins úr ökuhraðanum og bíði færis að taka smásveig, ekkert síður en ef þeir tækju fram úr dráttarvél. „Er það til of mikils mælst þegar haft er í huga að bílstjórar keyra varla framúr fleiri en tveim hjólreiðamönnum á mánuði?"

Og hún bætir við:

„Það væri líka vel til fundið af þeim sem mæta hjólreiðamönnunum að hægja á sér svo þeir feyki hjólunum ekki út af veginum. Svo er óþægilegt ef flautað er leiðinlega á okkur. Sjálf verð ég alltaf hálfklökk þegar ég sé hjólafólk á hringveginum, því mér finnst það svo miklar hetjur. Helst vildi ég eiga hristu til að hvetja það áfram!"

Bílar hafa forgang

Bílar hafa gjarnan haft forgang hér á landi og stóð raunar til að Nauthólsvíkin yrði vegstæði fyrir bíla, „en sem betur fer var hætt við það," segir Pálmi Freyr. „Það átti að leiða umferðina þeim megin við Öskjuhlíðina, enda góð tenging við Vesturbæinn, en nú eru þar aðeins stígar fyrir gangandi vegfarendur og hjólreiðamenn." Sumum þykir reyndar nóg um hversu mannvirki Háskólans í Reykjavík teygja sig nálægt útivistarsvæðinu.

Annað er lýsandi fyrir þann forgang sem bílar hafa í umferðinni. Hjólreiðafólk kvartar undan því að þegar til dæmis Orkuveita Reykjavíkur grafi skurði eða verktakar grunna, þá séu engin tímamörk á því hversu lengi megi stöðva umferð gangandi fólks eða reiðhjóla. Ef bílaumferð sé trufluð séu hinsvegar strax gerðar ráðstafanir. Það eigi að setja þeim tímamörk sem hindri umferð hjólandi og gangandi og auglýsa þau. 

Þess er þó farið að gæta að stjórnvöld sýni meiri áhuga á að koma til móts við hjólreiðafólk og aðra þá sem velja aðrar samgönguleiðir en bensínfáka. Til marks um það eru orð Geirs H. Haarde forsætisráðherra, sem sagði í nýlegu viðtali í Morgunblaðinu að Íslendingar yrðu að breyta neyslumynstri sínu hvað varðar olíuvöru og reyna að færa sig „yfir í aðra orkugjafa og eyðsluminni tæki".

Hægri rétt á stígum

Að einu leyti eru hjólreiðamenn betur settir hér á landi en víða erlendis. Hér hafa þeir val um hvort þeir eru á gangstéttum eða á götum.

„Við erum gestir á gangstéttum og eigum að ganga vel um og láta vita af okkur kurteislega," segir Sesselja. En hún kvartar undan því að stundum séu sérmerkingar á göngustígum fyrir reiðhjól, en fáir viti hvernig eigi að umgangast slíkar merkingar og af því geti skapast slysahætta. „Í raun verðum við að fá almennilegan hægri rétt á stígum, eins og tíðkast í almennri umferð." 

Og það er nauðsynlegt fyrir hjólreiðamenn að fá líka vera á götunum „Það er mikils virði að litið sé á reiðhjól sem ökutæki," segir Sesselja. „Við megum alltaf vera á götunni, líka þó að stígur sé nálægur. Enda er hættan síst meiri á götunum. Við sem höfum lært hjólafærni höfum lært að vera sýnileg á götunni og tökum stundum ríkjandi stöðu á akrein þegar við komum að gatnamótum til að við dettum ekki úr sjónlínu. Oft þarf að hægja aðeins á bílnum sem kemur á eftir, en á flestum götum er það eðlilegt og víðast hvar er of mikill hraði í kringum íbúðahverfi. Það er því ávinningur að fá reiðhjól inn í umferðina." Sesselja byrjaði á sínum tíma að hjóla reglulega í átakinu Hjólað í vinnuna. „Þá kemst maður að því hvað borgin er lítil. Með því að fara ýmsa króka og hliðarleiðir ná hjólreiðamenn ótrúlega stuttum leiðum á milli áfangastaða í borginni. Ef það er einstefna, þá förum við bara upp á gangstétt. Það má alveg!" segir hún og hlær.

Á fimmtán mínútum

Í grænu skrefunum, stefnumörkun borgarinnar í umhverfismálum, er lagt upp með að fjölga verulega hjólreiðamönnum í borginni. Þar varðar mestu að bæta aðstöðu reiðhjólafólks með því að leggja betri hjólreiðastíga og tryggja öryggi hjólreiðamanna, að sögn Gísla Marteins.

„Það þarf líka að kynna þennan ferðamáta fyrir fólki," segir hann. 

„Það átta sig til dæmis ekki allir á því hversu langt er hægt að komast í Reykjavík á 15 mínútum. Við ætlum að fjölga verulega hjólastígum í borginni og breyta viðhorfum þannig að litið verði á hjólreiðar sem samgöngumáta, ekki bara frístundagaman."

15 mínútna kortið, sem Gísli Marteinn vísar til, er ein af þeim nýstárlegu hugmyndum sem hrint hefur verið í framkvæmd til að auka veg hjólreiða. „Við ákváðum að vinna gegn þeim mýtum sem standa í veginum fyrir hjólreiðum, svo sem að ekki sé hægt að komast í sturtu, það sé svo mikið af brekkum, það sé alltaf rok og byggðin sé alltof dreifð," segir Pálmi Freyr. 

„Fyrsta verkefnið var að sýna hversu fjarlægðirnar eru í raun litlar í Reykjavík. Ráðlagður dagsskammtur af hreyfingu er hálftími og við athuguðum því hversu langt fólk kæmist á kortéri, miðað við að það færi til og frá vinnu. Ég fór í þungamiðju Reykjavíkur og hjólaði þaðan, bara á aðalstígum, og stillti símann þannig að hann hringdi eftir kortér. Ég hélt að síminn ætlaði aldrei að hringja og trúði því varla hvað ég komst langt. Maður nær eiginlega yfir alla borgina á korteri. 40% af störfum á höfuðborgarsvæðinu eru á smáfrímerki og það búa ansi margir í kortérsfjarlægð frá því svæði."

- Og þarna varstu ekki kominn á nýja hjólið! „Nei, akkúrat," segir hann og hlær. „En þetta var fínn dagur í vinnunni."

Hjólaborgin Reykjavík

Gísli Marteinn segist vilja koma því inn í allt stjórnkerfi Reykjavíkurborgar að þegar hannaðar séu nýjar götur, ný hverfi eða opinberar byggingar, þá sé alltaf hugsað fyrir hjólreiðafólki. Ekkert sé því til fyrirstöðu að Reykjavík verði réttnefnd „hjólaborg". 

„Margar borgir, þar sem hjólreiðar eru algengari, eru mun hæðóttari og veðrið þar er svipað og hér. Og við erum öll vön því að hjóla, hjólum mikið sem krakkar, þannig að ég er sannfærður um að við getum smám saman aukið hlut hjólreiða í samgöngum og að það verði valkostur að hjóla til og frá vinnu einu sinni í viku eða oftar."

En mörg fyrirtæki mættu vera duglegri við að hvetja starfsfólk sitt til að ferðast til og frá vinnu á hjólum, að mati Gísla Marteins. „Það er ótrúlegt að horfa upp á annars framsækin fyrirtæki eyða hundruðum milljóna í bílastæði, en hreyfa ekki litla fingur til þess að hvetja fólkið sitt til þess að koma til vinnu á reiðhjóli og umbuna því í staðinn. Enda þarf þá ekki að leggja undir það bílastæði." 

Hann bendir á að erlend stórfyrirtæki séu iðulega með samgöngustefnu, sem gangi út á að greiða fyrir samgöngum starfsmanna á sem ódýrastan, einfaldastan og umhverfisvænstan hátt. Inn í það spili heilsufar starfsmanna, en starfsfólk sem hjólar til vinnu notar að jafnaði færri veikindadaga.

Þó megi sjá þess merki að þetta sé að breytast hér á landi. „Heilbrigðisráðherra hefur til dæmis fengið okkur hjá umhverfissviði Reykjavíkur til að gera drög að samgöngustefnu fyrir Landspítala-háskólasjúkrahús," segir Gísli Marteinn. „Markmiðið er að búa til kerfi í samstarfi við starfsmenn spítalans, sem er þá þannig að ef starfsmaður kemur í strætó eða á reiðhjóli til vinnu, þá er komið til móts við hann í staðinn. Honum stendur til boða reiðhjól ef hann vill skjótast eitthvað í hádeginu og það verður til staðar lítill umhverfisvænn bíll ef hann þarf til dæmis að flýta sér til að sinna veiku barni." 

Slík samgöngustefna leysir mörg vandamál að mati Gísla Marteins, minnkar umferð á götunum, dregur úr mengun og minnkar bílastæðaþörf. Um leið minnkar umferðarvandinn sem stærsti vinnustaður landsins skapar í sínu nánasta umhverfi.

„Í þessu eiga ekki að vera nein boð og bönn," segir hann. „Starfsmenn geta komið á bíl ef þeir raunverulega þurfa, en með því að bjóða upp á aðra valkosti, þá sýnir reynsla annarra þjóða að starfsmenn velja fjárhagslega hagkvæman kost fyrir sjálfa sig og fyrirtækið verður vænna og grænna með því að umbuna þeim fyrir það." 

Slík stefna hefur verið rekin að nokkru leyti á umhverfissviði Reykjavíkur, að sögn Gísla Marteins. „Hún hefur gefist ákaflega vel, sparað peninga og áreiðanlega bætt heilsu starfsfólksins. Nú er í undirbúningi að gera slíka stefnu fyrir alla borgarstarfsmenn sem vonandi lítur dagsins ljós á næstu mánuðum."