ÞÚ! Bílguðinn sem ökumenn nútímans tigna með því að aka sem óðir séu um mjóslegna bifreiðastíga samfélagsins, svo sem þú gerðir við vagn hafra þinna um ómælisvíddir himinsins. Þú sem umluktir andrúmsloftið með brennisteinsstækju eldinganna og hljóðmengun þrumunnar. Þú sem lést hamarinn falla á allt það er þér var skapi mót. Tókst þú tillit til annarar umferðar eða mannfólksins?

Nei, þér var það heilagt að hafa frelsi til að tortíma óvinum þínum, sitja í eigin gleði yfir óförum umheimsins. Þú varðir þitt ættfólk, þitt kyn af afli er tæki og tól fólu þér í hendur, án þeirra varstu æði smár og bjargarlaus. Svo er líka í dag um dýrkendur þína og afkomendur sem þeysast um í járnvögnum sínum, troðast um heiminn sem væru þeir einir til. Þeir æða um með hávaða og útblástursmengun, útvarpstæki og geislaspilara svo hátt stillt að heyrist vel í 400-500 metra fjarlægð, blaðrandi í farsíma undir stýri. Leggjandi vögnum sínum sem væru þeir einir í heiminum til þess að komast sem fyrst að veisluborðum hafurkjötsins. Renna yfir eyjar, stéttir og kanta.

En munur er á, þeir eru bara að berjast hver fyrir sig en ekki fyrir ættbálkinn allan, sem þú þó gjörðir. Þessir þínir afkomendur falla í stafi er finnast hraðskreiðari og stærri eiturspúandi hávaðavagnar sem mögulegt er að nota til að spilla friðsömu lífi. Á gúmbelgjum goðanna hrekja þeir saklaust mannkynið út í ragnarök er tortíma öllu sem eðlilegt getur talist í sambúð ættflokks eða kynflokks. Þeir munu þó sjálfir, svo sem goð þeirra, þurfa að berjast. Vita þó sem þið að þeir munu farast. Og það mun kannski helst vegna æðisins í þessari veröld

HVER? Skipti kyni til þess eins að ná aftur morðtóli sínu, og til hvers eru afkomendur þínir líklegir? Víst er að ökuþórar nútímans taka álíka mikið tillit til umhverfis og atferlis þeirra sem kringum þá eru og þú mikli þrumuguð. Hafurvagnar nútímans eru hávaðatól, en í stað hamars þíns til þrumu og eldingagerðar, hafa menn búið vagnana öllum þeim tækjum sem trufla mega umhverfið og menga, enda öll athygli afkomendanna á tækjadraslinu.

Því er engin furða að slóð eyðileggingar og slysa sé eftir því, svo var víst einnig um þig. Menn spenna megingjarðir og setja upp járnglófa halda svo í umferðina tilbúnir í hvaða bardaga sem vill. Af tólum þessum eru megingjarðir það eina vitræna við aksturinn því þær halda mönnum kyrrum í sætum sínum.

Slík og þvílík eftiröpun guða gjörða, er ekki á mannanna færi og því skyldu þeir hægja á sér í tilveruhlaupinu, aga sig betur til að lifa í samfélagi með öðrum.

Björn Finnsson. 

Að ákalla guði og apa þeim eftir
Ætla sér bara innra heftir,
Þór! Aga þína þursa og menn
Þrælana alla eignast þú senn.

BF