Reiðhjól eru lagalegur hluti af umferðinni, þeim er þar ætlaður staður meðal kraftmikilla bíla en hafa heimild til nota af gangbrautum. Svo er að sjá sem almennt sé af yfirvöldum litið svo á að hjól séu skemmtitæki, en hvarflar vart að nokkrum í þeim opinbera geira, hvaða hagræði og heilbrigði er af slíkum farartækjum til samgangna.

Um hundruðir ára ferðuðust íslendingar fótgangandi um land sitt, þó yfirstéttir hvers tíma ættu hesta til ferðalaga. Nú er svo komið að ekki er gert ráð fyrir þeim ferðamáta heldur, því hvert umferðarmannvirkið eftir annað er hannað einvörðungu fyrir bifreiðar. Ætla mætti að fornum ferðamáta væri ætlaður staður í samgöngukerfi landsins, en svo er ekki. Hjólum er hinsvegar ætlaður staður meðal bílanna og því spyr maður hvort yfirvöld beri ekki ábyrgð á að skilja sundur þessa gjörólíku fararmáta.

Óvarinn hjólreiðamaður hefur enga möguleika til að fylgja hraðamörkum fyrir bifreiðar nema í 30 km. hverfum. Skylda hans er hinsvegar að hjóla í umferð bílanna.

Til eru undantekningar þar sem er heimild til að nota gangstíga, en það er einvörðungu í þéttbýli sem slíkir finnast. Það getur vel verið að samgönguráðherra hvers tíma líti á reiðhjól sem tæki í heilsuræktarstöðvar. En öðruvísi er því farið. Nú þurfa umferðarmannvirki að fara í umhverfismat. Betra væri að setja slík í mannlífsmat. Kanna útblástur og hávaða, hugsanleg byggingarefni (asfalt virðist mjög mengandi), tilvonandi hraða samfara hættu fyrir gangandi mann og hversu ólífvænn lífmáti er á ferðinni. Annars má sýna fram á að fólk er sá þáttur umhverfissins sem ætti að vera sá stærsti, því ella erum við að þjóna mosþembum og grjótklumpum sem eru hluti af hinni eyðanlegu og síbreytilegu náttúru. Þar eru vindar og vatn, hiti og kuldi sem sífellt keppast við að eyða, mola og umbreyta.

Hvar hafa yfirvöld er ákvarða vegaframkvæmdir og hönnuðir slíkra mannvirkja, sett fram sín markmið í þessum efnum? Jú satt er að bíllinn er þeirra eina sanna markmið. Og nú hlægir mann að sjá spár um umferðaraukningu, þegar er ljóst að skráðir bílar eru fleiri en þeir sem hafa ökuréttindi. Ef aukningaspár reynast réttar út frá hvaða forsendum er gengið? Skyldi vera reiknað með mjög örri fjölgun fæðinga eða stórfelldum innflutningi fólks, eða bara framreikningur á gengdarlausum innflutningi bifreiða og áframhaldandi stóreyðslu manna. Það dugir skammt til aukningar því hver ökumaður ekur aðeins einum bíl.

Björn Finnsson.