Hjólreiðar um Reykjanes bannaðar?
  
Fyrirhugað er að tvöfalda Reykjanesbraut, og gera það í stíl þýsku autobahn hraðbrautanna og banna hjólreiðar meðfram hraðbrautinni líkt og gert er á hraðbrautunum þýsku.  Ólíkt Þýskalandi eru ekki aðrar hentugar leiðir sem hægt er að beina rólegri umferð á og því gæti farið svo að stjórnvöld banni hjólreiðar á lykilleiðum eins og t.d. milli Hafnarfjarðar og Straumsvíkur.
   Á Alþingi spunnust umræður um þessi mál um daginn þegar Kolbrún Halldórsdóttir spurði samgönguráðherra hvernig gert væri ráð fyrir að hagsmunum hjólreiðamanna verði gætt í áætlunum um tvöföldun Reykjanesbrautar og hvort mótuð hafi verið framtíðarstefna um aðbúnað og þarfir hjólreiðamanna á þjóðvegum landsins.
   Nokkrir þingmenn tóku til máls og allir sögðust þeir hafa skilning á þörfum hjólreiðafólks til að fara um þessa leið og ágæti þessa ferðamáta, en einn stakk þó upp á því að leysa málið með að setja fátæka hjólafólkið í ókeypis rútuferðir með opinberum stuðningi.
   Þegar þetta er skrifað eru umræðurnar ekki allar komnar á vef Alþingis en slóðinn á þessar umræður er: http://www.althingi.is/altext/126/03/l14143323.sgml

 PG 20/03/2001

(fyrir neðan eru umræðurnar eins og þær eru birtar á vef alþingis) 


Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Virðulegi forseti. Málefni þeirra sem komast vilja leiðar sinnar innan þéttbýlis á reiðhjólum hafa ekki verið fyrirferðarmikil í umræðunni um samgöngumál enda eru hjólreiðamenn minnihlutahópur eins og allir vita og örugglega ekki fýsilegur markhópur innflytjenda þeirra farartækja sem eru ráðandi í samgöngumálum.

Nú standa fyrir dyrum miklar framkvæmdir á vegum Vegagerðarinnar og hafa hjólreiðamenn verið að á vaktinni og gert athugasemdir við þær framkvæmdir sem komnar eru í formlegt umsagnarferli hjá Skipulagsstofnun og sömuleiðis hafa verið gerðar athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir sem kynntar hafa verið hjá skipulags- og umferðarnefnd Reykjavíkur. Hér er um að ræða mislæg gatnamót Hringvegar, Víkurvegar og Reynisvatnsvegar í Reykjavík og gatnamót Reykjanesbrautar og Breiðholtsbrautar og síðast en ekki síst tvöföldun Reykjanesbrautar.

Nú spyr ég hæstv. samgrh. tveggja spurninga er varða hagsmuni hjólreiðamanna:

Hvernig er gert ráð fyrir að hagsmunum hjólreiðamanna verði gætt í áætlunum um tvöföldun Reykjanesbrautar? Í því sambandi má minna á að þetta er ekki bara hagsmunamál innlendra hjólreiðamanna því hér er ekki síður mál sem tengist hagsmunum ferðaþjónustunnar. Þeim ferðamönnum fer fjölgandi sem koma hingað til lands í því augnamiði að ferðast á reiðhjólum um landið og það skiptir þennan hóp ferðamanna auðvitað verulegu máli að fyrstu kynni þeirra af vegakerfi okkar séu aðlaðandi og að vel sé hugsað fyrir þörfum þeirra. Þannig skiptir það miklu að vel verði hugað að hagsmunum hjólreiðamanna við tvöföldun Reykjanesbrautar.

Í öðru lagi legg ég þá spurningu fyrir hæstv. ráðherra hvort samgrn. hafi mótað framtíðarstefnu um aðbúnað og þarfir hjólreiðamanna á þjóðvegum landsins en það er að mínu mati ein ákjósanlegasta og áhrifaríkasta aðferðin við að draga úr útblæstri óæskilegra mengandi lofttegunda að efla möguleika landsmanna á því að ferðast á þennan umhverfisvæna og afslappaða hátt um vegakerfi landsins, jafnt innan þéttbýlis sem utan þess.

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Vegna fyrirspurnar hv. þm. hef ég leitað umsagnar Vegagerðarinnar um umferð hjólreiðafólks um Reykjanesbrautina eftir að hún verður tvöfölduð. Innan Vegagerðarinnar er þekkt að þarna er um talsverða umferð hjólreiðafólks að ræða og þá einkum og sér í lagi yfir sumartímann. Hins vegar eru ekki til upplýsingar um hversu mikil umferðin er og Vegagerðin ákvað því fyrir nokkru að láta fara fram sérstaka talningu í sumar á þessari umferð. Talningarfólk Vegagerðarinnar mun framkvæma skyndikannanir þegar ferðamannatíminn er í hámarki en einnig fyrir og eftir aðalferðamannatímann. Niðurstaða framangreindrar könnunar mun ráða miklu um framtíðarfyrirkomulag þessara mála.

Það er alveg ljóst að eftir að Reykjanesbrautin hefur verið tvöfölduð mun ekki verða heimilt að ferðast um hana á reiðhjóli. Umferð bifreiða og reiðhjóla fer ekki saman á hraðbraut af þeim gæðum sem stefnt er að með tvöfaldri Reykjanesbraut. Við skoðun á mögulegu fyrirkomulagi er ljóst að hægt er að beina reiðhjólafólki á eldri hliðarvegi frá Straumsvík að Vogastapa. Það sem eftir er leiðarinnar þarfnast sérstakrar skoðunar og um það verður fjallað í næstu framtíð samhliða því sem unnið verður að tvöföldun Reykjanesbrautarinnar.

Gerð hjólreiðastíga er fyrst og fremst skipulagsmál og er því í höndum sveitarfélaga þó heimilt sé að veita til þeirra fjárframlög samkvæmt 9. gr. vegalaga, nr. 45/1994, með síðari breytingum. Ýmsar aðrar leiðir koma einnig til greina til þess að tryggja aðskilnað hjólreiða og bifreiðaumferðar. Má þar nefna skýrar leiðbeiningar um leiðarval til hjólreiðamanna í Leifsstöð við komu til landsins og eins mætti athuga möguleika þess að flugvallarrúturnar geti tekið reiðhjól á þægilegan hátt í farangursrými sitt. Merkingar og eftirlit á sjálfri brautinni munu einnig koma hér við sögu og margt fleira sem er nauðsynlegt að vinna að til að auðvelda umferð hjólreiðamanna og umfram allt tryggja öryggi vegfarenda.

Að öðru leyti hefur ekki verið mörkuð sérstök stefna um aðbúnað og þarfir hjólreiðamanna á þjóðvegum landsins. Öllum má ljóst vera að hér er um verulegan kostnað að ræða ef leggja ætti hjólreiðabrautir með öllum þjóðvegum landsins. Á hitt er að líta og á það er nauðsynlegt að benda að með breikkun axla á Reykjanesbrautinni hefur öryggið aukist þar og aðstaða hjólreiðamanna batnað. En ég legg áherslu á að gera verður sérstakar ráðstafanir til að aðgreina umferð þeirra sem eru á reiðhjólum frá bílaumferðinni þegar búið er að tvöfalda Reykjanesbrautina.

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli en fyrir þinginu liggur einmitt þáltill. um að skipa nefnd um hönnun og merkingu hjólreiðabrauta og allir fulltrúar í umhvn. Alþingis eru flutningsmenn með mér að þessari tillögu. Fyrir það er ég auðvitað þakklátur.

Eins og kom fram er gríðarlega dýrt að leggja hjólreiðabrautir um allt land. Við erum kannski ekki að tala um það, við verðum að byrja smátt, við munum byrja í bæjunum, þetta eru skipulagsmál hjá borginni og í bæjarfélögum. Hér er um mjög umhverfisvænan ferðamáta að ræða, við erum að tala um Reykjanesbraut í þessu sambandi, Fjarðarheiðina líka þar sem hjólreiðamenn koma með ferju frá Norðurlöndunum. Ég fagna mjög þessari umræðu og auðvitað er nauðsynlegt að taka tillit til þessara mála vegna þess að hjólreiðar eru einn umhverfisvænsti ferðamáti sem hægt er að hugsa sér.

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er óhjákvæmilegt að gera hjólreiðamönnum kleift að komast leiðar sinnar og hvað Reykjanesbrautina varðar þá hljótum við þingmenn sem komum alltaf að þessum vegamálum í Reykjanesi að skoða hvernig hægt er að taka á þeim málum við þá tvöföldun sem fram undan er og fram hefur komið hjá ráðherra að þá verður ekki hægt að leyfa hjólreiðar um þá braut.

Ég hlýt að koma því að hér að Vogamenn hafa komið því að á flugvellinum hvað það er fögur leið að hjóla Strandveginn, fara niður í Vogana og hjóla Strandveginn. Það er undurfögur leið sem ég hvet þingmenn til að fara og skoða en hún er bara hluti af leiðinni. Þetta er í raun og veru mjög þýðingarmikill þáttur í ferðamennsku okkar. Mér finnst að á landinu öllu verðum við að stefna að því að gera þennan ferðamáta mögulegan án þess að fólk liggi í bílaumferðinni sjálfri eins og það er í dag þó svo að það sé langtímamarkmið að hjólreiðabrautir verði meðfram öllum vegum.

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég tek undir að hjólreiðar eru ákjósanlegur ferðamáti og þyrfti að búa sem best í haginn fyrir hjólreiðamenn á vegum en ég vil sérstaklega minnast á þetta út af Reykjanesbraut.

Það er ekki vansalaust hvernig umferðin á brautinni gengur fyrir sig, sérstaklega yfir sumarmánuðina, gríðarlega hröð, og svo þessi afskaplega mikla umferð hjólreiðamanna sem mér skilst að Vegagerðin sé meðvituð um. Það vekur samt athygli að ekkert hefur verið gert t.d. til þess að beina hjólreiðamönnum út á axlirnar. Það eru engar sérstakar merkingar þannig að þeir eru að hjóla inni á sjálfri akbrautinni. Þarna er gríðarleg slysahætta og raunar alveg merkilegt að ekki skuli hafa hlotist af þessu fleiri slys.

Ég vil líka koma því að að ákjósanlegt væri, hvort sem það væri með opinberum stuðningi eða hvernig sem það færi fram, að hjólreiðamenn á þessari leið gætu farið ókeypis með reiðhjólið í rúturnar.

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég tel að gera þurfi átak til þess að auðvelda hjólreiðamönnum að komast leiðar sinnar. Ég held að þetta sé ekki bara umhverfisvænn ferðamáti heldur er þetta sá máti sem er hvað þægilegastur til að komast í góða snertingu við náttúruna.

Ég hjó eftir því að hæstv. samgrh. er ekki búinn að gera áætlun um það hvernig eigi að koma mönnum sem eru á hjólum á milli Vogastapa og flugstöðvarinnar. En ég varð þess heldur ekki áskynja í ræðu hæstv. samgrh. að hann hefði uppi hugmyndir um hvernig menn ættu að komast frá Hafnarfirði til Straumsvíkur. Getur hann svarað því?

Í annan stað, herra forseti, vegna þess að hér er um mikilvægt mál að ræða, þá vildi ég spyrja hæstv. samgrh. hvort unnið sé að stefnu í hans ágæta ráðuneyti um hjólreiðar á umferðaræðum á Íslandi. Ef það er ekki þá spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki tíma kominn til þess að leggjast í vinnu varðandi þetta mikilvæga mál.

Ásta Möller:

Herra forseti. Hér er hreyft mikilvægu máli. Við vitum að hjólreiðar eru holl hreyfing og það er mikill og vaxandi áhugi meðal fólks að nýta sér þennan ferðamáta á milli staða og jafnvel til vinnu.

Mikil þörf er á samræmingu í skipulagningu á hjólreiðabrautum. Við vitum t.d. að fólk sem ferðast á hjólum milli Mosfellsbæjar og Reykjavíkur lendir í ógöngum því að annað sveitarfélagið hefur skipulagt hjólabrautirnar meðfram ströndinni en hitt hefur lagt þær uppi í landi. Fólk lendir því á dauðum enda öðrum megin og þarf að leita að hinum endanum í hinu sveitarfélaginu. Ég legg því áherslu á að hvort sem þetta verður á höndum ráðuneytisins eða á höndum sveitarfélaga þá fari fram samræming í þessum efnum þannig að fólk þurfi ekki að lenda úti í móa þegar það kemur út á enda hjólreiðabrautar.

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Hv. þm. fagna umræðunni en ég held að hv. þm. geti líka um leið harmað svör hæstv. samgrh. því að það eru mikil vonbrigði að vilji hæstv. ráðherra skuli ekki vera meiri til að bæta úr í þessum efnum og það að hæstv. ráðherra skuli ekki geta sagt okkur neitt til um framtíðarhugmyndir sínar eða ráðuneytisins varðandi málefni hjólreiðamanna er auðvitað grafalvarlegt mál, sérstaklega þegar það er skoðað að íslenska ríkisstjórnin hefur skuldbundið sig til að draga úr mengandi útblæstri vegna samgangna og þá sé ég ekki annað en að hér sé kjörið tækifæri fyrir hæstv. ráðherra til að láta til sín taka í þeim efnum og leggja þungt lóð á vogarskálarnar til þess að við getum staðið við skuldbindingar okkar hvað varðar alþjóðlega loftslagssamninga.

Einnig lýsi ég vonbrigðum mínum með að hæstv. ráðherra skuli segja okkur það hér að bannað verði að hjóla á reiðhjólum á tvöfaldaðri Reykjanesbraut og að menn skuli ekki enn vera farnir að hugsa um það hvernig skuli leysa það mál. Það er alveg augljóst að leysa þarf það mál með sérstakri hjólreiðabraut aðskilinni frá aðalakveginum og að hæstv. ráðherra skuli stinga upp á því í ræðustól á Alþingi að hjólreiðarmönnum sem eru komnir hingað til lands til að hjóla um landið skuli boðið upp á það að fara með hjólin sín í rútu til Reykjavíkur lýsir bara fákunnáttu hæstv. ráðherra í þessum efnum. Við verðum að taka öðruvísi á þessum málum. Við verðum að leysa þessi mál þannig að sómi sé að og hæstv. ráðherra á ekki að segja okkur það hér á Alþingi að það sé í verkahring sveitarfélaganna að takast á við skipulagsmál af þessu tagi.

Auðvitað á að vera til öflug framtíðaráætlun í ráðuneyti samgöngumála sem fjallar um hjólreiðar og það að benda á axlirnar sem nú eru til staðar sem einhverja lausn er bara stórhættulegt því að þær eru til þess að bílar geti farið út af og vikið hver fyrir öðrum og það er stórhættulegt fyrir hjólreiðamenn að láta sjá sig á þessum öxlum.

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Það er ýmislegt sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir harmar þessa dagana, þar á meðal skoðanir samgrh. Skoðanir okkar fara fjarri því saman þannig að viðbrögð hennar snerta mig ekki mjög mikið satt að segja. En hvað um það.

Ég vil bara undirstrika að það kom fram hjá mér að breikkuðu axlirnar á Reykjanesbrautinni eru ekki sérstaklega ætlaðar fyrir hjólreiðarmenn. Ég vil að það komi skýrt fram. Þær auka hins vegar öryggi á brautinni og til þess voru þær gerðar. Það er ekki bannað að hjóla eftir þjóðvegum landsins þannig að það verður að taka fullt tillit til þess.

Mér er fullkomlega ljóst að við höfum skuldbundið okkur til að draga úr loftslagsmengun en ég verð að viðurkenna að ég óttast að það muni sækjast seint ef við ætlum að leysa þau mál með því að láta fólk á Íslandi hjóla. Auðvitað eru margir sem hafa áhuga á því en ég held hins vegar að það gangi mjög skammt í því að leysa vanda okkar hvað varðar losun gróðurhúsalofttegunda frá umferðinni, frá skipastólnum og frá mengandi iðnaði. En margt smátt gerir eitt stórt. Við þurfum auðvitað að líta til þess alls.

Það er alveg ljóst að það er á valdi sveitarfélaganna að skipuleggja hjólreiðarbrautir innan sinna svæða en engu að síður er það svo að Vegagerðin gerir sér grein fyrir því að um leið og verið er að hanna þjóðvegi landsins þá þarf að taka tillit til þessa ferðamáta eins og annarra hvað varðar uppbyggingu vegakerfisins.

Hvað varðar spurningu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar um stefnu í ráðuneytinu hvað varðar umferð hjólreiðamanna um akbrautir landsins, þá eru umferðaröryggismál á málasviði dómsmrn. þannig að ekki hefur verið fjallað sérstaklega um þá þætti í samgrn.