Með haustinu fara börn og unglingar aftur í skólann, og einhver okkar hinna fullorðnu setjast líka á skólabekk. Áberandi við flesta skóla er bílafjöldinn og þeir ókostir sem þeim fylgja. Af mikilli bílaumferð við grunnskóla skapast slysahætta fyrir nemendur, og þó reynt sé að draga úr þeirri hættu með margvíslegum breytingum á umferðarmannvirkjum, svo sem með hraðahindrunum, hraðatakmörkun og gangbrautarvörslu, þá er eins og engum hafi dottið í hug að draga hreinlega úr bílaumferð við skólanna.

Ekki ætla ég að hallmæla einkabílnum, bíll er nauðsyn í nútímaþjóðfélagi. En það er hægt að misnota eða ofnota flest alla hluti, og er þá stundum talað um fíkn. Það eru til fleiri kostir við að koma börnum og unglingum í skólann, og okkur sjálfum til vinnu, en að hver og einn sé að hendast þetta á eigin bíl.

Þó að í einstaka tilfelli sé maður fljótastur til skóla eða vinnu á eigin bíl, þá má oft notast við strætó, eða hreinlega ganga. Ókosturinn við strætó er þó að áætlun hans passar sjaldan við þann tíma sem okkur hentar best, auk þess sem hvorki er stoppað við né farið beint á þann stað sem ætlum til. Og að ganga tekur oftast of langan tíma. En hvað með að hjóla? Það er fljótlegra en að ganga, stundum ekki mikið seinna en að fara á eigin bíl, engin bílastæðavandræði eða umferðarteppur. Sama frelsi, já eða jafnvel meira frelsi en á einkabíl, auk þess er reiðhjólið ódýr ferðamáti og veitir holla hreyfingu.

En ég var að tala um skólana og umferðina kringum þá. Mörg börn á grunnskólaaldri eiga reiðhjól, og þau má vel nýta til að ferðast á milli skóla og heimilis. Mikilvægt er að yngstu börnunum sé fylgt í skólann fyrstu vikurnar, og þeim kennt að hjóla eftir gangstéttum og göngustígum, en sem minnst á götunni. Mikilvægt er að börnin og reiðhjól þeirra séu rétt útbúin. Hjálmur er höfuðatriði, og ekki má gleyma ljósum og endurskini nú þegar hausta tekur. Eitt atriði sem oft vill gleymast hjá þeim sem láta börn sín fara á hjóli til skóla, er að töskur og föt barnanna henti til hjólreiða. Þá er ég ekki að hugsa um að útbúa börnin eins og einhverja fjallahjólakappa, heldur að þannig sé gengið frá töskum og fötum barnsins, að þau skapi ekki slysahættu.

Lausar skóreimar eða leikfimipokar sem geta flækst í keðju eða teinum reiðhjólsins eru afar hættulegir. Ef slíkt gerist, þá missir barnið stjórn á hjólinu og dettur. Fall af reiðhjóli er alltaf hættulegt, ekki síst innan um aðra umferð. Af sömu ástæðu þá er bannað að hengja töskur eða poka á stýri reiðhjólsins, það dregur úr getu hjólreiðamannsins til að stjórna hjólinu og slíkir pinklar geta auðveldlega flækst í framhjólinu. Best er að hjólandi barn noti skólatösku sem bera má bakinu, og geymi allt sitt dót þar í. Þar með talinn leikfimipokann, trefla og yfirhafnir sem barnið fer úr þegar heitt er í veðri. Svo er líka minni hætta á að eitthvað gleymist eða týnist, ef allir hlutir eru geymdir í einni skólatösku, en ef barnið þarf að muna eftir mörgum töskum eða pokum. Og auðvitað er allt dót í töskuna og fötin fyrir skólann tekin til kvöldið áður.

En skólar og fyrirtæki þurfa líka að koma til móts við þá sem nota reiðhjólið. Mér er aðeins kunnugt um einn stað sem tengist uppeldis og skólamálum á öllu landinu, þar sem er sérstakt reiðhjólaskýli eða geymsla. Það er við félagsmistöðina Frostaskjól í vesturbæ Reykjavíkur.

Við flesta aðra skóla eru gömlu slæmu hjólagrindurnar, þessar sem framhjóli reiðhjólsins er stungið í og það látið standa þannig. Og ef þær standa ekki úti á berangri þar sem vindur og regn geta leikið reiðhjólin að vild, þá eru þær inni í einhverju porti þar sem illa sér til, og skemmdarvargar geta leikið hjólin enn verr en íslensk veðrátta væri nokkurntíma fær um. Það eru tveir meginókostir við áðurnefnda gerð reiðhjólagrindna. Annar er að lítið þarf til að skemma gjarðir reiðhjólsins þegar það er geymt í slíkri grind. Smá vindhviða, og eigandi reiðhjólsins þarf að greiða nokkur þúsund fyrir nýja gjörð, auk þess sem reiðhjólið er ónothæft á meðan. Hinn ókosturinn er, að ekki er hægt að læsa reiðhjólinu almennilega við svona hjólagrind. Þó að framhjólinu sé læst við grindina, þá er auðvelt að kippa því af, fara með hjólið og kaupa nýtt framhjól. Eða finna annað hjól þar sem framhjólið er ekki læst við, setja það undir og hjóla af stað. Einföld leið fyrir óprúttna náunga til að eignast heilan flota af reiðhjólum. Við reiðhjólafólk viljum fá jarðfastar grindur eða staura til að læsa farskjótum okkar við. Dæmi um slíka staura eru bogadregnar rúmlega metersháar grindur til að hindra bílaumferð eða ólöglega stöðu bifreiða, en slíkar grindur eru víða steyptar niður þar sem bifreiðum er oft lagt upp á stétt. Þannig grindur eru til dæmis algengar erlendis við margar lestarstöðvar, stórverslanir.

Helst vildum við að sjá hér á Íslandi við stærri stofnanir og fyrirtæki, reiðhjólageymslu eða skýli, þar sem hægt væri að geyma hjólin, þannig að þau væru í skjóli fyrir veðrum og vindum. Og auðvitað þyrfti slíkt skýli að vera vaktað eða umferð um það vel sýnileg til að illa innrættir aðilar gætu ekki athafnað sig þar að vild. Því betur sem búið er að reiðhjólafólki, því fleiri nota reiðhjólið.

Heimir H. Karlsson.

© Hjólhesturinn 3.tlb. 8.árg. 1999