NÚ ER sá tími sem að flestir eru búnir að láta hjólhestinn í vetrardvala en það eru aldeilis ekki allir sem eru þannig hugsandi enda vilja margir fá að nota hjólið allt árið sem sitt samgöngutæki hvort sem að öðrum vegfarendum eða yfirvöldum líkar betur eða verr. Aðstæðurnar geta verið margbreytilegar og misjöfn veður einn og sama daginn. Það breytir ekki því að góður ljósabúnaður er bæði lögbundinn búnaður á hjóli og ekki síður nauðsynlegur til að við sjáumst og þar þurfa hjólreiðamenn aðeins að taka sig á því að þessir fáu sem ekki hafa ljós koma óorði á hina sem að eru með góðan búnað og þetta veldur óþarfa leiðindum í umferðarsamskiptum. Hjólreiðamenn verða að vera á vel útbúnum hjólum með ljós bæði að aftan og að framan og passa sjálfir að ljósin séu nógu öflug fyrir íslenskar aðstæður því að það er ekki til neinn viðmiðunarstaðall um það hvernig ljósin eiga að vera hér á Íslandi nema rauð að aftan og hvít að framan. Það er ekki nóg því að hjólreiðamaðurinn þarf að sjást því skaðar ekki að vera í fatnaði með endurskini eða að hafa þau hangandi á sér. Einnig eru til endurskinsbönd til að setja utan um skálmarnar á buxunum og endurskinsvesti. Mjög margir sem að hjóla allan ársins hring koma sér upp "slydduhjóli" til að nota á veturna. Það eru oft eldri hjól hjá viðkomandi ef að búið er að fá sér betra hjól eða það stendur til. Slydduhjólið er þá vel útbúið með ljósum, nagladekkjum, brettum og drullusokk og þá betur undir það búið að lenda í saltpæklinum.

Það hefur lengi verið ósk okkar hjólreiðamanna að hafa ekki göngu- og hjólreiðastígana svona hlykkjótta því að það sést vel þegar snjóar að meira segja snjóruðningsfólkið á í erfiðleikum með að vita hvar stígarnir eru hvað þá vegfarendur. Einnig eru þessir hlykkir stórhættulegir í hálku og á vorin þegar sandurinn er á stígunum hafa margir ungir hjólreiðamenn fengið slæmar skrámur. Við hjólreiðafólk eigum kost á að vera á gangstéttunum eða í umferðinni en erum á báðum stöðum fyrir öðrum vegfarendum þannig að við viljum fara að sjá sérstaka hjólavegi sem taka mið af þörfum okkar og vonumst þá til að fleiri geti farið að nota hjólið sem samgöngutæki. Þó að víða sé stígakerfið orðið að góðu samgönguneti og kantar á gangstéttum vel niðurfelldir (sérstaklega hér í Reykjavík) vantar víða mikið upp á viðunandi ástand og sérstaklega samtengingar sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Úti á landi þurfa bæjaryfirvöld að gera ráð fyrir umferð hjólreiðafólks í sinni skipulagsvinnu, bæði með öryggi og þægindi í huga því að það er auðveldlega hægt að hjóla allra sinna ferða úti á landi ekki síður en hér á höfuðborgarsvæðinu. Svo að ekki sé nú minnst á allar merkingarnar sem vantar. Víða eru fínir hjólavegir til í formi gamalla vega en það vantar kannski smá lagfæringu eða viðbót til að komast milli staða. Ég hef líka bent bæjaryfirvöldum á heitavatnsleiðslurnar sem eru víða í stokkum sem að mætti hanna sem hjólastíga ef hæðin er ekki mikil og þá fylla að. Einnig eru oft vegir meðfram þessum rörum eða stokkum sem mætti lagfæra allt eftir því hvað passar á hverjum stað.

Það reka margir upp stór augu þegar fólk sér grilla í hjólreiðamann í éljaganginum og ekki síst í hálkunni og velta fyrir sér kuldanum. Það eru mjög skjólgóð föt til á markaðnum fyrir allskonar aðstæður og flestir klæða sig of mikið til að byrja með en það er góð regla að klæðast mörgum þunnum flíkum frekar en einni þykkri því að með mörgum þunnum getum við temprað hitann eftir veðri og aðstæðum en erum ekki bara í svitasófi hvernig sem að viðrar. Einnig bendi ég yfirleitt fólki á að vera ekki í bómullarbol næst líkamanum því að bómullarbolir blotna auðveldlega og þorna seint . Manni verður því oft hrollkallt ef maður þarf aðeins að stoppa eftir að hafa svitnað, þannig að flest er betra fyrir hjólreiðafólk en bómullin.

Nokkrar hugmyndir fyrir hjólreiðarfólk og aðstandendur þeirra því þó að jólin séu búin vill svo til að við eigum öll afmæli einu sinni á ári og svo er hægt að sleppa konu og bóndadagsblómunum og sýna að viðkomandi þykir virkilega vænt um líf og heilsu sinna nánustu. Það er a.m.k. mikið búið að skemmta sér yfir því í mínum vinahópi að ég fékk nagladekk í jólagjöf frá mínum manni en algengasta tilsvarið er hjá konunum "en rómantískt". Það er aðalatriðið að ég er hæst ánægð. Númer 1 er ljós og hjálmur. Það er að hjólreiðamaðurinn eigi ljós og sjáist því að annars verður viðkomandi ekki lengi á hjóli heldur í hjólastól eða enn verr farinn og í þessu sæti er auðvitað hjálmurinn líka. Númer 2 eru fötin. Hlífðarföt helst með endurskini svo þynnri flíkur til að klæðast undir, ekki bómull. Númer 3 set ég nagladekkin sem fást með mismörgum nöglum en eru nauðsynleg hér á landi. Það eru einnig á markaðnum skóhlífar sem að halda manni þurrum einnig stýrishanskar sem eru hlífðarhanskar sem eru festir utan um stýrið og því fastir á hjólinu en gott rúm fyrir hendurnar að bremsa og skipta um gíra.

Þetta er smá hugleiðing fyrir hjólafólk og einnig hugmyndir fyrir þá sem að þykir vænt um einhvern sem að notar hjólið sem sitt samgöngutæki.Besta gjöfin þetta árið væri líklega að fá hjólavegi í vegalög þannig að gert verði ráð fyrir hjólandi umferð eins og annarri umferð en það setjum við á óskalistann og vonum að alþingismennirnir okkar gefi okkur þann pakka einhvern daginn þegar umhverfisvænum farkostum verður gert hærra undir höfði og við hjólreiðafólk getum virkjað eigin orku, eins og segir í einu af slagorðum Íslenska fjallahjólaklúbbsins, og margir vildu gera en treysta sér ekki til vegna aðstöðuleysis enda miðast flestar aðgerðir að því að greiða úr bílastæðavandanum frekar en að vinna í því að þurfa ekki að láta þann vanda verða til með markvissum aðgerðum í átt til umhverfisvænni samgangna.

Alda Jónsdóttir
Höfundur er formaður Íslenska fjallahjólaklúbbsins.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 12. janúar 2000.
© ÍFHK 2000