Núna þegar sumarið og góða veðrið er upp á sitt besta, þá er fjölmennastur sá hópur sem hjólar reglulega. Hvort sem við notum reiðhjólið til að fara allra okkar ferða, eða bara skreppa í góðviðrishjóltúr með fjölskyldunni, þá eru nokkrir mikilvægir þættir sem ekki mega gleymast. Það er almenn tillitsemi og virðing fyrir umferðarlögum.

Reiðhjólið er ekki bara leiktæki heldur líka farartæki, og oftast þátttakandi í almennri umferð ásamt öðrum vegfarendum. Næstum hvert sem við hjólum, þá mætum við öðrum vegfarendum, og þeir eru af ýmsum stærðum og gerðum. Gangandi, skokkandi, hjólandi og á vélknúnum ökutækjum.

Reiðhjólafólk er sá hópur vegfarenda sem þarf að kunna hvað flóknustu reglurnar í umferðinni. Við erum á ferðinni meðal allra hópa vegfarenda, í bílaumferðinni og líka meðal gangandi vegfarenda, og þessvegna þarf reiðhjóla-maðurinn að kunna góð skil á grunnreglum umferðarlaga, að ekki sé minnst á rétta umgengni við náttúruna á ferðalögum.

Nokkuð hefur verið rætt um öryggi í umferðinni. Ýmsir vilja kenna um lélegum umferðarmannvirkjum eða fáránlegum umferðarlögum, og satt er það að ekki þarf að leita lengi til að finna hvort tveggja. Ég held samt að meginorsök umferðaróhappa sé að leita í mannlega þættinum, þess að við högum okkur ekki eftir aðstæðum. Í umferðinni gilda ákveðnar og skýrar reglur, en mikilvægast er þó að haga sér eftir aðstæðum og taka tillit til annara.

Heimir H. Karlsson.