Íslenski fjallahjólaklúbburinn og Landsamtök hjólreiðamanna stóðu fyrir ráðstefnu í Ráðhúsinu þann 25. mars 1999 undir yfirskriftinni "Reiðhjól eru samgöngutæki", um hönnun mannvirkja fyrir hjólhestinn, aðstæður og öryggismál hjólreiðafólks og tengingar milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

mvc-015f.gif

mvc-017f.gif

Ráðstefnan var vel sótt og tókst í alla staði mjög vel. Margt var rætt og mikill vilji kom fram hjá ræðumönnum til að bæta enn betur aðstæður hjólreiðamanna og vinna að því að gera hjólreiðar að vænlegum valkosti í umferðinni fyrir allan almenning.

 

 

Ekki er hægt að birta hér öll þau erindi sem þar voru flutt en þetta var allt tekið upp og hægt er að kíkja á þær upptökur hjá okkur í nýja klúbbhúsinu okkar. Við látum þó erindi Helga Hjörvar, borgarstjórn Reykjavíkur, fylgja. Þar ræðir hann um framtíðarsýn Reykjavíkur í málefnum hjólreiðafólks og ekki annað að heyra en hann vilji auka á valfrelsi borgarbúa í samgöngumálum, enda sé það heilsubót hin besta. Það eigi ekki bara að tala um það heldur leggja fé í það sem fjasað er um og gera reiðhjólið að raunhæfum valkosti í samgöngumálum Reykjavíkurbúa.

 

 

Þorsteinn G. Gunnarsson setti þingið og stjórnaði því sem þingforseti.
Fyrst stigu í pontu Alda Jónsdóttir formaður Íslenska fjallahjólaklúbbsins og Gunnlaugur Jónasson formaður Landssamtaka hjólreiðamanna sem kynntu lauslega klúbbinn og samtökin.

 

 

Næst kom Helgi Hjörvar frá Reykjavíkurborg og ræddi framtíðarsýn Reykjavíkurborgar og má lesa erindi hans hérÓskar Dýrmundur Ólafsson kom síðan með stutt ágrip af sögu hjólreiða á Íslandi. Hann skrifaði á sínum tíma BA ritgerð um 100 ára sögu reiðhjólsins á Íslandi og hægt er að lesa hana í heild sinni  hérÓli H. Þórðarson, Umferðarráði ræddi síðan stöðu hjólreiðafólks í umferðinni og þær hættur sem þeir mæta þar.

 

 

Þar kom meðal annars fram að undanfarin ár hafi orðið fækkun á alvarlegum slysum hjólreiðafólks og taldi hann það helst að þakka aukinni hjálmanotkun.

 

 

 

Ólafur Stefánsson, frá embætti Gatnamálastjóra, nefndi meðal annars að á ári hverju væri varið um 15 milljónum króna í lagfæringar á fláum í borginni og að um 70-80 milljónum hafi verið varið í þetta átaksverkefni. Aðalstígakerfið væri um 120km og þar af væri búið að fara yfir 80km og hraðinn væri um 7km á ári í uppbyggingunni.

 

Ef horft væri á stofnstígakerfið í heild sinni út að Suðurlandsveg og Vesturlandsveg mætti reikna með að það tæki 10-12 ár að klára það allt saman.

Hann svaraði einnig fyrirspurn um hvort ekki væri hætta á að bleyta frá umferðinni yfir Gullinbrú myndi slettast niður á göngu og hjólabrúna þar undir. Hönnuðirnir telja að þetta verði ekki vandamál en luma á lausn á því ef það kæmi í ljós.

 

 

Anna Guðrún Gylfadóttir, líka frá embætti Gatnamálastjóra, ræddi skipulag snjóruðnings á stígakerfinu og

 

hversu mikið verkefni það væri þar sem stígakerfið allt væri um 620km langt, 585km með bundnu slitlagi, 35km malarstígar og að auki mikið af stígum sem eru á einkalóðum.

 

 

 

Gunnlaugur Jónasson, formaður Landssamtaka hjólreiðamanna ræddi stöðu hjólreiðamannsins.

 

 

Björn Axelsson, hjá Borgarskipulagi, ræddi heildarskipulagið og tengingar milli sveitafélaga.

Og nefndi síðan meðal annars að rætt hefði verið óformlega um að setja samræmda vegvísa á stígakerfið á höfuðborgarsvæðinu sem væri sjálfsagt mál en það "þætti ekki tímabært því að götin eru of mörg.

Það þýðir ekkert að setja upp vegvísi og benda fólki á að fara Reykjavík - ? einhverja kílómetra og svo endar það bara ofan í skurði".

 

 

 

Þráinn Hauksson arkitekt ræddi síðan forsendur hönnunar "Græna trefilsins" sem er heildarskipulag stígakerfis sem tengir borgina og útivistarsvæðin umhverfis hana.

 

 

 

Næst voru almennar umræður og kaffihlé, þar sem gestum gafst kostur á að skoða myndir af skemmtilegum útfærslum á hjólastígum og slíku erlendis frá og kort af merktum hjólaleiðum um nokkrar borgir Evrópu, t.d. London og Köln.

 

Einnig hvernig Svisslendingar hafa skipulagt og merkt nokkrar hjólaleiðir um þvert og endilangt landið og fylgt því eftir með útgáfu korta, leiðsögubóka og það er jafnvel hægt að láta panta fyrir sig gistingu á hjólavænum hótelum á leiðunum.

 

 

 

Eftir hlé flutti Gunnlaugur Ó. Johnson erindi um ímynd nútímahjólreiðamannsins

 

og Magnús Már Halldórsson erindi um daglegt líf í umferðinni.

 

 

Svavar Gestson, fyrrverandi alþingismaður, hefur verið dyggur talsmaður hjólafólks á Alþingi og flutt nokkrum sinnum tillögu um að koma hjólavegum inn á vegalög.

 

 

Hann sagði það mál nú komið í nefnd og aldrei að vita nema það verði samþykkt ef málinu væri fylgt nógu fast eftir.

 

 

 

Fulltrúi frá SVR, sem ætlaði að flytja erindi, forfallaðist á síðustu stundu.

Krístín Brandsdóttir kom frá Lögregluembættinu og fjallaði um lögbrotin í umferðinni.

 

 

Ólafur Örn Haraldsson, þingmaður, hefur verið dyggur talsmaður útivistarfólks á Alþingi og sjálfur þekktur sem slíkur. Hann kynnti fyrir okkur ný lög sem gefa ferðalöngum skýrari rétt en áður til að ferðast um landið og tjalda til einnar nætur hvar sem er á landinu nema á afgirtum einkajörðum og í friðuðum þjóðgörðum.

Kynnið ykkur endilega lög nr. 44 1999 á vef Alþingis Þar stendur meðal annars:

12. gr. Réttindi og skyldur almennings. Almenningi er heimil för um landið og dvöl þar í lögmætum tilgangi. Öllum er skylt að ganga vel um náttúru landsins og sýna ýtrustu varúð þannig að henni verði ekki spillt.

13. gr. För um landið og umgengni. Á ferð sinni um landið skulu menn sýna landeiganda og öðrum rétthöfum lands fulla tillitssemi, virða hagsmuni þeirra, m.a. vegna búpenings og ræktunar, þar á meðal skógræktar og landgræðslu, og fylgja leiðbeiningum þeirra og fyrirmælum varðandi ferð og umgengni um landið. Fara skal eftir merktum leiðum og skipulögðum stígum og vegum eftir því sem auðið er, hlífa girðingum, fara um hlið eða göngustiga þegar þess er kostur og ef farið er um lokuð hlið skal loka þeim eftir að gengið hefur verið um þau. Sérstök aðgát skal höfð í nánd við búsmala, selalátur, varplönd fugla, veiðisvæði og veiðistaði. För manna um landið er ekki á ábyrgð eiganda lands eða rétthafa að öðru leyti en því sem leiðir af ákvæðum annarra laga og almennum skaðabótareglum.

14. gr. Umferð gangandi manna. Mönnum er heimilt, án sérstaks leyfis landeiganda eða rétthafa, að fara gangandi, á skíðum, skautum og óvélknúnum sleðum eða á annan sambærilegan hátt um óræktað land og dveljast þar. Á eignarlandi í byggð er eiganda eða rétthafa þó heimilt að takmarka eða banna með merkingum við hlið og göngustiga umferð manna og dvöl á afgirtu óræktuðu landi. För um ræktað land, sbr. 7. tölul. 3. gr., og dvöl þar er háð samþykki eiganda þess eða rétthafa. Sama gildir um skógræktarsvæði í byggð sem ekki eru í eigu eða umsjá ríkis eða sveitarfélaga, önnur en náttúrulega birkiskóga og kjarr. Sé skógrækt styrkt með opinberu fé skal kveða svo á í samningi við eiganda eða rétthafa lands að hann tryggi almenningi með reglum sem hann setur frjálsa för um landið eftir að fyrstu stigum skógræktar er lokið.

15. gr. Umferð hjólandi manna. Þegar farið er á reiðhjólum um landið skal fylgt vegum og skipulögðum reiðhjólastígum eins og kostur er.

20. gr. Heimild til að tjalda. Við alfaraleið í byggð er heimilt, sbr. þó 2. málsl. 1. mgr. 14. gr., að tjalda hefðbundnum viðlegutjöldum til einnar nætur á óræktuðu landi, en leita skal leyfis landeiganda eða annars rétthafa áður en tjaldað er nærri bústöðum manna eða bæ og ætíð ef um fleiri en þrjú tjöld er að ræða eða ef tjaldað er til fleiri en einnar nætur. Við alfaraleið í óbyggðum, hvort heldur er á eignarlandi eða þjóðlendu, er heimilt að setja niður hefðbundin viðlegutjöld. Utan alfaraleiðar, hvort heldur er á eignarlandi eða þjóðlendu, er heimilt að setja niður göngutjöld nema annað sé tekið fram í sérreglum sem kunna að gilda um viðkomandi landsvæði. Á ræktuðu landi, sbr. 7. tölul. 3. gr., má aðeins slá upp tjöldum með leyfi eiganda þess eða rétthafa. Við tjöldun skal ætíð virða ákvæði 17. gr. um bann við akstri utan vega, svo og gæta fyllsta hreinlætis og varúðar á tjaldstað.

21. gr. Takmarkanir á heimild til að tjalda. Þegar sérstaklega stendur á getur eigandi lands eða rétthafi takmarkað eða bannað að tjöld séu reist þar sem veruleg hætta er á að náttúra landsins geti beðið tjón af. Hafi eigandi lands eða rétthafi útbúið sérstakt tjaldsvæði á landi sínu er honum heimilt að beina fólki þangað og taka gjald fyrir veitta þjónustu þar.

70. gr. Útivistarsvæði. Til stuðnings við útivist geta sveitarfélög, Náttúruvernd ríkisins eða náttúruverndarnefndir gengist fyrir að halda opnum göngustígum, strandsvæðum til sjóbaða, vatnsbökkum og öðrum stígum og svæðum sem ástæða er til að halda opnum til að greiða fyrir því að almenningur fái notið náttúrunnar; enn fremur sett upp göngubrýr, hlið og göngustiga og afmarkað tjaldsvæði og gert annað það er þurfa þykir í þessu skyni. Framkvæmdir samkvæmt þessari grein skulu einungis gerðar með samþykki eigenda eða rétthafa lands.

 

 

Þá var komið að myndasýningu, sem Magnús Bergsson sá um fyrir Íslenska fjallahjólaklúbbinn. Þar sýndi hann myndir af því hvernig hjólreiðum var gert hátt undir höfði víða í Evrópu, hvernig haganlega hafði verið komið fyrir merktum hjólareinum og vönduðum hjólastæðum í gömlum þröngum stórborgum. Hvernig víða er hægt að ferðast langleiðir milli sveitafélaga á sérstökum hjólastígum með öruggum hætti og hvernig gengið var frá þverunum við gatnamót án þess að það skapaði hættu eða væri hindrun í veginum. Einnig sýndi hann nokkrar myndir frá Íslandi af hlutum sem betur mættu fara.

 

 

 

 

 

 


Eftir sýninguna var þinginu síðan slitið með verðlaunaafhendingu. Flugumferðarstjórn var veitt sérstök viðurkenning fyrir sérlega góða aðstöðu fyrir starfsfólk sem hjólar til vinnu, þar sem þeir hafa aðgang að sérbyggðu lokuðu og læstu hjólaskýli.

 

 

 

Kópavogsbær fékk síðan hvatningarverðlaun, sem vonandi hvetja þá til að bæta úr stígamálum hjá sér. Hálfnað verk þá hafið er.

 

 

Páll Guðjónsson hafði útbúið bækling með svipuðu efni og Magnús notaði á myndasýningunni en meiri áherslu á aðstæðurnar á Íslandi og var honum dreift, litprentuðum á þinginu. Það efni og meira til er hægt að skoða á heimasíðu kúbbsins. Myndirnar eru úr stóru safni klúbbsins þar sem við geymum dagsettar myndir af ýmsu sem fyrir augu ber og hefur aðeins lítill hluti þeirra verið notaður enn, en það er fróðlegt að sjá myndir af því hvernig framkvæmdir loka aðalsamgönguæðum borgarinnar heilu og hálfu árin án þess að upp séu sett aðvörunarskilti. Eða þá að leiðunum er bara lokað og ekkert hugsað fyrir að fólk þurfi að komast þar um öðruvísi en á einkabíl, eins og það gat áður en leiðinni var lokað.

Það var ekki annað að sjá en að þessum ábendingum væri vel tekið því innan viku var til dæmis búið að merkja stórframkvæmdirnar þar sem verið er að byggja mislægu gatnamótin við Miklubraut og Skeiðarvog. Fljótlega voru síðan opnaðar leiðirnar undir Gullinbrú, beggja vegna. Við erum enn á ferð um borgina og kippum oft með okkur stafrænni myndavél. Þegar við sjáum eitthvað nýtt sem vel er gert tökum við mynd. Þegar við sjáum eitthvað nýtt sem ekki er vel gert tökum við mynd. Eitthvað af þessum myndum ratar síðan á heimasíðu klúbbsins. Hér getið þið vonandi fylgst með þróun höfuðborgarsvæðisins í það að teljast "hjólavænt".

Við sem stóðum að þessu þingi erum einstaklega ánægð með hvernig til tókst, góða þátttöku og allan þann velvilja sem við fundum frá embættismönnum. Það er margt sem hefur áunnist á undanförnum árum og margt sem er óunnið enn. En ef allir leggjast á eitt þá næst góður árangur.

Helstu styrktaraðilar þingsins voru Reykjavíkurborg, sem lánaði okkur salinn, Umferðarráð og VÍS og viljum við þakka þeim sérstaklega fyrir stuðninginn.

Texti og myndir Páll Guðjónsson