MEÐ HÁLENDINU - GEGN NÁTTÚRUSPJÖLLUM
Náttúruverndarsamtök, útivistarfélög og fjölmargir einstaklingar boðuðu til almenns fundar um verndun miðhálendisins í Háskólabíói, laugardaginn 28. nóvember.
Á dagskrá fundarins voru ávörp og fjölbreytt skemmtiatriði og hér eru nokkrar svipmyndir

 

 

 

mvc-002f.gif

Aðalsalurinn í Háskólabíó var fullur og löng biðröð af fólki á leið inn rétt fyrir baráttufundinn. Fjöldi sjálfboðaliða höfðu greinilega lagt mikla vinnu í að gera þennan baráttufund glæsilegan.
Nokkrir félagar í Íslenska Fjallahjólaklúbbnum réttu smá hjálparhönd með því að hjálpa til við fjáröflunina með sölu á veggspjöldum í anddyrinu

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

mvc-016f.jpg

 

 

 

 

 

 

mvc-009f.jpg

 

 

 

Ályktun

Fjölmennur fundur, haldinn að tilhlutan náttúruverndarsamtaka,
útivistarfélaga og einstaklinga í Háskólabíói 28. nóvember 1998, lýsir
yfir eindreginni andstöðu við fyrirhugaðar stórvirkjanir á miðhálendi
Íslands.

Fundurinn vekur athygli á því að á miðhálendinu er einhver dýrmætasta
auðlegð þjóðarinnar. Þar ríkir stórbrotin og ótamin náttúra og ægifegurð
öræfanna býr yfir friðsæld og kyrrð sem vart á sinn líka. Hvergi í
Evrópu er aðra eins víðáttu að finna. Slíkum svæðum fer mjög fækkandi á
jörðinni og þau sem eftir eru verða sífellt dýrmætari. Þess vegna er það
ekkert einkamál Íslendinga ef þetta stærsta víðerni álfunnar verður
eyðilagt með virkjunarframkvæmdum. Það er ómissandi hluti af
náttúruauðlegð heimsins.

Á miðhálendinu eru einnig sumar af fegurstu náttúruperlum þjóðarinnar,
þeirra á meðal Hafrahvammagljúfur, Þjórsárver og Eyjabakkar. Ef við
eyðileggjum þessar og aðrar náttúruperlur miðhálendisins með
mannvirkjagerð verða þær ekki endurheimtar. Þær verða okkur og niðjum
okkar að eilífu glataðar.

Fundurinn mótmælir harðlega áformum Landsvirkjunar um að skerða friðland
Þjórsárvera enn frekar en orðið er með virkjunarframkvæmdum og sökkva
Eyjabökkum undir miðlunarlón. Með því væri náttúru landsins unnið
óbætanlegt og óafsakanlegt tjón. Þar á ofan hafa þessi einstæðu
gróðursvæði alþjóðlegt mikilvægi sem varplönd og sumarheimkynni þúsunda
fugla. Yrði Eyjabökkum sökkt væri það stærsta atlaga sem gerð hefði
verið að lífríki Íslands í einni svipan. Slíkar aðfarir hæfa ekki
siðmenntuðum þjóðum og hlytu að leiða yfir okkur fordæmingu umheimsins.

Fundurinn skorar á alþingismenn að snúast gegn fyrirhuguðum
stórvirkjunum á miðhálendinu. Þess í stað verði þetta magnþrungna og
óviðjafnanlega landsvæði verndað í þágu vistvænnar útiveru og ferðalaga
innlendra sem erlendra manna. Þannig vinnum við þrennt í senn:
Varðveitum dýrmætustu náttúruauðlegð okkar, ávöxtum hana og skilum henni
óskertri til óborinna kynslóða.

Fundurinn heitir á þá sem unna náttúru Íslands að sameinast allir sem
einn um þessi markmið og berjast fyrir verndun miðhálendisins þar til
fullur sigur er unninn.Guðmundur Páll Ólafsson, rithöfundur og náttúrufræðingur, hélt
eftirfarandi ræðu á baráttufundi - Með hálendinu - gegn náttúruspjöllum
- sem haldinn var í Háskólabíó þann 28. nóvember s.l. Hann veitti okkur
góðfúslega leyfi til að senda ykkur hana, en fjölmargir hafa óskað eftir
að hún yrði birt. Reyndar var hún birt í Degi í síðustu viku og við
munum koma henni fyrir á vefsíðu okkar (sjá veffang hér að neðan).

Náttúruverndarsamtök Íslands.Að eyða handritum

Árið er 1623 - öldin sú ömurlegasta í sögu Íslands, harðæri,
galdrabrennur og miskunnarlaus stjórnvöld. Á júnídegi þetta ár liðast
miklar reykjasúlur upp frá hlaðinu á höfuðbólinu Helgafelli á
Snæfellsnesi. Verið er að taka til og losa staðinn við gamalt,
ómerkilegt drasl. Eldsmaturinn er ævaforn handrit og skjöl frá upphafi
Helgafellsklausturs sem var annáluð menningarstofnun á Íslandi einkum
fyrir bækur og bókagerð í 450 ár.

Þarna brann íslensk saga og menning og ómældur auður sakir fáfræði,
virðingaleysis og fordóma. Ef til vill varð þessi atburður til þess að
fáum árum síðar tóku embættismenn á Íslandi þar á meðal biskupinn í
Skálholti að safna fornum handritum sem síðar urðu kjarni
menningararfsins og aðalsmerki söguþjóðarinnar.

Núorðið brennum við ekki handrit og eyðileggjum ekki listaverk, eða
hvað? Stöndum við kannski í svipuðum sporum og heimski presturinn á
Helgafelli sem lét húskarla sína og vinnukonur bera út handritin og
kveikja í þeim? Á þúsund og milljón árum hefur íslensk náttúra skráð sín
handrit með eigin stafagerð í landið á undursamlegan hátt. Á miðhálendi
Íslands slær hjarta þess og jökulelfur fossa óhamdar fram sem
heilsulindir vistkerfis, rauður þráður allra handrita, eins konar
lífæðar í næringarvef lands og strandsjávar. Þau eru þjóðararfur og
bakland menningar Íslendinga og vistkerfi landsins er undirstaða
almennrar velmegunar. Meðal handritanna eru Eyjabakkar og Langisjór,
Þjórsárver og Dimmugljúfur ótvíræðir dýrgripir meistaraverksins.

Nú vantar meiri eldsmat. Kynda á upp efnahagslífið með handritum
íslenskrar náttúru, handritum helgra fella, heiða og vatna Íslands. Í
áratugi hefur ómarkvisst kjördæmapot komið í stað heilsteyptrar
þróunarvinnu um sambúð dreifbýlis og þéttbýlis og þegar afleiðingarnar
koma í ljós er gripið til örþrifaráða og hvatt til náttúrufórna. Okkur
er öllum annt um dreifðar byggðir landsins en hvar endar sú spilling
hugarfarsins sem býr að baki slíkum fórnum? Því ekki að selja búta af
fiskveiðilögsögunni fyrir sérhverja byggð sem berst í bökkum; því ekki
að selja fornu handritin á Árnastofnun, menningarsögu Íslendinga?

Framtíð hálendis Íslands er hápólitísk og eldfim umræða. Hún varðar
siðfræði og trúfræði, listir og vísindi, efnahag og útivist,
einstaklingsfrelsi og lýðræði og þá ekki síst hvernig við skilum landinu
til þeirra sem erfa það og skuldirnar okkar.

Ljóst er að orðið hafa vatnaskil í almennri umræðu um landið og verndun
þess. Aldrei hefur skilningur og þátttaka almennings verið virkari á
meðan stjórnvöld hafa í fyrsta sinni opinberað herskátt tillitsleysi
gagnvart vistkerfi og tómlæti gagnvart náttúrugersemum þjóðarinnar. Þau
réttlæta náttúrufórnir sínar með því að segja: “öfgar í verndun eru
varasamar”.

Brýnt er að hugleiða innræti gagnvart náttúrunni og uppeldi þjóðar sem
landsfeður og Alþingi Íslendinga boða; að það sé efnahagslegur
ávinningur af því að spilla landi, skaða vistkerfi og skerða heilnæmt
umhverfi. Á sama tíma og umheimurinn ákallar þjóðarleiðtoga og varar við
náttúrufórnum hugleiða íslensk stjórnvöld hvort það sé fjárhagslega
hagstætt að undirrita loftslagssamning SÞ. Þau mæna á peninga á meðan
þjóðir heims eru uggandi um framtíð mannsins.

Náttúrufórnir! Virtur Austlendingur var fyrir skömmu inntur eftir því
hvort hann myndi ekki sjá eftir Eyjabökkum yrði þeim sökkt. “Æi, nei.
Þeir eru svo blautir og erfiðir í smölun.”

Og þegar málaliðar stífluvirkjana og stóriðju mæla náttúrufórnir í
prósentum hættum við að skilja. Gersemar náttúrunnar, fegurð Íslands,
vistkerfi þess og ást okkar á landinu; allt þetta mæla þeir í prósentum
af flatarmáli Íslands og niðurlægja þjóðina með list loddarans.

Ísland er hluti af heild og veröld okkar mannanna er á heljarþröm því
móðir jörð er sjúk. Alvarlegust er mengun jarðar og útrýming tugþúsunda
lífverutegunda ár hvert. Þar á maðurinn gráðugur og gálaus alla sök.
Vísindamenn um víða veröld hafa þungar áhyggjur. Á sama tíma og maðurinn
sargar á eigin púlsi eru fræðimennirnir rétt að byrja að skynja
stórkostlegt samhengi náttúrufyrirbæra og þann völundarvef sem
fjölbreytileiki lífheims, landslags og veðurfars hefur ofið um alla
jörð.

Trúarleiðtogar hafa vaknað við vondan draum og telja umhverfi mannsins
og sköpun drottins ógnað. Páfinn í Róm, Jóhannes Páll II fullyrti árið
1989 að umhverfisvandi heimsins væri afleiðing djúpstæðra siðferðislegra
bresta. Hvað skyldi það nú merkja? Patríarkinn í Istanbul Bartholomeus1.
orðar umbúðalaust: “Að fremja glæp gegn náttúrunni er synd, en hvernig
við förum með jörðina og sköpun hennar alla lýsir sambandi okkar við Guð
og er líka mælikvarði á viðhorf okkar hvers til annars”. Ennfremur segir
patríarkinn vitri: “Við verðum ... að minna fólk á að jörðina má ekki
misnota eftir hentugleikum.”

Aðeins fádæma ófrjóir menn, ólæsir á landslag og náttúru, láta sér detta
í hug að umræðan snúist aðeins um ferðaþjónustu og virkjun fallvatna --
auk smalamennsku. Hálendisbaráttan snýst um ómæld auðæfi. Þau varða
kjarna þess að lifa og hvers virði það er að vera Íslendingur. Auðæfin
eru víðfeðm og nær óendanleg. Það ætti að vera hluti af byggðastefnu
Íslendinga að rannsaka og opna þá veröld, en eins og við vitum þá
gleymdist hún í höndum hagsmunapotara og -reddara og lenti svo í kjafti
stóriðjunnar.

Auðlegð öræfanna er í senn íslensk og alþjóðleg. Þessi auðlegð sem felst
í víðernum, villtri náttúru, fjölbreytni lífvera, erfðum þeirra og
afurðum, fjölbreytni landslags, samspili forma, efnis og birtu til
fræðilegrar listsköpunar, til útivistar og náttúruvænnar ferðamennsku er
með ólíkindum. Og hún er hvað ríkulegust á þeim svæðum sem stjórnvöld
hyggjast drekkja -- núna þegar við erum fyrst að ná áttum.

Vanþekking á auðæfum öræfanna skrifast enn og aftur á þröngsýni og
vantrú á þekkingarleit og afar neikvæð afskipti stjórnmálamanna af
vísindastofnunum. Afleiðingarnar eru meðal annars þær að velja
nýtingarrannsóknir á kostnað grunnrannsókna -- á kostnað þekkingarinnar,
lykilinn að draumum framtíðar.

Baráttan fyrir hálendinu hefur nú þegar blásið nýjum, ferskum andblæ um
þjóðfélagið og loftræst daunill og fordómafull viðhorf til
náttúruverndar. Aðeins risaeðlur stjórnmálaflokka neita að takast á við
breytt þjóðfélag og breytta heimssýn. Breytingin snýst um menningu,
náttúruverðmæti og mannréttindi og þá þegnskyldu að verja landið. Ennþá
er þó barið á lýðræðinu með flokkspólitískum pískum frá ótal hliðum og
reynt að drepa í dróma frjóa og frjálsa og þá ekki síst gagnrýna hugsun
einstaklinga, frjálsra náttúruverndarsamtaka svo og opinberra vísinda-
og embættismanna.

Og þau villa sýn. Í hvert sinn sem stóriðjusamningur er undirritaður
hefur einhverri náttúrudjásn í Handritastofnun íslenskrar náttúru verið
fórnað. Í hvert sinn sem stóriðja er reist stelur hún og eyðileggur
fjölmörg störf sem byggja á eðlilegri og spennandi sambúð okkar við
landið. Í sérhvert sinn truflast vistkerfi landsins og andrúmsloft
spillist. Heilsufari er fórnað og lífsing gæði rýrna. Aldrei er minnst á
grænu fórnirnar einu orði.

Vísvitandi beita þau blekkingum og tala svo um sátt.

Mikið vorum við trúgjörn þegar Þjórsárver voru friðuð. Við héldum að
þeim væri borgið; vissum fátt um undanþágurnar og nauðungarsamninga.
Náttúruverndarráði var stillt upp við vegg og árið 1981 lét það undan
vegna hótana um virkjun Hvítár, Gullfoss og Dettifoss. Hvernig áttum við
að skilja að sjálfur ógnvaldurinn hefði fingur á friðun dýrðlegustu
náttúruperlu og fuglavin íslenskra öræfa? En þegar Alþingi ákvað að
drekkja Eyjabökkum þá loks áttuðum við okkur á siðleysinu og
þjóðfélagslegu ógninni af Landsvirkjun.

Yfir Þjórsárverum og einni fríðustu fossaröð landsins vofir ennþá
dauðadómur með stíflu við Norðlingaöldu. Aftan frá er þeim einnig hótað
lífláti því efstu kvíslum veranna á að ræna. Kverkatakið er tvöfalt. Og
nú er svo komið að helgreipar Landsvirkjunar hafa náð taki á öllum
náttúrudjásnum öræfanna -- og tekið þau í gíslingu.

Landrof er þegar byrjað í Þjórsárverum, á bökkum Þjórsár -- og yfirvöld
tala um sátt með hótunum og yfirgangi. Ofbeldi leiðir seint til sátta.
Hún er aðferð kúgarans til að krefjast uppgjafar. Yfirvöld hafa ekki
aðeins ruglast á texta í hlutverki; þau eru í vitlausu leikriti.

Við viljum þá einu sátt að íslenska þjóðin fái að átta sig á víðfeðmum
auðæfum hálendisins, á auðlind jurta og dýrategunda til lækninga og
lyfjagerðar, á fræbanka hálendisins, á vistkerfi þess fyrir land og sjó.
Við viljum meta arðsemi og verðmæti af hlutleysi, metnaði, fræðimennsku
og list. Við krefjumst þess að fá að lesa handritin eins og okkur er
unnt og afhenda þau komandi kynslóðum sem eflaust verða miklu læsari á
þau en við. Við verðum að gaumgæfa hvort ekki megi fara öðruvísi að við
orkuöflun en að sökkva landi og hengja fegurð þess í háspennumöstrum.

Til hvers var að þrauka í þúsund ár og þónokkuð betur ef við ætlum núna
sem rík þjóð að taka fjallkonuna og drekkja henni?

Þeir tala um sátt. Högum okkur þá sem upplýst menningarþjóð sem þykir
vænt um landið sitt. Er það til of mikils mælst? Á meðan er okkar sæng
upp reidd: Að verja hálendið, sjálft hjarta landsins, með ráð og dáð,
sem sverð þess og skjöldur. Og annaðhvort verjum við það Núna eða
Aldrei.

Í húfi er æran, þín og mín; heiður allra Íslendinga.

Guðmundur Páll Ólafsson
Ræða í Háskólabíói 28.11.1998


Við þökkum Hálendishópnum og öðrum aðstandendum þessa mikla baráttufundar kærlega fyrir.
Lesið meira um dagskrá, aðdraganda og aðstandendur fundarins.
Skoðið líka heimasíðu Náttúruverndarsamtaka Íslands

 

©ÍFHK 1998.

Myndir og texti Páll Guðjónsson