Góðir áheyrendur.
Á hverju vori má sjá nýjan hóp ungra vegfarenda í umferðinni. Þetta eru börn og unglingar á reiðhjólum. Meirihluti fólks af þeirri kynslóð sem er að vaxa úr grasi í dag, minnist þess að hafa einhverntíma á sínum yngri árum átt reiðhjól. Okkar fyrsta reynsla af reiðhjóli var líka oft okkar fyrsta reynsla af umferðinni. Undir góðri leiðsögn foreldra, kennara og lögreglu lærðum við umferðarreglurnar og almenna góða hegðun í umferðinni.

Nú á dögum eignast flest börn hjól nokkuð snemma á lífsleiðinni. Oftast er þríhjólið fyrst, en á aldursbilinu fimm til sjö ára eignast mörg börn reiðhjól. En það er ekki nóg að rétta barninu nýtt reiðhjól og segja: “farðu nú út að hjóla elskan.” Reiðhjólið er í augum barnsins fyrst og fremst leiktæki, þó sannleikurinn sé sá að það er ekki síður farartæki. Á reiðhjóli verður barnið virkur þáttakandi í umferðinni.

Þess vegna er nauðsynlegt að einhver fullorðinn leiðbeini barninu um notkun reiðhjólsins, og ekki bara einu sinni í fyrstu ferð barnsins á hjólinu. Börn læra með því að reyna hlutina og setja þá í samhengi við fyrri reynslu sína. Og börn þarfnast upprifjunar og endurtekningar. Þess vegna er mikilvægt að við hjólum með börnunum okkar. Ung börn hafa oft ekki líkamlega getu til að fara í hjólreiðaferðir með foreldrum sínum. Að hjóla með börnin í barnaöryggisæti festu á reiðhjólið eða í tengivagni fyrir börn sem er festur aftan í reiðhjól foreldra eru oft fyrstu ferðirnar. Einnig er hægt að fá sérstök tengireiðhjól, það eru lítil reiðhjól sem tengd eru aftan í reiðhjól hins fullorðna með sérstökum búnaði. Þessi tengihjól hafa einungis afturhjól, sæti og stýri, og hinn fullorðni ræður alltaf ferðinni. Varað er við því að binda barnareiðhjól við hjól fullorðins, og reyna þannig að draga barnið. Það er stórhættulegt og veldur nær undantekningarlaust slysi. Þegar börnin eldast er hægt að kaupa handa þeim lítið reiðhjól og hjóla með þeim stuttar vegalengdir í fyrstu. Þannig má kenna þeim að nota reiðhjólið sem farartæki.

Allir sem nota reiðhjól ættu að nota reiðhjólahjálm, það er mikið öryggisatriði. Samkvæmt lögum er hjálmanotkun skylda hjá öllum yngri en 15 ára. Hjálmurinn ver reiðhjólamanninn ekki bara gegn höfuðhöggi ef hann lendir í árekstri við önnur farartæki, hann verndar líka gegn höfuðmeiðslum sem verða ef hinn hjólandi fellur af reiðhjólinu.

En það er ekki nóg að vera með hjálm, hann þarf að vera rétt settur á höfuðið, annars veitir hann falskt öryggi. Og þess vegna engar þykkar húfur undir hjálminn, þá hlífir hann ekki lengur höfðinu. Þunnar húfur sem fást í hjólaverslunum og hálskragar eru mun betri. Einnig eru til sérstök eyrnaskjól sem á afar auðveldan hátt eru fest á böndin sem halda hjálminum.

Annar öryggisbúnaður sem gjarnan sést á reiðhjólum barna er skærlit veifa eða fáni á langri stöng sem fest er aftan á hjólið. Þessi veifa er einnig afar mikilvægt öryggistæki. Vegna þess hve börn eru lágvaxin og nota þar af leiðandi einnig lítil reiðhjól, þá sjást þau miklu verr en hinn fullorðni reiðhjólamaður. Ýmsar hindranir í umhverfinu, til dæmis kyrrstæðir bílar, grindverk og fleira skyggja algerlega á börn á reiðhjóli. En skærlita veifan á stönginni aftan á hjólinu stendur upp fyrir þessar hindranir og segir okkur að þarna sé barn á reiðhjóli á ferðinni. Þessi öryggisbúnaður dregur úr slysahættu hins unga vegfaranda. Á hverju ári verða nokkur slys þegar ekið er á barn sem hjólaði út á götuna í skjóli kyrrstæðrar bifreiðar. Slík slys eru einmitt algeng í íbúðagötum, þar sem við teljum börnin okkar hvað öruggust.

Þegar ég hjóla á leið minni til vinnu gegnum vesturbæ Reykjavíkur, þá fer ég framhjá þremur grunnskólum. Helsti slysavaldur barna á leið í skólann er án efa mikil bílaumferð, en hún er einmitt óvenjumikil við skólana. Starfslið skólanna á leið til vinnu, hver á sínum bíl, foreldrar keyra börn sín til skóla, oftast eitt barn í bíl. Allt þetta eykur bílaumferðina í nágrenni skólanna og þar með slysahættuna.

Þess vegna var ég ánægður með að sjá nokkra foreldra sem fylgdu börnum sínum á hjóli til og frá skóla. Tvö eða þrjú börn voru að fara sína fyrstu ferð út í umferðina í fylgd fullorðins. Eflaust geta foreldrar farið með börnin til skiptis, og jafnvel geta börn nágrannans fengið að fylgja með.

Mikilvægt er að yngstu hjólandi vegfarendurnir fari ferða sinna eingöngu eftir gangstétt eða göngu- og hjólastígum, og best er að fyrstu ferðirnar séu í fylgd fullorðins. Hjólandi börn yngri en tólf ára eiga ekkert erindi út á umferðargötur. Reyndar geta börnin farið ferða sinna sjálf á hjóli strax um tíu ára aldur, en þá einungis eftir sömu leiðum og gangandi vegfarandi.

Hvernig væri að breyta til í sumar, fara í hjólreiðatúr með fjölskyldunni í stað sunnudagsbíltúrsins? Þannig kynnumst við umhverfi okkar frá nýju sjónarhorni og fáum holla hreyfingu í heilbrigðri útivist. Slík hjólreiðaferð er kjörið tækifæri til náttúruskoðunar af ýmsu tagi. Og síðast en ekki síst eigum við rólega samverustund með fjölskyldunni.

Að lokum vil ég minna á vikulegar byrjendaferðir Íslenska Fjallahjólaklúbbsins í Reykjavík. Byrjendaferðirnar eru léttir hjóltúrar fyrir almenning um hin ýmsu hverfi Reykjavíkur. Hver ferð tekur um einn og hálfan til tvo klukkutíma, hjólað er rólega og með góðum hvíldum inn á milli. Ekkert þátttökugjald er í þessar ferðir. Ferðirnar eru á hverju þriðjudagskvöldi og lagt er af stað frá biðstöð Strætisvagna Reykjavíkur við Mjódd klukkan 20. Hægt er að taka reiðhjól með strætisvögnum númer 111 og 112 sem aka frá Lækjartorgi að Mjódd án aukakostnaðar.

Einnig er Útivist með sambærilegar ferðir klukkan 20 á miðvikudagskvöldum, og lagt er af stað frá gömlu Fákshúsunum við Grillhúsið Sprengisandi. Ég vonast til að sjá sem flesta í þessum ferðum í sumar.

Heimir H. Karlsson. 

Upphaflega flutt í þættinum Útrás á RÚV