Í upphafi kjörtímabils R-listans sem nú er að líða, batt hjólreiðafólk vonir um að eitthvað nýtt myndi gerast í málefnum hjólreiðamanna. Mörg undanfarin ár hafði lítið sem ekkert verið gert í þessum efnum og leit svo út að í huga embættismanna væri fyrirbærið “reiðhjól” vart af þessum heimi eða þá helst bara leiktæki fyrir börn.

Rétt fyrir kosningar 1994 afhenti klúbburinn borginni undirskriftalista með um 3000 undirskriftum um að borgin þyrfti að bæta aðgengi hjólreiðafólks. Á svipuðum tíma gerðist borgin aðili að samtökunum “Car free city club” sem kom þægilega á óvart því hugsanagangurinn þar á bæ er mun jákvæðari í umferðar- og skipulagsmálum en stefna borgarinnar hafði verið fram til þess. Með tilkomu R-listans komst einn maður að í umferðanefnd borgarinnar, sem líklega í fyrsta skipti í sögu borgarinnar gerði sér fulla grein fyrir vanda hjólreiðamanna. Það er Óskar Dýrmundur Ólafsson sem á ekki bíl heldur notar reiðhjól og almenningsvagna til samgangna - líklega í fyrsta skipti í sögu embættismanna borgarinnar.

Fljótlega stóð borgin að átaksverkefni fyrir atvinnulausa og var þar á meðal fengið fólk til að gera úttekt á aðgengi fatlaðra á gangstéttum. Ekki var vanþörf á, því fatlaðir áttu varla kost á því að fara lengra en að anddyri heimila sinna vegna slæmrar hönnunar gangstétta. Við þetta bættust svo slæm vinnubrögð á frágangi og nánast ekkert viðhald gangstétta.

Þar sem bætt aðgengi fatlaðra og hjólreiðamanna áttu samleið þótti öllu hjólreiðafólki þær endurbætur sem nú fóru í hönd til mikilla bóta. Réttara sagt höfðu aðrar eins úrbætur ekki sést frá því borgaryfirvöldum hugkvæmdist í fyrsta sinn að leggja gangstéttir.

Það var svo fyrir nokkrum mánuðum að aðalskipulag borgarinnar leit dagsins ljós. Þar er að finna margar setningar sem hljóma eins og gullkorn í eyrum þeirra sem vilja í raun og veru leggja eitthvað á sig í að bæta umhverfið og breyta áherslum í umferðamálum til batnaðar. Aðalskipulagið er afar framsækið. Í fyrsta skipti í sögu aðalskipulags er hægt að sjá orðinu “reiðhjól” bregða fyrir, ekki aðeins einu sinni heldur mörgum sinnum. Það kallar á verulegar áherslubreytingar í borginni og reyndar samfélaginu öllu. Til að sýna dæmi um þetta skal vitnað hér í skipulagið:

“Nú er svo komið, að áhrif umferðar á umhverfið er orðið óviðunandi vandamál í heiminum og til óþæginda fyrir marga borgarbúa. Þörf á að auka umferðarrýmd reynist ómettanleg. Að auki mun aukin umferðarrýmd á götum þar sem loft- og hljóðmengun er þegar of mikil laða að sér meiri umferð og gera ástandið enn verra. Stór umferðarmannvirki og hröð umferð er hindrun fyrir aðra en akandi vegfarendur og öryggi þeirra stefnt í hættu. Það er því orðin almenn skoðun skipulagsfólks í hinum vestræna heimi, að samgöngur framtíðarinnar verði ekki leystar með því að greiða fyrir umferð einkabíla á sama hátt og hingað til.

Samkvæmt nýjum áherslum eru aðstæður fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur bættar og vægi þeirra í umferðinni aukið til móts við vægi bifreiða. Unnið er að því að bæta göngu- og hjólreiðaleiðir til þess að hjólreiðar og ganga geti orðið öruggur og raunhæfur ferðamáti á styttri leiðum.

Hlutverk stígakerfisins er að tryggja öruggar og greiðfærar leiðir fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur milli heimila, vinnustaða og þjónustusvæða og að tengja saman opin svæði til útivistar

Hjólreiðareinarnar verða sérstaklega afmarkaðar brautir á götum þar sem ekki er hægt að koma fyrir sér stígum og á þetta sérstaklega við um miðbæinn.”

Nú eiga margir mun auðveldara með að hjóla um gangstéttir enda fer þeim fjölgandi sem nota reiðhjólið til samgangna. Ef við rifjum það upp hvernig ástandið var í samgöngumálum hjólreiðafólks fyrir tíð R-listans þá var það vægast sagt ótrúlegt. Hjólreiðafólk þurfti að fljúga yfir kanta, flága og steinsteypta hóla sem kallaðir voru umferðaeyjur. Fyrir marga gangandi voru þessar gangstéttir hreinasta torfæra. Sum borgarhverfi voru ekki í neinu stígasambandi og svona mætti lengi telja. Í dag höfum við fengið óslitinn stíg frá Ægissíðu upp í Víðidal. Grafarvogurinn er kominn í stígasamband við Vogahverfið og hjólreiðafólk getur notað strætisvagna á lengstu leiðum til og frá úthverfunum.

Komnar eru brýr yfir verstu umferðaæðarnar og þeim á eftir að fjölga. Miklabrautin liggur miðsvæðis í gegnum Reykjavík. Hún hefur því verið ein helsta samgönguæð hjólreiðafólks þrátt fyrir versnandi ástand vegna nær algjörs viðhaldsleysis áratugum saman. En viti menn! Í sumar er loksins fyrirhugað að ráðist verði í endurbætur á stígunum meðfram Miklubraut. Auk þess verður unnið við stíginn meðfram Sæbrautinni.

Ef unnið verður með auknum krafti í stígamálum á næsta kjörtímabili eins og aðalskipulagið segir til um, þá gæti hjólreiðafólk hugsanlega búist við að sjá óaðfinnanlega hjólreiðastíga, aðgreinda frá annarri umferð á næsta kjörtímabili. Borgin myndi þá skjótast áratugi fram á við í umferðar- og skipulagsmálum.

Almennt þekkingarleysi

En við skulum aðeins koma okkur niður á jörðina. Þó margt hafi gerst seinastliðin ár og loforðin séu fögur er ennþá himinn og haf sem greinir að fyrirheit Aðalskipulagsins og raunveruleikann. Það er og verður tilhneiging borgar- og bæjaryfirvalda að reyna komast hjá því að hanna hjólreiðastíga þannig að reiðhjólið verði spennandi valkostur gagnvart einkabílnum. Málefni hjólreiðafólks þurfa líka að ræða á Alþingi, en þar hefur þessi málaflokkur ekki verið talin merkilegur pappír. Það verður því ofboðsleg vinna, þá sérstaklega fyrir Landsamtök hjólreiðamanna, að kynna þennan málaflokk fyrir þingmönnum svo þeir fari að ræða þessa hluti án þess að roðna.

Ástæða þess að Fjallahjólaklúbburinn var ekki meira áberandi á framboðsfundum í nýafstöðnum sveitastjórnarkostninum var sú að strax á fyrstu fundum kom það í ljós að margir frambjóðendur höfðu lítið vit á okkar málefnum. Enda eru þeir fáir sem hafa þann þroska og kjark til að bera að ræða þessa hluti opinberlega við almenning sem að meiri hluta er illa haldinn “bílafíkn”. Það var því tilgangslaust að ræða um hluti þar sem frambjóðendur annaðhvort slógu fram úreltum frösum eða tómu bulli. Það verður því okkar helsta vinna í framtíðinni að koma málefnum hjólreiðafólks á framfæri í fjölmiðlum og beint til embættismanna.

Magnús Bergsson